Skip to main content

Endum stríð með friði

By Ályktun

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega áformum íslenskra stjórnvalda um að kaupa vopn til að senda á vígvöll í öðrum löndum. Á Íslandi býr herlaus þjóð og mikilvægt er að Íslendingar stofni aldrei her. Sem þjóð án hers eru Íslendingar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og vera málsvarar friðsamlegra leiða til að leysa margvíslegan ágreining víða um heim. Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO, tók Ísland ekki þátt í herráði NATO og lagði því hvorki til hermenn né drápstól.

Á seinni árum hafa vígfúsir stjórnmálamenn hins vegar bætt æ meir í þátttöku Íslands í vígbúnaði og hernaðarátökum. Gróft dæmi þess var þegar íslenskir ráðherrar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru viljugar til að heyja stríð í Írak. Síðan hefur Landhelgisgæslu Íslands smám saman verið blandað inn í allskyns heræfingar, sem er mjög varasöm aðgerð, þegar sjófarendur við Ísland eiga að geta treyst á hernaðarlegt hlutleysi þess mikilvæga björgunaraðila sem Landhelgisgæslan er, bæði á friðartímum og þegar stríðsógnir eru uppi. Þá eru stjórnmálamenn líka farnir að leggja til að Íslendingar leggi til hermenn í mögulegan norrænan her. Nú síðast lýsa íslensk stjórnvöld því yfir að þau ætli að fjármagna kaup á vopnum og flutning þeirra til að auka enn á stríðshörmungar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnubreytingu er brýnt að stöðva og það strax.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í alla staði óréttlætanleg og Samtök hernaðarandstæðinga ítreka fordæmingu sína á þeim yfirgangi. Hver dagur sem stríðið hefur staðið, hefur kostað fjölda fólks líf sitt, brotið og bramlað samfélög og spillt náttúru. Hver dagur sem stríðið mun standa áfram, mun verða framhald á sömu hörmungum. Þúsundir ungra karlmanna hafa dáið og örkumlast í þessu stríði og nú er verið að sækja ungar konur til að falla í þessum vonlausu skotgröfum líka. Þessu galna stríði lýkur ekki með „sigri“ á vígvöllum, áframhaldandi stríð í Úkraínu mun bara versna. Eina lausnin á þessu stríði er tafarlaust vopnahlé og friðarviðræður í kjöfarið. Það er skylda okkar Íslendinga að standa föstum fótum sem herlaus þjóð og beita okkur fyrir friðsamlegri lausn á stríðinu í Úkraínu.

 

Málsverður á föstudaginn langa

By Viðburður
Sú var tíðin að föstudagurinn langi var leiðinlegasti dagur ársins, þar sem ekkert mátti gera. Þeir dagar eru löngu liðnir. Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi verður haldinn eins og ekkert hafi í skorist. Matseðillinn er með glæsilegasta móti og skemmtiatriðin ekki af verri endanum!
Kokkar kvöldsins verða Jón Yngvi Jóhannsson sem sér um alæturnar og Harpa Kristbergsdóttir sem sinnir grænkerunum:
* Svarti sauðurinn – hægeldað lamb í svörtu tapenade og rauðvíni
* Kartöflumús
* Salat með rauðrófum og klettasalati og kannski fleira
* Kitheri – afrískur pottréttur
* Hrísgrjón eða brauð
* Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu mun Guðjón Jensson segja frá nýlegri skáldsögu sinni, Löngu horfin spor & hin eina sanna fjöllistakona Skaði Þórðardóttir tekur lagið.
Húsið verður opnað kl. 18:30. Verð kr. 2.500, öll velkomin.
Qidreh pottréttur

Febrúarmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi fer fram föstudaginn 23. febrúar n.k. Um er að ræða sannkallaðan fjölskyldumálsverð með tveimur kokkateymum: bræðrunum Friðriki og Gísla Atlasonum & Eskhlíðingunum Stefáni, Steinunni Þóru og Nóam ÓIa.

Matseðill:

* Qidreh – palestínskur lamba- og hrísgrjónapottréttur
* Mexíkóskur grænkerapottréttur með svartbaunum og sætum kartöflum
* Heimabakað brauð
* Kaffi og brownies í eftirrétt

Að borðhaldi loknu mun Þorvaldur Friðriksson fjalla um nýlega bók sína um skrímsli í sögu Íslands. Nánari dagskrá kynnt síðar. Sest verður að snæðingi kl. 19. Varð kr. 2.500.

Öll velkomin.

Sveppaskí í bakgrunni vegaskiltis til Suðurnesja

“Ísland er Atómstöð” Kjarnorkuváin í sögu og samtíð

By Viðburður
Sprengjusveppur
Skjalasafn Samtaka hernaðarandstæðinga opnar dyr sínar fyrir gestum safnanóttar með fræðslu um kjarnokuvánna eins og hún birtist í safnefni og samtíma okkar. Yfirstandandi stríð kjarnorkuvelda hafa minnt óþyrmilega á tilvist kjarnorkuvopna og myndin Oppenheimer vakið umræðu um tilurð þeirra og tilvist. Samtök hernaðarandstæðinga hafa lengi mótmælt kjarnorkuvígbúnaði og eiga í fórums sínum fjöldamörg skjöl og útgefið efni um þá baráttu.
Tómas Jóhannesson eðlisfræðingur flytur fyrirlestur um upphaf sprengjunar og Stefán Pálsson og Tjörvi Schiöth sagnfræðingar sitja fyrir svörum um baráttuna gegn kjarnavopnum á hálfa tímanum, frá 18:30 til 21:30.
Veggspjöld og skjöl um baráttuna gegn kjarnorkuvopnum verða til sýnis á meðan svipmyndir frá baráttunni renna á tjaldinu út kvöldið.
UNRWA logo

Ályktun um frystingu á aðstoð við Palestínu

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.

Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.

Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.