Birtist í Fréttablaðinu 2. des. 2010
Össur Skarphéðinsson kallar NATO-fundinn í Lissabon „heimssögulegan”. Í Fréttablaðsgrein 23. nóvember nefnir hann tvennt mikilvægast í „nýju grunnstefnunni”: a) barátta við „hermdarverk sem í dag er mesta ógnun við stöðugleika og frið” og b) „gerbreytt skotflaugavarnarkerfi” til varnar Vesturlöndum og Rússum – sem nú féllust í faðma.
Stóra verkefni NATO núna er stríðið í Afganistan (og Pakistan). Innrásarherinn telur 100.000 bandaríska hermenn og 50.000 frá öðrum NATO-ríkjum. Uppistaðan í síðarnefndu tölunni kemur frá 38 Evrópuríkjum. Innrásarherinn er nú þrefalt fjölmennari en hann var þegar Barack Obama tók við keflinu af Bush, og miklu skiptir stóraukin þátttaka Evrópulanda. Listi „viljugra þjóða” hefur í raun lengst mjög.
Meginmálið varðandi Afganistan var að færa aftur allar dagsetningar um heimkvaðningu herja. Í stað verulegrar heimkvaðningar um mitt ár 2011 eru nú nefnd árslok 2014. Þá verður hernámið orðið 13 ára. Yfirmaður breska heraflans Sir David Richards sagði stuttu fyrir fundinn: „NATO verður að búa sig undir 30 til 40 ára hlutverk við að hjálpa afgönsku hersveitunum#…” (Daily Mail, 15. nóv). Í grein í Fréttablaðinu 20. nóvember skrifar Obama að NATO þurfi að „stofna til varanlegrar samvinnu við Afganistan”.
Á gunnfána Bandaríkjanna og NATO er letrað „stríð gegn hryðjuverkum”. Þegar Sovétríkin hrundu 1991 var mikill vandi á höndum. Réttlætingu vantaði fyrir 700 bandarískum herstöðvum vítt um hnöttinn og áframhaldandi tilvist NATO. Heimsvaldasinnar þurfa sýnilegan óvin og vanti hann þarf að búa hann til. Hann var fundinn í formi alþjóðlegs samsæris íslamskra hryðjuverkamanna, en sem kunnugt er liggja mestu olíulindir heims í löndum múslíma. Enda segin saga: hvar sem heimsvaldasinnar síðan (beint eða gegnum staðgengla) hafa ruðst inn á olíuauðug svæði, í Afganistan, Írak, Sómalíu, Súdan, Jemen m.m., hafa þeir fyrst „fundið” þar dularfulla og hættulega íslamista, yfirleitt undir nafninu Al-Kaída. Það segir sína sögu að CIA-menn hafa nýlega metið það svo sjálfir að í Afganistan séu mesta lagi 50 til 100 félagar í Al-Kaída. Þeir nota það nú sem rök fyrir útvíkkun stríðsins til Pakistans (ABC News, 27 júní sl.).
Með því að veifa vígorðinu „stríð gegn hryðjuverkum” vinna vestræn auðvaldsríki tvennt: Skálkaskjól til að taka þátt í ábatasömum ránsleiðöngrum með öflugustu vígvél heims og skálkaskjól til að skerða borgaraleg réttindi heima fyrir. Össur lýsti yfir stuðningi við „stríð gegn hryðjuverkum” með þessum orðum: „Sarkozy, Frakklandsforseti, kvað skýrt að orði, og sagði að mesta sameiginlega ógnin við Rússland og þjóðir Atlantshafsbandalagsins stafaði af framferði ofbeldisfullra múslímskra öfgasamtaka.” Með slíkri framsetningu án meðfylgjandi athugasemda eða efasemda gerir Össur þau orð að sínum.
„Eitt af því sem Rússar vilja eiga samstarf við bandalagsþjóðirnar að uppfylltum skilyrðum er gerbreytt skotflaugavarnarkerfi, sem á að verjast hugsanlegri ógn frá þeim 27 þjóðum, sem taldar eru búa yfir skotflaugum sem gætu á átakatímum ógnað íbúum Vesturlanda, og Rússa. Nokkrir þjóðarleiðtoganna hikuðu ekki við að nefna þar sérstaklega Íran og Sýrland,” segir utanríkisráðherrann athugasemdalaust.
Meinar Össur með hönd á hjarta að einhver 27 ríki ógni Vesturlöndum? Og þar af séu Íran og Sýrland hættulegust? Hann kallar skotflaugavarnarkerfið „gerólíkt” kerfinu sem Bush lagði upp með. Obama sjálfur segir að nýja gerðin sé „sterkari, kænni og hraðvirkari vörn fyrir bandaríska heri og bandamenn þeirra… en fyrri gerðin” (New York Times 17. sept. 2009). Kerfið sem er í uppbyggingu verður inni á gafli Rússa, frá Eystrasaltslöndum um Pólland, Tékkland, Rúmeníu og Búlgaríu. Auk þess er í uppbyggingu þéttriðið skotflaugakerfi um Miðausturlönd, og kringum Íran sérstaklega, og frá skipum á öllum aðliggjandi hafsvæðum. „Gerólíkt”? Meinlausara?
Össur túlkar Lissabonfundinn sem svo að ágreiningur við Rússa hafi verið jafnaður. Ég túlka hann hins vegar þannig að Rússar hafi beygt sig í duftið fyrir því ógnarveldi sem króar þá inni. Frá 1990 hafa Bandaríkin og NATO flutt vígstöðvar sínar í austur, komið sér upp æ fleiri nýjum herstöðvum í gömlu lýðveldum og fylgiríkjum Sovétríkjanna. Pútín reyndi að mynda ný bandalög gegn því sem hann kallaði „einpóla heim”. Medvedev lét af þeirri stefnu í sumar þegar hann ásamt Kínverjum gekkst inn á harðar refsiaðgerðir gegn Íran, og þangað beinast nú spjótin meira ógnandi en nokkru sinni.
Í Lissabon kom NATO í fyrsta sinn opinskátt fram sem hnattrænt bandalag, og myndar nú meginstoð í gífurlega miðstýrðu einpóla, alþjóðlegu valdakerfi. Sá valdapóll þolir ekki óháða utanríkisstefnu nokkurs ríkis, ekki einu sinni mótþróa. Ágreiningsmál eru leyst með valdboði hinna sterku í bandalaginu og með hervaldi þegar með þarf. Stefna Medvedevs á Lissabonfundinum sýnist mér vera friðkaupastefna, ekki ólík því er Chamberlain þóttist hafa keypt „frið á okkar tímum” í München 1938. Ekki sefaði það hungur úlfsins.
eftir Finn Guðmundarson Olguson
Birtist í Fréttablaðinu 1. des. 2010
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ritaði bréf í Fréttablaðið sem birtist þann 23. nóvember síðastliðinn. Titill bréfsins var „Heimssögulegur fundur í Lissabon” og fjallaði um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Portúgal. Össur lætur í veðri vaka að það sé ákvörðun rússneskra stjórnvalda að taka höndum saman við NATO í ýmsum verkefnum sem séu „söguleg” og er á honum að skilja að þetta sé af einhverjum ástæðum jákvætt skref í átt til friðsælli heims. Röksemdir sem styðja viðhorf ráðherra eru samt sem áður víðsfjarri og þær sem hann þó býður upp á afskaplega veikar.
Svo virðist vera að Össur hafi reynst ginnkeyptur gagnvart linnulausum áróðri NATO fyrir því að samtökin séu þrátt fyrir allt friðarsamtök; þau stefni að friðsömum heimi með því að skapa valdajafnvægi milli sterkustu herja heims og með því að bregðast við ógnum við evrópskan og norður-amerískan frið. Þessi söngur getur þó á engan hátt talist „heimssöguleg” nýjung heldur hefur bandalagið hamrað á þessum áróðri síðan á tíunda áratug síðustu aldar þegar það virðist hafa séð sér hag í því að taka upp mildari ímynd opinberlega en hafði mátt skilja á fyrri stefnu.
Þessu var aðallega hrint í framkvæmd árið 1991 með nýrri grunnstefnu (Strategic Concept) sem var í fyrsta sinn í sögu bandalagsins gerð opinber og þar sem orðum á borð við „friður”, „mannréttindi” og „samvinna” var stráð um allt. Óopinberum skjölum um hvernig í raun skal framfylgja þessari stefnu með hernaðarmætti var þó að venju haldið frá augum almennings og er enn. Ný grunnstefna, sem hafði mörg sömu „friðsömu” markmið, var samþykkt í apríl 1999, á sama tíma og NATO stóð að loftárásum á Kosovo sem leiddu til mikils mannfalls almennra borgara. Getur hver dæmt fyrir sig hversu friðsamlega var að málum staðið þar.
Nú hefur Össur Skarphéðinsson gleypt hina nýju, „nýju grunnstefnu” að því er virðist gagnrýnislaust; skjal sem er ætlað að réttlæta á enn frumlegri hátt en áður stefnu máttugasta hernaðarbandalags veraldar. Ráðherra sér ástæðu til að gleðjast yfir að nú hafi Rússar verið fengnir með í leikinn, en samstaða NATO og rússneskra stjórnvalda virðist kristallast í sameiginlegum ótta þeirra við hryðjuverkamenn. Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, „kvað skýrt að orði” samkvæmt Össuri og „sagði að mesta sameiginlega ógnin við Rússland og þjóðir Atlantshafsbandalagsins stafaði af framferði ofbeldisfullra múslímskra öfgasamtaka”.
Finnst Össuri Skarphéðinssyni það í raun og veru vænlegt að forseti Frakklands, sem hefur nýlega staðið fyrir rasískum aðgerðum gegn sígaunum í sínu eigin landi, og rússnesk stjórnvöld, sem hafa drepið og ógnað hverjum þeim sem þorir að tjá sig gegn þeim, hafi nú tekið höndum saman gegn „óvini” sem er svo vítt skilgreindur að undir hugtakið getur fallið allt frá umhverfisverndarsinna til sjálfsmorðsárásarmanneskju?
Er ráðherra ekki að fallast nokkuð auðveldlega á röksemdir stjórnvalda sem hafa sannað trekk í trekk að mesta ógnin við öryggi þegna þeirra eru ekki hryðjuverk heldur þau sjálf? Er líklegt að manneskjum sem ofsækja minnihlutahópa í sínu eigin landi farist það vel úr hendi að tryggja öryggi og frið í víðara samhengi? Ég spyr í von um svar.
Atlantshafsbandalagið er og verður alltaf hernaðarbandalag sem byggist á ofbeldi og valdbeitingu. Æðstu ráðamönnum innan þess er ekki treystandi til annars en að tryggja eigið öryggi og hagsmunaaðila tengdum þeim með því að bæla niður gagnrýni með skerðingu á tjáningarfrelsi almennra borgara, beinu ofbeldi gagnvart mótmælendum og hótunum gegn pólitískum andstæðingum sínum. Síðast en ekki síst er það alltaf vítavert ofbeldi og kúgun þegar manneskjur telja sig geta talað fyrir munn annarra og Össur Skarphéðinsson ætti að hafa það í huga næst þegar hann sýpur á kampavíni með hinum fáu útvöldu að þær ákvarðanir og skoðanir sem þar koma fram eru ekki að neinu leyti skoðanir „hinnar frönsku þjóðar” né „hinnar bandarísku þjóðar” né „hinnar íslensku þjóðar”.
Þær eru ákvarðanir og skoðanir forréttindapakks sem telur sig svo vel af guði gert að það geti með pennastriki ráðið úrslitum um líf eða dauða heilu þjóðanna.
Birtist í Fréttablaðinu 30. nóv. 2010
Núverandi ríkisstjórn hefur að ýmsu leyti sérstöðu á sviði utanríkismála enda stjórnarflokkarnir með mjög ólíka stefnu í þeim málaflokki. Þetta hefur verið áberandi í tengslum við Evrópusambandið og aðildarumsókn Íslands að því. Þetta á ekki síður við varðandi afstöðuna til NATO.
Samfylkingin styður aðild að þessu hernaðarbandalagi og reiðir sig þar á stuðning stjórnarandstöðuflokkanna, einkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Þessi stefna er afleiðing seinustu kosningaúrslita og það er ekkert óeðlilegt að flokkar sem eru ósammála í þessu máli komi sér saman um að mynda ríkisstjórn til að koma fram öðrum málum. Finna má dæmi um þetta frá ýmsum öðrum ríkjum, t.d. Danmörku, þar sem utanríkispólitíski meirihlutinn var annar en ríkisstjórnarmeirihlutinn á níunda áratugnum. Á hinn bóginn er engin ástæða til að breiða yfir þennan ágreining eða láta eins og hann sé ekki til. Viðleitni til þess má finna í skrifum forsætisráðherra og utanríkisráðherra að undanförnu. Þar reyna þau að gera NATO aðlaðandi í augum friðarsinna með því að gefa til kynna að bandalagið hafi breyst. Nánari athugun á málavöxtum styður hins vegar ekki þá skoðun.
Það er rétt að eftir að hann var kjörinn Bandaríkjaforseti gaf Barack Obama til kynna að hann hygðist breyta verulega um stefnu varðandi vígbúnað og afvopnun. Stærsta breytingin var sú að Bandaríkin hafa nú gert kjarnorkuafvopnun að lokamarkmiði sínu. Fyrir yfirlýsingar sínar í þessum málum fékk Obama friðarverðlaun Nóbels 2009. Sú viðurkenning var þó of snemmbær. NATO-fundurinn á dögunum samþykkti stefnu sem er í meginatriðum sú sama og var ákvörðuð á svipuðum fundi 2008, þegar George W. Bush var Bandaríkjaforseti. Sérstaklega er eftirtektarvert að ekki skuli hróflað við kjarnorkustefnu bandalagsins.
Ef mark væri takandi á yfirlýsingum Obamas um kjarnorkuafvopnun hefði NATO getað stigið ýmis skref í átt að kjarnorkuafvopnun. Í fyrsta lagi með því að falla frá núverandi stefnu sem felur í sér að bandalagið áskilur sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði. Það gerðist ekki heldur rígheldur NATO í þá stefnu. Þetta gerir það að verkum að eldflaugavarnakerfi sem bandalagið kemur sér upp verður ekki skilgreint öðruvísi heldur en sem árásarkerfi.
Með þessu kerfi kemur bandalagið sér upp aðstöðu til að gera kjarnorkuárásir á önnur lönd án þess að þurfa að óttast gagnárás. Slíkt er ögrun við öll kjarnorkuveldi sem standa utan þessa samkomulags, þ.á m. Kína, Indland og Pakistan. Það felur einnig í sér aukna hótun um árás á hvert það ríki sem Bandaríkin ákveða að skilgreina sem óvinaríki hverju sinni, óháð því hvort það hafi yfir kjarnorkuvopnum að ráða eða ekki. Eina breytingin á fyrri samþykktum um eldflaugavarnir er aukið samráð við Rússland. Í því felst þó afar lítið framfaraspor því að eftir sem áður mynda slíkar eldflaugavarnir ógn við öll ríki þriðja heimsins og þar af leiðandi mikinn meirihluta jarðarbúa.
Í öðru lagi hefði bandalagið lagt eitthvað að mörkum til að draga úr útbreiðslu kjarnorkuvopna, með því að flytja bandarísk kjarnorkuvopn frá Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Belgíu og Tyrklandi. Engin slík ákvörðun var þó tekin. Í því ljósi eru yfirlýsingar um andstöðu við útbreiðslu kjarnorkuvopna markleysa. Í þeim felst ekki annað en að Bandaríkin vilja taka sér einokunarrétt á því að breiða út kjarnorkuvopn.
Í þriðja lagi gætu NATO-ríkin hafa tekið ákvörðun um að styðja framvegis við bakið á einni af þeim tillögum sem reglulega koma fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, um að ríkjum heimsins beri að ná samkomulagi um að banna hvers konar framleiðslu og meðferð kjarnorkuvopna, ekki síst beitingu kjarnorkuvopna eða hótun um að beita þeim. Jafnframt beri að útrýma slíkum vopnum hið bráðasta. Hingað til hafa NATO-ríkin, ásamt Rússlandi, tilheyrt fámennum minnihlutahópi ríkja sem standa gegn slíkum tillögum.
Ástæða væri til þess að fagna ef NATO-ríki tækju skref til þess að vinna að friði í heiminum í stað þess að vera ein helsta ógnin við hann. En það er ekki nóg að tala um að þjóðir vilji frið og afvopnun þegar þær eru ekki reiðubúnar að stíga örsmá skref í þá átt. Hvað varðar „friðarbandalagið” NATO þá hefur bilið á milli orða og athafna aldrei verið breiðara.
Eitt þeirra atriða sem frambjóðendur til stjórnlagaþings gátu tekið afstöðu til í spurningalista DV, sem þeim stóð til boða fyrir kosningarnar, fólst í þessari spurningu: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að stjórnarskrá kveði á um að Ísland verði ávallt kjarnorkuvopnalaust land?“
Það er áhugavert fyrir okkur, sem lengi höfum barist fyrir kjarnorkuvopnalausu Íslandi, að skoða svör þeirra frambjóðenda, sem náðu kjöri:
Mjög hlynnt(ur) (14):
- Andrés Magnússon
Arnfríður Guðmundsdóttir
Ástrós Gunnlaugsdóttir
Eiríkur Bergmann Einarsson
Erlingur Sigurðarson
Freyja Haraldsdóttir
Illugi Jökulsson
Katrín Fjeldsted
Katrín Oddsdóttir
Lýður Árnason
Ómar Þorfinnur Ragnarsson
Silja Bára Ómarsdóttir
Þórhildur Þorleifsdóttir
Örn Bárður Jónsson
Frekar hlynnt(ur) (5):
- Dögg Harðardóttir
Gísli Tryggvason
Salvör Nordal
Vilhjálmur Þorsteinsson
Þorkell Helgason
Mjög andvíg(ur) (1):
- Pawel Bartoszek
Vil ekki svara (3):
- Ari Teitsson
Inga Lind Karlsdóttir
Þorvaldur Gylfason
Svaraði ekki DV (2)
- Guðmundur Gunnarsson
Pétur Gunnlaugsson
Þess má geta að af öllum þeim frambjóðendum sem svöruðu spurningum DV voru 11% frekar hlynntir og 71% mjög hlynntir því að slíkt ákvæði yrði sett í stjórnarskrá, samtals 82%. 3% voru frekar andvígir, 2% mjög, samtals 5%. Aðrir ýmist svöruðu ekki spurningunni eða voru hlutlausir. Hlutföll meðal almennings sem svaraði spurningum DV voru svipuð.
Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, krefst þess að herstöðvasamningi Íslands við Bandaríkin verði formlega sagt upp. Fundurinn fagnar því að ákvörðun hafi verið tekin um að leggja niður Varnarmálastofnun. SHA mótmæltu því harðlega á sínum tíma að stofnunin væri sett á legg.
Ekki er þó mikið unnið með lokun stofnunarinnar ef verkefni hennar öðlast framhaldslíf á öðrum stöðum innan stjórnkerfisins. Þannig er fráleitt að Íslendingar komi að rekstri radarkerfa í hernaðartilgangi og veiti hér Nató-flugherjum æfingaraðstöðu í nafni loftrýmiseftirlits. Þá mótmæla SHA því harðlega að til standi að halda Nató-heræfinguna Norðurvíking hér á landi á árinu 2011.
SHA hvetja ríkisstjórn Íslands til að sýna þann metnað að úthýsa með öllu heræfingum og annarri hernaðarstarfsemi. Þar með talið eru vitaskuld hinar fráleitu hugmyndir um að heimila hollensku málaliðafyrirtæki að koma sveit einkaorrustuþota fyrir á Keflavíkurlugvelli. Mál E.C.A. hefur velkst nógu lengi í stjórnkerfinu. Löngu er komin tími til að málið verði endanlega slegið út af borðinu.
Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, lýsir áhyggjum af þeim fregnum sem borist hafa í vikunni af væringum við landamæri Norður- og Suður-Kóreu. Sú hætta er óneitanlega fyrir hendi að átök milli þessara ríkja gætu magnast upp í kjarnorkustríð.
Sú staðreynd að fátækt og einangrað ríki á borð við Norður-Kóreu hefur tekist að koma sér upp kjarnavopnum, er sönnun þess að sú stefna stóru kjarnorkuveldanna að ætla að viðhalda kjarnorkuvopnabúrum sínum, en reyna á sama tíma að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu þessara vopna, er dæmd til að mistakast. Svo lengi sem stórveldin taka sér þann rétt að eiga kjarnavopn, halda áfram að smíða þau og þróa – því auðveldara verður fyrir önnur ríki eða hópa að feta í fótspor þeirra.
Útbreiðsla kjarnorkuvopna verður ekki stöðvuð nema núverandi kjarnorkuveldi standi við loforð sín um allsherjarútrýmingu þessara vopna. Í því efni gengur nýlegur afvopnunarsamningur Bandaríkjamanna og Rússa alls ekki nógu langt, þótt vissulega sé það jákvætt fyrsta skref.
Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, hvetur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til að standa við gefin loforð í stjórnarsáttmála um að friðlýsa beri Ísland og íslenska lögsögu fyrir umferð og geymslu kjarnorkuvopna.
Langt er síðan SHA hófu baráttu fyrir þessu máli, sem flutt hefur verið oftar á þingi en flest önnur þingmál. Til að styrkja kröfuna, beitu samtökin sér fyrir átaki þar sem íslensk sveitarfélög voru hvött til að friðlýsa yfirráðasvæði sín með þessum hætti. Allur þorri bæja og hreppa á landinu hefur nú orðið við þeirri kröfu.
Hagsmunir Íslands af því að komið verði í veg fyrir ferðir kjarnorkuvæddra farartækja í íslenskri lögsögu eru augljósir og er í því sambandi skemmst að minnast óhapps sem átti sér stað í hafinu fyrir sunnan okkur fyrir tveimur árum þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á.