All Posts By

Stefán Pálsson

Skopmyndirnar af Múhameð – frelsi til að bæla sannleikann

By Uncategorized

eftir Jan Øberg

TFF 20 ára Jan Øberg, er framkvæmdastjóri Transnational Foundation for Peace and Future Research (TFF), sem er friðarstofnun í Lundi í Svíþjóð, en á þessu ári eru 20 ár liðin síðan hún var sett á fót. Øberg var gestur Samtaka herstöðvaandstæðinga á alþjóðlegu friðarráðstefnunni Friðsæl framtíð, sem var haldin í Reykjavík í maí 2002, og hélt þar erindi. Hann hefur beitt sér fyrir friðsamlegri lausn deilumála og kynnt sér orsakir og þróun deilumála og styrjalda víða um heim. Heimasíða TFF, www.transnational.org, er full af fróðleik um þessi málefni og þar birtast hugleiðingar og greiningar Øbergs og félaga hans um málefni líðandi stundar. Eftirfarandi grein birtist á vefsíðunni 7. febrúar á ensku en mun einnig koma þar á dönsku og sænsku. Hér er hún birt í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi höfundar.

Teikningar Jótlandspóstsins eru merkingahlaðnar skopmyndir. Þær tengja Spámanninn við hryðjuverk, glæpi og kúgun kvenna. Engin þeirra stuðlar á nokkurn átt að samræðum, aukinni þekkingu eða gagnkvæmum skilningi milli Dana og múslíma, sem svo sannarlega er þörf á. Þær eru illkvittnar.

Hin ofsafengnu viðbrögð við þeim kunna að valda undrun. En í samhengi við okkar hnattvædda samtíma ber birting myndanna vott um hugsunarleysi og hafði í raun engan tilgang. Hún ber vott um svo mikinn skort á góðum (blaðamanna-) mannasiðum að manni ofbýður.

Verra er þó að danska ríkisstjórnin skildi hvorki málið í sjálfu sér né þörfina á að draga úr skaðanum svo fljótt sem auðið varð. Forsætisráðherrann, Fogh Rasmussen, lokaði strax á allar samræður með því að fylgja fordæminu varðandi stefnu Dana gagnvart Írak og í innflytjendamálum: samkvæmt skilgreiningu gerum við engin mistök og við þurfum ekkert að læra af öðrum.

Ef ríkisstjórnin hefði botnað eitthvað í umheimi okkar og samtíma hefði hún lagt áherslu á rétt Jótlandspóstsins til að birta skopmyndirnar en jafnframt notað tækifærið til að taka skýra afstöðu gegn svona skaðlegu og ögrandi athæfi.

Blaðamannafundur forsætisráðherrans og utanríkisráðherrans 7. febrúar bætti litlu við öðru en áframhaldandi sjálfshælni án nokkurs merkis um iðrun, afsökunarbeiðni eða sáttvísi. Áhersla forsætisráðherrans á að hann nyti fulls stuðnings George W. Bush – í ræðu til hins múlímska heims – sýnir að hann hefur átakanlega lítinn skilning á veröldinni.

Við hljótum að fagna því að ritstjóri Jótlandspóstsins hefur beðist afsökunar á því að hafa ögrað svo mörgum og sært, en það hafi ekki verið meiningin (30. janúar 2006). Hann heldur því fram að teikningarnar hafi verið birtar sem liður í „viðvarandi umræðum um tjáningarfrelsið sem er okkur svo miklisvert“. Gott og vel – en hvílík menningarleg staurblindni!

Tjáningarfrelsisrökin hljóma fölsk. Að frjáls fjölmiðlun sé til er í besta falli takmörkuð sannindi. Hvernig venjulegir vestrænir fjölmiðlar fjalla um sum málefni samtímans, svo sem þátttöku ríkisstjórna þeirra í styrjöldum, er einungis eitt af mörgum dæmum um sjálfsritskoðun og áróður í þjónustu valdsins frekar en sannleikur og frelsi í skoðanamótun. Frelsi fjölmiðla hefur líka alltaf falið í sér frelsi til að vanrækja sannleikann og ýta honum til hliðar – til dæmis sannleikanum um hvernig og hvers vegna milljarðar fólks lifa við stöðuga örbirgð. Og það hefur falið í sér afstöðu með stefnu stjórnvalda frekar en hagmunum samfélagsins.

Í öðru lagi fylgir tjáningarfrelsinu ábyrgð. Það jafngildir ekki rétti til að auðmýkja, særa, ærumeiða eða rægja. Persónulegur þroski sem og siðfáguð framkoma snýst líka um dómgreind og hvað sé við hæfi að segja og hvenær – og hvers vegna. Blaðamenn geta sýnt virðingu, kurteisi, samúð og háttprýði gagnvart öðru fólki – eða er það ekki?

Í þriðja lagi, þá vita það allir sem hafa farið út fyrir sitt menningarsvæði að tjáningarfrelsi og svokölluð almennt viðurkennd gildi verður að túlka í réttu samhengi. Engin menning og ekkert samfélag vill láta útlendinga þröngva sínum skilningi upp á það. Hinn venjulegi Vesturlandabúi – kennari heimsins, aldrei nemandi – mundi aldrei sætta sig við að hindúar eða múslímar þröngvi sínum túlkunum upp á þau gildi sem hann hefur í daglegu lífi sínu.

Ég er danskur borgari en hef búið í Svíþjóð í 33 ár. Tímabundið hef ég starfað í Sómalíu, á Balkanskaga, í Japan, Búrúndí og víðar. Það sem hefur verið að gerast í Danmörku er mér óskiljanlegt bæði sem Dana og menntamanni. Ég er hræddur, jafnvel skelkaður, þegar ég íhuga afleiðingarnar af því sem ég vil kalla vestræna sjálfupphafningu og menningarlegan yfirgang og stofnanagerða kynþáttahyggju. Samfélagið er orðið svo gegnsýrt af þessu og þetta er orðið svo “eðlilegt“ eftir lok kalda stríðsins að hvorki Danir né aðrir Vesturlandabúar almennt virðast sjá það. Með stríðinu gegn hryðjuverkum erum við þegar lent í nýju köldu stríði. Og fyrir því er engin réttlætanleg ástæða önnur en mannleg heimska sem stafar af menningarlegum hroka og skorti á sjálfsgagnrýni og samúð.

Mér dettur ekki í huga að skopmyndirnar af Múhameð eða rökin um frelsi fjölmiðla séu annað en liður í menningarlegri blindni og auðmýkjandi framkomu gagnvart fólki utan Vesturlanda. Þetta byggist á aldagamalli hefð fyrir auðmýkingu og tilfinningaleysi gagnvart „hinum“.

Dönsk stjórnmál eru orðin svo gersamlega laus við skilning gagnvart öðrum að danski utanríkisráðherrann, Stig Møller, tönnlast á sama orðinu: Óafsakanlegt! – en á þá ekki við stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar í innflytjendamálum eða þátttöku hennar í þjóðarmorði og fjöldamorðum í Írak, heldur – já, auðvitað – viðbrögð múslíma víða um heim. Í síauknum mæli eru Danir sýndir sem fórnarlambið en viðbrögð múslíma sem yfirdrifin.

Fáir Danir og fáir danskir fjölmiðlar virðast tilbúnir til að setja málið í víðara samhengi og spyrja hvort stefna Danmerkur – Írak, innflytjendamál, fordómar gagnvart múslímum – gæti verið helsta orsökin fyrir öllu þessu.

Gerum ráð fyrir að Danir og danskir stjórnmálamenn hafi enn siðfágun og mannlegan þroska. Ef svo er ættu þeir nú að viðurkenna að það er kominn tími til sýna hógværð, líta í eigin barm, biðjast afsökunar og leita sátta. Siðmenning sem ekki er fær um það fer hnignandi og verður í hnignun sinni líka hættuleg sér og öðrum. Hún verður siðmenning skúrksins.

Þessa dagana óttast ég að vestræn menning muni í æ ríkari mæli skorta samúð og verða ófær um opnar rökræður. Því miður! Fæðingarland mitt er nú skúrkaríki í augum milljóna manna. Hvort þetta er réttur dómur eða ekki er ekki málið. Málið er að núverandi stefna danskra stjórnvalda er meginástæða þess að milljónir manna eru þessarar skoðunar.

Við erum hugsanlega að verða vitni að upphafinu á þróun í átt að hörmungum sem eiga sér vart sinn líka.

Frumvarp um íslenska leyniþjónustu

By Uncategorized

CIA Dómsmálaráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórnina frumvarp til breytinga á lögreglulögunum. Ráðherrann lýsir því svo á heimasíðu sinni, www.bjorn.is:

„Frumvarpið snýst að meginefni um stækkun lögregluumdæma og nýskipan þeirra. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um, að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi. Með þessu er að því stefnt, að íslenska lögreglan ráði yfir svipuðum tækjum og lögheimildum og lögregla í nágrannaríkjunum, auk þess sem þetta lýtur að sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu, en þær hafa til dæmis verið skilgreindar af Evrópuráðinu og heimildir til þeirra eru í lögum um réttarfar við meðferð sakamála, en endurskoðun þeirra laga er á lokastigi hér.“

Margir telja að með þessu frumvarpi sé stigið mjög varhugavert skref. Í grein eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson í vefritinu Kistunni í dag, 6. febrúar, segir m.a.: „Það er einnig eftirtektarvert hvernig Björn ræðir um þetta skuggafyrirbæri eins og hvert annað „rannsóknarstarf.” Og ég geri þá ráð fyrir því að það séu rannsóknir á fólki. Í þeim tilvikum þar sem fræðimenn ætla að stunda rannsóknir á fólki þurfa þeir leyfi til þess frá viðeigandi yfirvöldum s.s. eins og Persónuvernd og ekki síst fólkinu sjálfu sem ætlað er að taka þátt í slíkum rannsóknum. Í tilviki Björns geri ég ráð fyrir að ekki verði farið eftir slíkum reglum og er því nærtækara að kalla starf þessarar deildar njósnir. En það er rétta orðið yfir athæfi sem þetta.“ Greinina má nálgast í heild hér.

Þá vakti Ögmundur Jónasson máls á þessu á Alþingi í dag með fyrirpurn til ráðherra. Umræðurnar má nálgast hér.

Það er full ástæða til að fylgjast vel með framvindu þessa frumvarps og taka höndum saman um að koma í veg fyrir að það verði að lögum.

Samstaða í baráttunni gegn bandarískum herstöðvum í Asíu og um allan heim

By Uncategorized

Friðardúfa Frá friðarráðstefnu í Yokohama í Japan 24.-25. nóvember 2005

Okkur hefur borist skýrsla um friðarráðstefnu sem var haldin í Yokohama í Japan 24.-25. nóvember 2005. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Samstaða í baráttunni gegn bandarískum herstöðvum í Asíu og um allan heim“. Á ráðstefnunni var fjallað um baráttuna gegn fyrirhugaðri uppbyggingu nýrrar herstöðvar í Henoko á japönsku eynni Okinawa, baráttu íbúa Kanagawa-héraðsins skammt frá Tókýó gegn flutningi bandarísks herliðs frá Fort Lewis, Washington, til Zama-herstöðvarinnar í þessu héraði og baráttuna gegn aðsetri bandarísks kjarnorkuknúins flugvélamóðurskips í Yokosuka í sama héraði, en þar er mikilvægasta flotahöfn Bandaríkjanna við vestanvert Kyrrahaf.

Fimm fyrirlesarar héldu erindi á ráðstefnunni:

Í máli dr. Zia Mian, sem er frá Pakistan og kennir við Princeton University í Bandaríkjunum, kom fram að Bandaríkin hafa nú 10 þúsund kjarnorkuvopn og herstöðvar í meira en 130 löndum. Bandaríkin halda hlífiskildi yfir kjarnorkuvopnaeign Ísraels og Indlands. Hann fjallaði um hættuna sem stafaði af nýrri þróun hernaðarsamskipta Bandaríkjanna og Japans og plútóníumvinnslu í bænum Rokkasho á norðanverðri Honshu-eyju í Japan. Hann hvatti til baráttu fyrir lokun bandarískra herstöðva í Japan og að vinnslu plútóníum í Rokkasho verði hætt.

Luis Angel Saavedra frá Ekvador lýsti Manta-herstöðinni í Ekvador sem er ein helsta herstöð Bandaríkjanna í Rómönsku Ameríku. Bandarísk hernaðaryfirvöld leggja nú æ meiri áherslu á að koma í veg fyrir óæskilega þróun í álfunni. Hann lýsti skaðlegum áhrifum herstöðvarinnar á samfélagið í nágrenni herstöðvarinnar, eyðileggingu fiskiskipa undir yfirskini baráttunnar gegn eiturlyfjum, yfirtöku á jarðnæði smábænda og eyðileggingu vatnslinda vegna lagningar nýs flugvallar o.s.frv. Hann sagði frá baráttunni gegn herstöðinni og framlengingu samnings um hana sem á að renna út árið 2009.

Robin Taubenfeld frá samtökunum Everyone for a Nuclear-Free Future í Ástralíu sagði frá skaðlegum áhrifum nýlendustefnu og tilrauna með kjarnokuvopn á menningu og lífsafkomu frumbyggja á Kyrrahafinu og í Ástralíu. Hún skýrði frá þýðingu bandarísku herstöðvarinnar í Pinegap í Ástralíu við árásirnar á Írak.

Yoo Hong frá samtökunum Samstaða um frið og endursameiningu Kóreu (Solidarity for Peace and Reunification of Korea – SPARK) í Suður-Kóreu fjallaði um hvernig hernaðarleg samskipti Suður-Kóreu og Bandaríkjanna hafa verið endurskilgreind þannig að þau þjóna ekki lengur „vörnum“ Suður-Kóreu heldur hlutverki bandaríska hernaðarkerfisins í þessum heimshluta og á alþjóðavísu. Hann varaði við því að þessi endurskilgreining og endurskipulagning bandaríska herliðsins í Suður-Kóreu gæti dregið Suður-Kóreu inn í styrjaldir Bandaríkjanna víðsvegar um heim. En um leið og þetta er að gerast er almenningsálitið í Suður-Kóreu að snúast þannig að meira en helmingur þjóðarinnar vill nú að bandarísku herstöðvarnar í landinu verði lagðar niður.

Shoji Niihara frá Japönsku friðarnefndinni (Japan Peace Committee) lýsti því hvernig bandarískum herstöðvum hefði verið komið fyrir í Japan þvert á vilja japönsku þjóðarinnar til að byggja upp friðsamlegt Japan eftir seinni heimsstyrjöldina.

Í yfirlýsingu frá ráðstefnunni segir að stjórnlist hins fyrirbyggjandi (pre-emptive) stríðs, sem núverandi stjórnvöld í Bandaríkjunum fylgja og beittu gagnvart Írak, sé mesta ógnunin við friðinn. Út frá þessari stjórnlist eru Bandaríkin nú að þróa ný vopn, þar á meðal kjarnorkuvopn, geimvopn og eldflaugavarnir. Endurskipulagning og tilflutningur hernaðarkerfis og herafla Bandaríkjanna miðast við að greiða fyrir skjótari og árangursríkari íhlutun Bandaríkjanna. En herstöðvar og hernaðarlegar framkvæmdir Bandaríkjanna eru líka ógnun við lífsskilyrði, réttindi og umhverfi fólks sem býr í þeim löndum sem hýsa herstöðvarnar. Vera bandarískra hersveita á erlendri grund samrýmist ekki sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem leggur bann við valdbeitingu eða hótanir um valdbeitingu („Allir meðlimir skulu í milliríkjaskiptum varast hótanir um valdbeitingu eða beitingu valds gegn landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði nokkurs ríkis eða á neinn annan hátt, sem kemur í bága við markmið hinn Sameinuðu þjóða.“ (2. gr., 4. liður)) og nýlendustefnu. Vaxandi alþjóðleg friðarhreyfing sem birtist í aðdraganda Íraksstríðsins opnar möguleika á sameiginlegum aðgerðum til heimsfriðar sem byggist á sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Takmarkið ætti að vera að loka herstöðvum bæði Bandaríkjanna og annarra ríkja og leggja niður hernaðarbandalög.

Gylfi Gíslason myndlistarmaður látinn

By Uncategorized

Gylfi Gíslason myndlistarmaður er látinn. Gylfi kom fram á sjónarsviðið á umbrotatímum í íslenskri myndlist, tók þátt í SÚM-hópnum, en gat sér fyrst og fremst orð fyrir teikningar sínar þar sem hann sýndi oft nýstárlegan og frumlegan stíl. Hann myndskreytti bækur, hannaði leikmyndir og var einnig liðtækur fræðimaður um íslenska myndlist, ekki síst teikningu, átti m.a. þátt í nýútkominni bók um Kjarval sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Samtök herstöðvaandstæðinga nutu þess oft að eiga Gylfa að. Hann gerði myndir og plaköt fyrir samtökin og veitti baráttu herstöðvaandstæðinga og friðarsinna lið á ýmsan hátt. Nokkrar þessara mynda hafa hangið upp á vegg í Friðarhúsinu frá því það var opnað í haust. Samtök herstöðvaandstæðinga þakka Gylfa Gíslasyni samfylgdina og liðstyrkinn og senda vinum hans og aðstandendum samúðarkveðjur.

Viðræðurnar í Washington ættu að snúast um uppsögn herstöðvasamningsins og úrsögn Íslands úr NATO

By Uncategorized

undirritun bókunar 9.4.96 Viðræðum um framtíð herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli er nú lokið í bili án þess að niðurstaða hafi fengist. Sendimenn utanríkisráðuneytisins hafa sem fyrr grátbeðið Bandaríkjamenn um að halda fjórum orrustuflugvélum hér en hafa í staðinn boðið að Íslendingar taki yfir verkefni þyrlusveitarinnar og samkvæmt fréttum hefur verið tekið vel í það.

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf krafist þess að Íslendingar segi upp herstöðvasamningnum, að Bandaríkjamenn hverfi burt af landinu með allt sitt hafurtask, hreinsi til eftir sig og að Íslendingar segi sig úr NATO.

Samtökin hafa bent á að það sé alls ekki ætlun Bandaríkjamanna að leggja niður herstöðina. Valur Ingimundarson sagnfræðingur vék að þessu í fróðlegu viðtali í Ríkisútvarpinu 3. febrúar. Hann sagði m.a. að Bandaríkjamenn hefðu engan hug á að segja upp herstöðvasamningnum heldur vildu þeir halda aðstöðunni hér með lágmarksmannafla sem væri þá bara örfáir menn. Þeir gætu þá nýtt þessa aðstöðu aftur ef aðstæður breyttust án þess að þurfa að gera nýjan samning.

Eins og Valur benti líka á þessu viðtali eru Bandaríkjamenn að færa mannafla sinn og hernaðartæki til mikilvægari átakasvæða, svo sem Mið-Asíu og Miðausturlanda. Og tilboð Íslendinga um að taka yfir verkefni þyrlusveitarinnar hentar þeim vel því að þyrlur eru einmitt mjög mikilvæg tæki t.d. í Afganistan og synd fyrir þá að hafa þær bundnar hér við að bjarga sjómönnum eða flytja slasaða Íslendinga.

Nú þætti einhverjum kannski rökrétt að við sem friðarsinnar krefðumst þess að Bandaríkjamenn haldi áfram fullum styrk hér með þyrlum og orrustuflugvélum og koma þannig í veg fyrir að þær verði notaðar til óþurftarverka í öðrum heimsálfum. Við ættum kannski að skipuleggja Keflavíkurgöngu í því skyni! En einmitt með tilliti til þessa alþjóðlega samhengis, þessa alþjóðlega herstöðvanets Bandaríkjanna, er mikilvægast að við tökum þátt í sívaxandi alþjóðlegri baráttu gegn herstöðvum Bandaríkjanna um allan heim. Hér heima fyrir felst sú barátta í því að herstöðin verði lögð niður fyrir fullt og allt, herstöðvasamningnum verði sagt upp og síðast en ekki síst að Ísland segi sig úr NATO.

Einar Ólafsson

Gegn Íraksstríðinu 18. mars – og aftur 29. apríl!

By Uncategorized

Bring the Troops Home Friðarhreyfingar um allan heim vinna nú á fullu við að undirbúa mótmælaaðgerðir gegn Íraksstríðinu 18.-19. mars. En friðarhreyfingar í Bandaríkjunum ætla ekki að láta þar við sitja. Jafnframt undirbúningum að aðgerðunum 18.-19. mars eru þær nú farnar að undirbúa aðgerðir 29. apríl. Tvenn stærstu regnhlífarsamtök friðarhreyfinga í Bandaríkjunum, ANSWER og United for Peace and Justice hafa boðað aðgerðir þann dag undir kjörorðunum: Stöðvum stríðið í Írak, kallið hersveitirnar heim!

Kjarnorkuvopnaglæpir Frakka

By Uncategorized

Kjarnorkusprengja 27. janúar sl. voru liðin 10 ár frá því að Frakkar hættu að tilraunum sínum með kjarnorkuvopn á Kyrrahafinu, en þær höfðu þá staðið í 30 ár. Á árunum 1966 til 1996 gerðu Frakkar 193 tilraunir með kjarnorkuvopn, ýmist í andrúmsloftinu eða neðanjarðar, á kóraleyjunum Moruroa og Fangataufa í Polýnesíu.

Margir halda að þetta sé bara liðin saga. En fyrir starfsmenn sem unnu við þessar tilraunir var þetta aðeins upphafið að langri baráttu, baráttu við heilsubrest og sjúkdóma sem áður voru óþekktir á svæðinu. Árið 2001 stofnuðu þeir samtök til að berjast fyrir hagsmunum sínum, Moruroa e tatou (Moruroa og við), og eru um 1000 félagar í þeim. Helstu baráttumál samtakanna eru að franska ríkið viðurkenni ábyrgð sína gagnvart starfsmönnunum, að hernaðarleg skjalasöfn verði opnuð svo að hægt verði að leiða í ljós sannleikann um hið svokallaða „meinleysi tilraunanna“, að franska þingið setji lög sem tryggi réttindi starfsmanna sem hafa misst heilsuna vegna tilraunanna og að franska ríkið borgi þeim skaðabætur. Sambærileg samtök franskra starfsmanna við tilraunir í Sahara og Polýnesíu hafa verið stofnuð og eru um 700 félagar í þeim. Rannsókn sem gerð hefur verið á heilbrigði þeirra sýnir að 85% þeirra búa við heilsubrest og 32% þeirra hafa fengið krabbamein, en meðaltíðni krabbameins í Frakklandi er 17%. Ennþá, 10 árum eftir að þessum tilraunum lauk, halda stjórnvöld því fram að þær hafi verið „hreinar“, skaðlausar.

Í herstöðinni L’Ile Longue nálægt Brest í norðvesturhluta Frakklands eru 288 kjarnaoddar sem er á við 2000 Hírósímasprengjur. Ekki mikið miðað við það sem Bandaríkin eiga, en nóg samt. 19. janúar sl. hélt Jacques Chirac forseti ræðu í þessari herstöð og hótaði þá hverju því ríki kjarnorkuárás sem beitti Frakka hryðjuverkum. Hann sagði líka að stefna Frakka varðandi fyrirbyggjandi varnir kjarnorkuvopna hefði verið víkkuð út og snerist nú einnig um að verja „mikilvæg aðföng“ landsins, og er það túlkað sem olía, en hótunina telja margir að beinist m.a. að Írak.

Og Frakkar eru að auka við kjarnorkuvopnabirgðir sínar. Meðal annars eru þeir að þróa ný flugskeyti og nýja kjarnaodda. Þetta er ótvírætt brot á 6. grein Samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT-samningsins): Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til þess að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi stöðvun kjarnavopnakapphlaupsins innan skamms tíma og eyðingu kjarnavopna og um samning um algjöra afvopnun undir ströngu og raunhæfu, alþjóðlegu eftirliti.

Einar Ólafsson tók saman

Alþjóðlegu samfélagsþingunum í Bamako og Caracas lokið

By Uncategorized

Foro Social Mundial 2006 Eins og komið hefur fram hér á síðunni er Alþjóðlega samfélagsþingið – World Social Forum – að þessu sinni haldið í þrennu lagi á þremur stöðum: í Bamako í Malí, Caracas í Venesúela og Karachi í Pakistan. Á síðastnefnda staðnum verður þingið haldið í mars en þingið í Bamako stóð dagana 19.-23. janúar og í Caracas 24.-29. janúar. Þetta er sjötta skiptið sem Alþjóðlega samfélagsþingið er haldið. Það var fyrst haldið í Porto Alegre í Brasilíu árið 2001 og þar hefur það alltaf verið haldið þar til nú utan árið 2004 þegar það var í Mumbai á Indlandi.

Þrátt fyrir gífurlegan fjölda sem hefur sótt þessi þing, yfir 100 þúsund manns á síðustu árum, hefur sáralítið frést af þeim hingað til Íslands. Að þessu sinni sóttu a.m.k. þrír Íslendingar þingin, Viðar Þorsteinsson, námsmaður í Bretlandi, fór til Caracas og Alistair Ingi Grétarsson og Halla Gunnarsdóttir til Bamako en nokkrar greinar hafa birst að undanförnu eftir Höllu frá Bamako í Morgunblaðinu. Við munum væntanlega segja nánar frá þessum þingum á næstunni og megum vænta þess að þau Alistair Ingi og Halla segi okkur frá för sinni í Friðarhúsinu þegar þau koma heim.

www.forumsocialmundial.org.br
www.fsmmali.org
www.forosocialmundial.org.ve
www.ipsterraviva.net/tv/wsf2006/default.asp