All Posts By

Stefán Pálsson

Tilvitnun dagsins

By Uncategorized

Guantanamó „Ég hef margsagt það í ræðustól á þessu þingi: Íslensk stjórnvöld fordæma ólöglega meðferð á föngum eða pyndingar á föngum. Það gera allar vestrænar siðaðar þjóðir. Það gerir Bandaríkjaþing og Bandaríkjastjórn.“

Geir H. Haarde utanríkisráðherra á Alþingi 26. janúar 2006. Tilvitnunin er birt með þeim fyrirvara að textinn er enn óyfirlesinn á vef Alþingis.

Föstudagsmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

KokkurFjáröflunarmálsverðirnir í Friðarhúsi, sem að jafnaði eru haldnir fjórða föstudag í mánuði, hafa rækilega slegið í gegn. Síðast var troðfullt hús og frábær stemning langt fram eftir kvöldi.

Næstkomandi föstudagskvöld, 27. janúar, verður á ný blásið til málsverðar. Á matseðlinum er linsulauksúpa, indverskur pottréttur með friðarívafi og nýbakað brauð – en þessar krásir eru í boði fyrir litlar 1.000 krónur. Auk léttra veitinga á vægu verði.

Meðan á borðhaldi stendur, munu ungskáld láta ljós sitt skína. Matarveislan hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Allir velkomnir og um að gera að taka með sér gesti!

Stöðvum hernám Íraks!

By Uncategorized

End the occupation Ákall um andóf gegn hernámi Íraks

Nýlega sendi hópur fólks frá 16 löndum frá sér ákall til umheimsins um andóf gegn hernámi Íraks. Í þessum hópi eru allmargir prestar og leiðtogar ýmissa trúarsafnaða, þar á meðal þrír kristnir biskupar, rithöfundar og blaðamenn og þrír nóbelsverðlaunahafar auk tveggja mæðra bandarískra hermanna sem hafa fallið í Írak. Meðal þeirra eru, svo fáein nöfn séu nefnd, séra Ernesto Cardenal, skáld og fyrrum menntamálaráðherra Nicaragua, Argentínumaðurinn Adolfo Perez Esquivel, sem fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1980, Harold Pinter, sem fékk bókmenntaverðlaun Nóbels 2005 og Cindy Sheehan, sem hefur orðið víðkunn fyrir hetjulega baráttu gegn stríðinu og hernáminu í Írak eftir að sonur hennar, hermaður í liði Bandaríkjanna, féll þar.

Hópurinn leggur til að skipulagðir verði á þessu ári fjórir alþjóðlegir dagar borgaralegrar friðsamlegrar óhlýðni til að binda endi á hernám Íraks.

Fyrsti dagurinn yrði 19.-20. mars, þegar þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak.

Annar dagurinn yrði 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Lagt er til að þann dag verði lögð áhersla á áhrif stríðs á hina snauðu og verkalýðsstéttina.

Þriðji dagurinn yrði 9. ágúst, þegar 61 ár er liðið frá því bandarísk stjórnvöld létu varpa kjarnorkusprengju á Nagasakí. Þá verði krafist útrýmingar kjarnorkuvopna og jafnframt að endir verði bundinn á yfirgang Bandaríkjanna í Írak.

Fjórði dagurinn yrði 11. september, þegar fimm ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum. Þá verði þess ofbeldisverks minnst og jafnframt fordæmd þau hryðjuverk sem Bandaríkjastjórn fremur gegn Írak undir yfirskini „stríðs gegn hryðjuverkum“.

Ef nauðsyn krefur mætti stefna að fimmta baráttudeginum, sem gæti verið 10. desember, á alþjóðlega mannréttindadeginum.

Í yfirlýsingu hópsins segir: „Við undirrituð bjóðum friðarsinnum um allan heim að taka þátt í alþjóðlegum friðsamlegum andófsaðgerðum til að binda endi á hernám Íraks sem Bandaríkin standa fyrir. Þessar aðgerðir mætti skipuleggja jafnt sem friðsamlega borgarlega óhlýðni eða sem löglega fjöldafundi. Dráp tugþúsunda borgara, limlesting kannski meira en 100 þúsund manna, pyndingar og morð á föngum í haldi bandarískra stjórnvalda – þessar og fleiri staðreyndir eru vitnisburður um þau ríkisreknu hryðjuverk sem framin eru gagnvart íbúum Íraks. Samtímis syrgjum við meira en 2300 hermenn „bandalagsherjanna“ og fordæmum jafnframt lygarnar (gereyðingarvopnin, tengslin milli Saddams Hussein og Al Qaeda) sem notað voru til að réttlæta innrásina.“

Hópurinn bendir á ýmsar leiðir til aðgerða:

Hópur fólks gæti sest niður við innganginn að skrifstofum, sendiráðum eða herstöðvum á vegum bandarískra og breskra stjórnvalda og neitað að færa sig. Hópurinn gæti krafist fundar með sendiherranum eða yfirmanni herstöðvar eða beðið eftir yfirlýsingu frá Washington eða Lundúnum. Einnig væri hægt að leggjast niður og leika fórnarlömb styrjalda. Þetta mætti gera þannig að lögreglan stæði frammi fyrir því að þurfa að bera fólkið burtu eða það yrði jafnvel handtekið. Hópurinn hvetur fólk til að upphugsa fleiri leiðir til aðgerða. Hvatt er til að þetta sé gert í samhengi við löglega fjöldafundi og þess gætt að fjölmiðlar séu upplýstir um aðgerðirnar. Hópurinn vonast til að boðskapur hans berist sem víðast og aðgerðir verði víðsvegar um heiminn þessa daga. Jafnframt óskar hann eftir að fá upplýsingar um aðgerðir.

Meginkarfan er: Stöðvum hernám Íraks!

Nánari upplýsingar má fá á vefsíðunni www.aglobalcall.org

Undirbúningur fyrir 8. mars 2006

By Uncategorized

8. mars Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna (MFÍK) hafa boðað til undirbúningsfundar fyrir menningar- og baráttudagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur 8. mars næstkomandi, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti. Til fundarins er boðið fulltrúum félagasamtaka og stéttarfélaga, sem hafa fjölda kvenna innan sinna vébanda.

Á kvennaárinu 1975 lýsti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna daginn „Alþjóðlegan baráttudag fyrir jafnrétti og friði“. Mörg undanfarin ár hafa Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna boðið til samvinnu um sameiginlegan fund. Dagskráin hefur tekið mið af því sem er á döfinni hér á landi eða í heimsmálum, eftir því sem undirbúningshópur kemur sér saman um hverju sinni.

Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsinu, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar), fimmtudaginn 26. janúar kl.17:00.

Þátttaka tilkynnist til

Maríu S. Gunnarsdóttur, form. MFÍK
maria@seltjarnarnes.is
s. 5959258 / 5510586

og

Guðrúnar Hannesdóttur, vform. MFÍK
gudrunha@mmedia.is
s. 5536037 / 6986037

Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni

By Uncategorized

Not in Our Name Frá Þjóðarhreyfingunni – með lýðræði

ÁR FRÁ YFIRLÝSINGUNNI Í
THE NEW YORK TIMES

,,… Stuðningur Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar við innrásina í Írak er svartur blettur á nafni Íslands. Engin ein ákvörðun hefur skaðað orðstír Íslands jafn mikið á alþjóðavettvangi….”

Fyrir réttu ári, eða þann 21. janúar 2005, birti Þjóðarhreyfingin – með lýðæði heilsíðu yfirlýsingu í bandaríska stórblaðinu The New York Times ,,Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni” þar sem mótmælt var harðlega stuðningi íslenskra stjórnvalda (sérstaklega forsætis- og utanríkisráðherra) við innrás Bandaríkjanna – og hinna ,,viljugu” bandamanna þeirra – í Írak (sjá íslenska þýðingu yfirlýsingarinnar hér að neðan). Yfirlýsingin í The New York Times vakti verðskuldaða athygli, og var hennar getið í yfir 100 fjölmiðlum víða um heim.

Þá barst Þjóðarhreyfingunni mikill fjöldi bréfa og skeyta erlendis frá þar sem lýst var yfir eindregnum stuðningi við yfirlýsinguna.

Í mars á þessu ári verða 3 ár liðin frá innrás BNA í Írak með stuðningi hinna ,,viljugu” bandamanna þeirra – þmt. Íslendinga.

Stuðningur Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar við innrásina í Írak er svartur blettur á nafni Íslands. Engin ein ákvörðun hefur skaðað orðstír Íslands jafn mikið á alþjóðavettvangi. Ákvörðun ráðherranna ber öll merki undirlægjuháttar og ósjálfstæðis í utanríkismálum.

Þessi undirlægjuháttur kemur enn og aftur fram þegar íslensk stjórnvöld tóku ekki einarða afstöðu gegn fangaflugi CIA um íslenska lofthelgi – heldur taka gildar skýringar bandarískra yfirvalda án þess að kanna þær sérstaklega.

Það er löngu kominn tími til að forsætisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson, biðji þjóðina og alþjóðasamfélagið afsökunar á því að hafa látið blekkjast til liðsinnis við stríð, sem háð er á fölskum forsendum og í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög.

Ísland á að sýna styrk sinn með friðsamlegum aðgerðum í samræmi við alþjóðalög því að á þann hátt einan getur herlaust Ísland aflað sér trausts og virðingar í samfélagi þjóðanna.

(21. janúar 2006)

fh Þjóðarhreyfingarinnar – með lýðræði
www.thjodarhreyfingin.is

Hans Kristján Árnason viðskiptafræðingur, Ólafur Hannibalsson rithöfundur, Valgarður Egilsson prófessor og Valgerður Bjarnadóttir viðskiptafræðingur (ábyrgðarmenn söfnunarinnar)

Y F I R L Ý S I N G

Innrásin í Írak – ekki í okkar nafni

Við, ríkisborgarar Íslands*, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og ,,viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.

Ákvörðun um stuðning við innrásina tóku forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands einir án þess að málið fengi fyrst umfjöllun í utanríkismálanefnd Alþingis Íslendinga. Er það þó skylt samkvæmt íslenskum lögum, sem segja að þar skuli fjalla um öll meiriháttar utanríkismál. Ákvörðun þessi hefur hvorki verið afgreidd formlega frá Alþingi né ríkisstjórn Íslands.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra brot á Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með brot á alþjóðalögum.

Íslendingar hafa aldrei haft eigin her. Alþingi Íslendinga neitaði að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan árið 1945, sem var þá skilyrði fyrir stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum. Með stofnaðild að NATO árið 1949 tóku Íslendingar sérstaklega fram að þeir myndu ekki lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð.

Ákvörðun íslensku ráðherranna um að styðja innrásina í Írak er til vansæmdar íslenskri stjórnmálasögu og hnekkir fyrir lýðræðið. Gengið er í berhögg við hefðir Alþingis Íslendinga, elsta löggjafarþings heims. Allar skoðanakannanir hafa sýnt að yfirgnæfandi meirihluti íslensku þjóðarinnar er mótfallinn stuðningi íslensku ráðherranna við innrásina í Írak (84% í síðustu skoðanakönnun).

Við biðjum írösku þjóðina afsökunar á stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.

Við krefjumst þess að nafn Íslands verði umsvifalaust tekið út af lista hinna ,,viljugu“ innrásarþjóða.

Ísland hefur átt vinsamleg samskipti við Bandaríkin um langa hríð. Þau samskipti hafa byggst á gagnkvæmu trausti og hreinskilni.

Því teljum við skyldu okkar að koma þessum skoðunum á framfæri – bæði við Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir.

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
Reykjavik, Íslandi
www.thjodarhreyfingin.is

* Yfir 4.000 Íslendingar studdu með fjárframlögum birtingu þessarar yfirlýsingar. Sem íbúahlutfall jafngildir þetta að 4 milljónir Bandaríkjamanna tækju þátt í kostnaðinum.

Smelltu hér til að sjá auglýsinguna í THE NEW YORK TIMES sem birtist föstudaginn 21. janúar 2005