Kjarnorkuvopnaglæpir Frakka

By 31/01/2006 Uncategorized

Kjarnorkusprengja 27. janúar sl. voru liðin 10 ár frá því að Frakkar hættu að tilraunum sínum með kjarnorkuvopn á Kyrrahafinu, en þær höfðu þá staðið í 30 ár. Á árunum 1966 til 1996 gerðu Frakkar 193 tilraunir með kjarnorkuvopn, ýmist í andrúmsloftinu eða neðanjarðar, á kóraleyjunum Moruroa og Fangataufa í Polýnesíu.

Margir halda að þetta sé bara liðin saga. En fyrir starfsmenn sem unnu við þessar tilraunir var þetta aðeins upphafið að langri baráttu, baráttu við heilsubrest og sjúkdóma sem áður voru óþekktir á svæðinu. Árið 2001 stofnuðu þeir samtök til að berjast fyrir hagsmunum sínum, Moruroa e tatou (Moruroa og við), og eru um 1000 félagar í þeim. Helstu baráttumál samtakanna eru að franska ríkið viðurkenni ábyrgð sína gagnvart starfsmönnunum, að hernaðarleg skjalasöfn verði opnuð svo að hægt verði að leiða í ljós sannleikann um hið svokallaða „meinleysi tilraunanna“, að franska þingið setji lög sem tryggi réttindi starfsmanna sem hafa misst heilsuna vegna tilraunanna og að franska ríkið borgi þeim skaðabætur. Sambærileg samtök franskra starfsmanna við tilraunir í Sahara og Polýnesíu hafa verið stofnuð og eru um 700 félagar í þeim. Rannsókn sem gerð hefur verið á heilbrigði þeirra sýnir að 85% þeirra búa við heilsubrest og 32% þeirra hafa fengið krabbamein, en meðaltíðni krabbameins í Frakklandi er 17%. Ennþá, 10 árum eftir að þessum tilraunum lauk, halda stjórnvöld því fram að þær hafi verið „hreinar“, skaðlausar.

Í herstöðinni L’Ile Longue nálægt Brest í norðvesturhluta Frakklands eru 288 kjarnaoddar sem er á við 2000 Hírósímasprengjur. Ekki mikið miðað við það sem Bandaríkin eiga, en nóg samt. 19. janúar sl. hélt Jacques Chirac forseti ræðu í þessari herstöð og hótaði þá hverju því ríki kjarnorkuárás sem beitti Frakka hryðjuverkum. Hann sagði líka að stefna Frakka varðandi fyrirbyggjandi varnir kjarnorkuvopna hefði verið víkkuð út og snerist nú einnig um að verja „mikilvæg aðföng“ landsins, og er það túlkað sem olía, en hótunina telja margir að beinist m.a. að Írak.

Og Frakkar eru að auka við kjarnorkuvopnabirgðir sínar. Meðal annars eru þeir að þróa ný flugskeyti og nýja kjarnaodda. Þetta er ótvírætt brot á 6. grein Samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT-samningsins): Sérhver samningsaðili skuldbindur sig til þess að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi stöðvun kjarnavopnakapphlaupsins innan skamms tíma og eyðingu kjarnavopna og um samning um algjöra afvopnun undir ströngu og raunhæfu, alþjóðlegu eftirliti.

Einar Ólafsson tók saman