Höfnum hernaðarstarfsemi og heræfingum á Íslandi

By 25/11/2010 Uncategorized

Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, krefst þess að herstöðvasamningi Íslands við Bandaríkin verði formlega sagt upp. Fundurinn fagnar því að ákvörðun hafi verið tekin um að leggja niður Varnarmálastofnun. SHA mótmæltu því harðlega á sínum tíma að stofnunin væri sett á legg.

Ekki er þó mikið unnið með lokun stofnunarinnar ef verkefni hennar öðlast framhaldslíf á öðrum stöðum innan stjórnkerfisins. Þannig er fráleitt að Íslendingar komi að rekstri radarkerfa í hernaðartilgangi og veiti hér Nató-flugherjum æfingaraðstöðu í nafni loftrýmiseftirlits. Þá mótmæla SHA því harðlega að til standi að halda Nató-heræfinguna Norðurvíking hér á landi á árinu 2011.

SHA hvetja ríkisstjórn Íslands til að sýna þann metnað að úthýsa með öllu heræfingum og annarri hernaðarstarfsemi. Þar með talið eru vitaskuld hinar fráleitu hugmyndir um að heimila hollensku málaliðafyrirtæki að koma sveit einkaorrustuþota fyrir á Keflavíkurlugvelli. Mál E.C.A. hefur velkst nógu lengi í stjórnkerfinu. Löngu er komin tími til að málið verði endanlega slegið út af borðinu.