Kæri þingmaður
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í því hlutverki sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Við viljum vekja athygli þína á mikilvægi þess að Ísland beiti sér fyrir friði í heiminum og taki þar með ekki þátt í hernaði hér á landi sem annars staðar.
Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum og aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.
* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Þau fyrirheit sem gefin voru á fundi leiðtoga stærstu kjarnorkuveldanna í Reykjavík árið 1986, um að stefna að kjarnorkuafvopun í heiminum, eru löngu farin út um þúfur og kjarnorkuveldin halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Sú hugmynd að kjarnorkuvopn hafi fælingarmátt með því að valda ógnarjafnvægi sem muni leiða til friðar, er frávita. Heimurinn hefur líkast til aldrei frá lokum síðari heimsstyrjaldar staðið nær því að lenda í kjarnorkustríði en einmitt nú, þegar verið er að hóta beitingu kjarnorkuvopna í Evrópu. Nú þegar hafa 69 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.
* Ísland er aðili að stríðsbandalaginu Nató, sem hefur það grunnatriði í sinni hernaðarstefnu að búa yfir og vera reiðubúin til að beita kjarnorkuvopnum. Með þeirri aðild hefur Ísland ekki treyst sér til að fylgja eigin stefnu um friðlýsingu gegn kjarnorkuvopnum og hefur ennfremur falið Bandaríkjunum fullt vald til að nýta hernaðaraðstöðu sína á og við Ísland sem lykilstöðu í kjarnorkustríði á norðurslóðum. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr stríðsbandalaginu Nató.
* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem er í raun vígvæðingarsamningur er felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að ákveða hernaðarumsvif á og við Ísland. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða, með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Við skorum á þig að vinna að sjálfstæðri og friðsamri leið Íslands, stöðva hernaðaruppbyggingu hér á landi nú þegar og segja upp vígvæðingarsamningnum við Bandaríkin.
* Árum saman hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað víða um heim með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Í þessum styrjöldum eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar, bakhjarlar og vopnasalar. Bein hernaðaríhlutun stórvelda hefur hvergi leitt til góðs og dæmin sýna hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Íslendingar eiga að þora að standa við að vera herlaus þjóð að taka aldrei þátt í hernaðarstuðningi, sama hver málstaðurinn er. Þannig er mikilvægt að Ísland hætti þegar í stað að fjármagna hernað í Úkraínu og beiti sér eingöngu að því að veita pólitískan stuðning, mannúðaraðstoð og að hafa milligöngu um friðsamlegan endi á stríðinu þar. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að ríki heims hætti að treysta herjum fyrir friði og fari þess í stað að mynda bandalög um frið og framfarir, sem hafna ofbeldi og hernaði.
* Styrjaldir og átök í heiminum, fyrr og nú, eiga sér rætur í hagsmunabaráttu um auð og völd. Hugmyndafræðilegur ágreiningur um trúarbrögð og þjóðerni og menningu, eru aðeins fyrirsláttur til að safna fólki í andstæð lið. Friður byggir á samvinnu á mörgum sviðum samtímis, um uppbyggingu undirstaðna efnahags á hverju svæði, um gildi og fyrirkomulag lýðræðis og mannréttinda, um úrræði sem stuðla að sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og gegn mengun, um viðskipti á jafnréttisgrunni, um virðingu fyrir menningu og miðlun hennar til að auka skilning milli þjóðfélaga, um að strengja þess heit að finna friðsamlega lausn á sérhverjum vanda og hafna hernaði.
Undir þetta ritum við öll sem erum í miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga.
Daníel Guðjón Andrason
Guttormur Þorsteinsson
Elín Oddný Sigurðardóttir
Friðrik Atlason
Harpa Kristbergsdóttir
Ingibjörg Haraldsdóttir
Lowana Veal
Sigurður Flosason
Soffía Sigurðardóttir
Stefán Pálsson
Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson