Skip to main content

Listi þeirra sem sáu að sér

By Uncategorized

Þessi grein Einars Ólafssonar, ritara SHA, birtist í fréttablaðinu 28. janúar sl.

Það er svolítið undarlegar umræður þessa dagana um lista hinna viljugu þjóða eða ríkja. Menn deila meðal annars um hvort einhver listi sé til, hvort hann hafi einhverntíma verið til, hvort hann sé til enn, hvort sé eitthvert mark takandi á honum hafi hann einhvern tíma verið til, hvort hann sé bara verk einhvers undirsáta í Washington og ég veit ekki hvað. En væri ekki ráð að spyrja sig fyrst: Hvað eiginlega er listi? Er listi nokkuð annað en upptalning á einhverjum hlutum eða atriðum sem af einhverjum ástæðum er ástæða til að telja saman? Um leið og vitað var um 30 ríki sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak og einhver búinn að skrifa þau á blað var komin listi. Og sá listi hverfur ekki þótt einhverjum þyki ástæða til að telja saman þau ríki sem eru með hermenn í Írak og þannig verði til annar listi. Og listi yfir ríki sem studdu innrásina hverfur ekki heldur þótt einhver ríki sem það gerðu ákveði að hætta stuðningi við hernám Íraks og aðgerðir Bandaríkjanna þar. Það bætast bara tveir listar við: listi yfir þau ríki sem enn styðja hernámið og listi yfir þau ríki sem hafa hætt því.

Þannig er listinn sem slíkur aukatriði. Málið snýst um tvennt: Annars vegar hvort rétt hafi verið að styðja innrásina og hins vegar hvort rétt hafi verið að þeirri ákvörðun staðið. Og það er sitthvort málið. Ef við vorum á móti innrásinni skipti í sjálfu sér ekki höfuðmáli hvernig ákvörðunin var tekin, hún var röng og forkastanleg hvernig sem hún var tekin. Hins vegar er það í sjálfu sér alvarlegt mál að svo mikilvæg ákvörðun sé tekin á jafn ólýðræðilegan hátt og gert var. Um það geta menn verið sammála þótt þeir séu á öndverðri skoðun um réttmæti innrásarinnar – eða ættu að geta verið það.

Í skoðanakönnun Gallups sem var birt 7. janúar er spurt hvort Ísland eigi að „vera á lista með þeim þjóðum sem styðja hernaðaraðgerðir Breta og Bandaríkjamanna í Írak“. Með þessu er augljóslega verið að spyrja um hvort íslenska ríkisstjórnin (eða ráðherrarnir tveir) eigi að draga til baka stuðning sinn við hernaðaraðgerðirnar sem nú standa yfir í Írak. Þetta hljóta allir að skilja nema umræddir tveir ráðherrar og þeirra nánasti umgangskreðs. Þetta skilningsleysi stafar ekki endilega af greindarskorti. Þeir eru bara í vondum málum og rökþrota en vilja horfast í augu við vilja þjóðar sinnar.

Ef við höldum áfram þessu listatali, þá getum við talað um lista yfir lönd þar sem þjóðin hefur hafnað stuðningi við stríð sem ráðherrar hennar vildu styðja og það væri líka hægt að hugsa sér lista yfir ráðherra eða ríkisstjórnir sem hafa séð að sér og látið af stuðningi við hernaðaraðgerðir í Írak. Þeir væru menn að meiri ráðherrarnir sem færu á slíkan lista.

Einar Ólafsson

Ályktanir landsráðstefnu SHA 2004

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga bjóða ráðherrum áfallahjálp

Öllum þeim sem fylgst hafa með fréttum undanfarin misseri er ljóst að bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli hefur verulega dregið úr starfsemi sinni og heldur sú þróun áfram. Samtök herstöðvaandstæðinga fagna þessari þróun og telja hana stefna í þá átt að fjöldi erlendra hermanna í landinu verði ásættanlegur – sem verður þá aðeins að hér sé enginn erlendur her.

Í ljósi þess að þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa boðið í skiptum fyrir þetta herlið:

* í fyrsta lagi skilyrðislausan stuðning Íslands við ólöglegt árásarstríð í Írak

* í öðru lagi aðstoð íslenskra hermanna við hernám Afganistans

* í þriðja lagi stuðning Íslendinga við sitjandi Bandaríkjaforseta í kosningum

þá er ljóst að markviss viðleitni þeirra til að gera Íslendinga að undirlægjum Bandaríkjastjórnar hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Því vilja Samtök herstöðvaandstæðinga af rausn sinni bjóða þeim Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni áfallahjálp af hálfu færustu sérfræðinga, þeim að kostnaðarlausu.

Enda þótt þeir Davíð og Halldór hafi óviljandi náð ágætum árangri í að fækka erlendum hermönnum í landinu minnum við á að betur má ef duga skal. Ísland úr Nató – herinn burt!

* * *

Íslenski herinn hverfi frá Afganistan

Samtök herstöðvaandstæðinga hvetja íslensk stjórnvöld til að kalla herlið það er gengur undir dulnefninu friðargæslulið þegar í stað frá Afganistan. Ljóst er að störf þessa liðs þar er í engu samræmi við þau borgaralegu verkefni sem ríkisstjórnin gaf í skyn að slíkt lið ætti að gegna.

Sérlega ísjárvert er að dvöl íslensks herliðs í Afganistan skuli vera réttlætt sem framlag okkar til Atlantshafsbandalagsins. Það sýnir fram á í hvílík öngstræti aðild okkar að slíku hernaðarbandalagi hefur leitt. Aðild Íslendinga að manndrápum í öðrum löndum er ekki óhjákvæmileg heldur val íslenskra ráðamanna.

Ísland úr Nató – herinn burt … frá Afganistan!

* * *

Útrýming kjarnorkuvopna er eina færa leiðin til friðar

Samtök herstöðvaandstæðinga minna á að í uppsiglingu er mikilvæg ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um Sáttmálann um takmörkun og útrýmingu kjarnorkuvopna (NPT) en hann var fyrst gerður árið 1968. SHA krefjast þess að ríkisstjórn Íslands skipi sér í hóp með meirihluta ríkja heims sem vill að kjarnorkuveldi stefni óhikað að því að eyða öllum kjarnorkuvopnum sínum, í samræmi við sjöttu grein sáttmálans.

Samtök herstöðvaandstæðinga vekja athygli á því að stefna Atlantshafsbandalagsins um að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði gengur fullkomlega á svig við markmið sáttmálans. Hótun um beitingu kjarnorkuvopna er siðlaus og stefnir öryggi allra jarðarbúa í hættu. Því árétta Samtök herstöðvaandstæðinga andúð sína á slíku hernaðarbandalagi: Ísland úr Nató – kjarnorkuvopnin burt!

SHA

Ályktun vegna umferðar kjarnorkuskipa í efnahagslögsögu Íslands

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga vekja athygli á þeirri hættu sem vera rússneskra herskipa í efnahagslögsögu Íslands hefur haft í för með sér. Í þessum flota eru kjarnorkuknúin skip og skip sem vitað er að geta borið kjarnorkuvopn. Öllum má vera ljóst hvaða skaða slys á þessu svæði gæti haft í för með sér.

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa um árabil vakið athygli á þeirri hættu sem fylgir umferð með kjarnorkuvopn á miðunum umhverfis Ísland. Þótt umræðan um kjarnorkuvopn sé ekki eins fyrirferðarmikil nú og þegar kalda stríðið stóð sem hæst, hefur vopnum þessum ekki fækkað og lítið dregið úr flutningum þeirra í skipum og kafbátum. Á síðustu árum hefur það einnig margsinnis gerst að íslensk stjórnvöld bjóði til heræfinga við landið skipum sem ástæða er til að ætla að innihaldi kjarnorkuvopn.

Íslenskir friðarsinnar hafa um árabil krafist þess að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þessu hafa stjórnvöld hafnað og bera því við að slík samþykkt jafngildi úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Í því ljósi ber að skilja þögn ríkisstjórnarinnar gagnvart rússneska herskipaflotanum.

Samtök herstöðvaandstæðinga vekja jafnframt athygli á því að þorri íslenskra sveitarfélaga hefur á síðustu misserum samþykkt yfirlýsingu þess efnis að umferð kjarnorkuvopna sé þar óheimil. Óskandi væri að Alþingi færi að fordæmi þeirra.

SHA