Skip to main content

Hermang og hræðsluáróður

Samtök hernaðarandstæðinga boða til óformlegs umræðufundar um hervæðingu Íslands og mótspyrnu gegn henni í Friðarhúsi miðvikudaginn 29. október kl. 20:00.
SHA leggja áherslu á að raunverulegir öryggishagsmunir Íslands byggi á friði og herleysi og kalla eftir umræðu um hvernig er hægt að vekja athygli á því meðal almennings og pressa á stjórnvöld um friðvænlegri stefnu.
Síðustu mánuði hafa dunið yfir okkur fréttir af því hvernig Ísland dregst sífellt lengra inn í stríðsæsinginn í Evrópu. Háum fjárhæðum er lofað í vopnakaup, hernaðartengdar framkvæmdir fyrir erlenda heri á Íslandi og sífellt fleiri viljayfirlýsingar eru undirritaðar um hernaðarsamvinnu. Á sama tíma hefur komið upp háværari umræða um stofnun íslensks hers. Allt gerist þetta í skugga þess að heimsmynd íslenskra- og evrópskra hernaðarsinna og talsmanna vestrænnar samvinnu hefur hrunið. Það er því langt síðan gefist hefur betra tækifæri til og verið meiri þörf á því að tala fyrir friðsamlegum valkostum.