Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga blóðugra hernaðarátaka víða um veröldina og vaxandi hernaðarhyggju sem birtist meðal annars í hugmyndum um stórfellda vígvæðingu og
hernaðarútgjöld. Kerfisbundið er grafið undan alþjóðlegum
afvopnunarsamningum og ráðamenn heimsins gæla við beitingu
kjarnorkuvopna. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman milli Snorabrautar og Hlemms og á
slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Söngfjelagsins sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Kolbrún Halldórsdóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Askur Hrafn Hannesson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Vilji fólk styrkja gönguna um jafngildi eins kertis er hægt að gera það með því að smella hér.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Ræðumaður á Akureyri er Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, formaður Vonarbrúar.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi