Utanríkisráðuneytið sendi í morgun frá sér fréttatilkynningu um þjónustuheimsókn kjarnorkuknúna árásarkafbátsins USS Delaware út í Eyjafjörð þar sem landhelgisgæslan slær heiðursvörð um þetta stríðstæki. Samkvæmt fréttatilkynningunni er þetta sjötta heimsókn slíks kafbáts síðan að utanríkisráðuneytið heimilaði slíkar heimsóknir í apríl 2023.
Þetta er sagt “liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins” en þjónar augljóslega ekki hagsmunum Íslands þar sem að eltingarleikur kjarnorkukafbáta á íslensku hafsvæði er ógn við bæði öryggi og lífríki landsins. Nýleg valdaskipti vestra hafa einnig varpað ljósi á að allt tal um sameiginlegar varnir Nató er hjákátleg óskhyggja.