Skip to main content

Miðnefnd SHA 2018-19

By Tilkynningar

Á landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga þann 26. mars síðastliðinn var ný miðnefnd kjörin, líkt og lög gera ráð fyrir. Guttormur Þorsteinsson var sjálfkjörinn nýr formaður samtakanna og tók þar með við keflinu af Auði Lilju Erlingsdóttur. Hann er starfsmaður Borgarbókasafns og átti fyrir sæti í miðnefnd.

Í fyrsta sinn um langt árabil þurfti að kjósa milli frambjóðenda til miðnefndar, en fjölgað var um henni úr 9 í 12 með lagabreytingu á fundinum. Kjöri náðu: Sigurður Flosason, Harpa Stefánsdóttir, Ólína Lind Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir.

Varamenn voru sjálfkjörin þau Daníel Arnarsson, Bergljót Njóla Jakobsdóttir og Unnur Tryggvadóttir Flóvenz. Rétt er að taka fram að ekki er hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varafulltrúum í störfum miðnefndar.

Á fyrsta fundi nýrrar miðnefndar var Sigurður Flosason skipaður gjaldkeri en Stefán Pálsson ritari.

Friðarvefurinn rankar úr rotinu

By Fréttir

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is