Efnt verður til kertafleytinga á fjórum stöðum þriðjudagskvöldið 9. ágúst, á Nagasakí-daginn, til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Japan og til stuðnings kröfunni um frið í veröldinni og heim án kjarnorkuvopna.
Í Reykjavík hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn frá árinu 1985. Engin breyting verður á því nú. Safnast verður saman við suðvesturenda Tjarnarinnar við Skothúsveg kl. 22:30. Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur og bókmenntafræðingur flytur stutt ávarp. Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir verður fundarstjóri.
Flotkerti verða seld á staðnum á kr. 500, athugið að enginn posi verður á svæðinu.
* * *
Á Ísafirði og Patreksfirði verða fleytingar á sama tíma og í Reykjavík, kl. 22:30. Ísfirðingar hittast við Neðstakaupstað á Suðurtanga þar sem Nina Ivanova flytur ávarp. Á Patreksfirði er komið saman við franska minnisvarðann í Króknum og mun María Ósk Óskarsdóttir flytja ávarp. Á báðum stöðum sameinast fólk í yfirlýsingunni: Aldrei aftur Hírósíma og Nagasakí!
Kertfleytingin á Vestfjörðum á Facebook.
* * *
Akureyringar koma saman hálftíma fyrr, kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Árni Hjartarson, en samkoman er haldin í nafni Samstarfshóps um frið.