All Posts By

Stefán Pálsson

18. mars: fundur í Háskólabíói kl 13, útifundur á Ingólfstorgi kl. 15

By Uncategorized

Fermiamo la guerra Það verður mikið um að vera í Reykjavík 18. mars þegar þess verður minnst um allan heim að þrjú ár eru liðin frá innrásinni í Írak. Klukkan eitt eftir hádegi verður fundur í Háskólabíói sem Þjóðarhreyfingingin – með lýðræði stendur fyrir. Að honum loknum verður efnt til mótmælafundar á Ingólfstorgi og hefst hann klukkan þrjú, en Samtök herstöðvaandstæðinga hafa frumkvæði að honum. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Takið daginn frá. Fjölmennum í Háskólabíó kl. 13 og á Ingólfstorg kl 15.

Upplýsingar um aðgerðir víða um heim má fá á vefsíðum Stop the War Coalition í Bretlandi og Troops Out Now í Bandaríkjunum.

35 þúsund manns mótmæla Futenma-herstöðinni á Okinawa

By Uncategorized

ginowan herinn burt Nú munu vera um 50 þúsund hermenn í bandarískum herstöðvum í Japan. Flestir þeirra eru á eynni Okinawa, syðst í Japan. Meðal herstöðva þar er Futenma-herstöðin, sem er í miðri borginni Ginowan með um það bil 90 þúsund íbúa.

Í Japan eru ýmis samtök herstöðvaandstæðinga mjög virk og nú í dag, 5. mars, voru mótmælaaðgerðir í Ginowan gegn Futenma-herstöðinni. Talið er að um það bil 35 þúsund manns hafi tekið þátt í þessum aðgerðum þar sem þess var krafist að herstöðinni yrði tafarlaust lokað.

Áform eru um að færa herstöðina til Henoko í grennd við borgina Fugo, og var gerður samningur um það milli Japans og Bandaríkjanna í október síðastliðnum. Hins vegar eru ekki allir sáttir við þau áform og hafa bæði umhverfisverndarsinnar og friðarsinnar mótmælt þeim. Í fréttatilkynningu sem hópur sem kallar sig Okinawa friðarbaráttuhópinn sendi frá sér í október síðastliðnum segir að baráttan beinist ekki bara gegn uppbyggingu herstöðvar í Henoko heldur einnig gegn hverskyns hernaðaruppbyggingu á Okinawa.

Menningardagskrá

By Uncategorized

Á sunnudaginn kl. 14 er hluthöfum í Friðarhúsi og öðrum velunnurum þess boðið í heimsókn í Friðarhús. Þar verður flutt dagskrá tengd Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Á eftir verður boðið upp á kaffiveitingar og starfsemi hússins og framtíðarsýn aðstandenda þess kynnt.

Menningardagskrá sunnudag

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÁ sunnudaginn kl. 14 er hluthöfum í Friðarhúsi og öðrum velunnurum þess boðið í heimsókn í Friðarhús. Þar verður flutt dagskrá tengd Sóleyjarkvæði Jóhannesar úr Kötlum. Á eftir verður boðið upp á kaffiveitingar og starfsemi hússins og framtíðarsýn aðstandenda þess kynnt.

Óskandi er að sem allra flestir sjái sér fært að mæta á áhugaverða dagskrá og eigi ánægjulega stund.

8. mars: Þróunaraðstoð – í þágu hverra?

By Uncategorized

mfik 3 01 Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
fyrir friði og jafnrétti.

Opinn fundur miðvikudaginn 8.mars 2006 kl.17
í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Þróunaraðstoð – í þágu hverra?

Fundarstjóri: Guðlaug Þóra Marinósdóttir, SFR

Sigríður Víðis Jónsdóttir, blaðamaður
Ég borða ekki jarðsprengjur.

Þórdís Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands
Þróunarsamvinna á nýrri öld.

Hulda Biering, kennari
Grasrót í Mósambík – Konur og menntun.

Elín Jónasdóttir, sálfræðingur
Þar sem fræin þroskast best – reynsla frá Sri Lanka.

Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld les ljóð.

Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður
Til hvers að gefa?

Irma Matchavariani, í stjórn Samtaka kvenna af erl. uppruna
Lítum okkur nær.

María S. Gunnarsdóttir, form. Menningar- og friðarsamtaka MFÍK
Heimurinn hugsaður upp á nýtt.

Margrét M. Norðdahl, myndlistarkona
Sýnir ljósmyndir af verkefni sem unnið var á flóðasvæðum Sri Lanka.

Hljómsveitin AMÍNA spilar.

Menningar og friðarsamtökin MFÍK, Bandalag háskólamanna, BSRB, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands, Kvenréttindasamband Íslands, Samtök herstöðvaandstæðinga, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Sjúkraliðafélag Íslands, Stígamót, SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, Öryrkjabandalag Íslands

Friðarmiðstöðin Ísland

By Uncategorized

19. mars 2005 Þessi grein var send Fréttablaðinu til birtingar í byrjun febrúar þegar viðræður um framtíð herstöðvarinnar stóðu yfir og fréttir voru í fjölmiðlum um væntanlega komu Yoko Ono til Íslands. Þegar greinin hafði ekki birst um það leyti sem Yoko var hér seint í febrúar var ítrekuð ósk um birtingu hennar í Fréttablaðinu en þó hefur hún ekki enn birst á þeim vettvangi.

Ekki veit ég af hverju Yoko Ono velur friðarsúlu sinni stað í Reykjavík. En vissulega hefur Ísland einhverskonar friðarímynd í augum margra. Þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið í hernaðarbandalagi og hýst herstöðvar í meira en hálfa öld. Þrátt fyrir gagnrýnislitla fylgisspekt Íslands við helsta hernaðarveldi heims, nú síðast sem svokallað „viljugt“ ríki gagnvart Íraksstríðinu. Kannski er það vegna smæðar þjóðarinnar og þess að hún hefur sjálf verið herlaus og vopnlaus um aldaraðir.

Hversu miklu sterkari væri þá ekki þessi friðarímynd Íslands ef það væri ekki aðili að hernaðarbandalagi og ef það hýsti ekki herstöð? En nú er lag. Bandarísk stjórnvöld vilja nú draga herlið sitt frá Íslandi. Það er hins vegar mjög hæpið að þau vilji algerlega sleppa hernaðarlegum ítökum sínum hér. Þau vilja eflaust hafa aðgang að Keflavíkurflugvelli fyrir einhvern lágmarksviðbúnað – og til að koma sér þar fyrir aftur ef það hentaði þeim. Og þau vilja auðvitað ekki sleppa Íslandi úr NATO.

Í stað þess að suða í Bandaríkjamönnum, eins og utanríkisráðherra og forverar hans hafa verið að gera, væri nær að segja: Fínt, nú skuluð þið pakka saman, en þá viljum við líka að þið farið alveg og hreinsið til eftir ykkur. Og síðan ættum við að ganga úr NATO og lýsa yfir hlutleysi. Þá yrði sett í stjórnarskrána að Ísland yrði herlaust land og segði aldrei öðrum þjóðum stríð á hendur né styddi slíkar aðgerðir annarra ríkja, eins og bæði Samtök herstöðvaandstæðinga og Þjóðarhreyfingin – með lýðræði hafa lagt til við stjórnarskrárnefnd. Loks mundi Alþingi lýsa Ísland kjarnorkuvopnalaust svæði – eða það yrði líka sett í stjórnarskrána – og Íslendingar hefðu frumkvæði að því að Norður-Atlantshafið og í kjölfarið öll Evrópa yrðu lýst kjarnorkuvopnalaus svæði.

Þetta gæti komist í gang á fáeinum árum. Og þá væri kannski kominn tími til þess fyrir Íslendinga að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu, enda hefðum við þá öðlast virðingu fyrir frumkvæði í friðarmálum. Og við mundum setja upp friðarannsóknardeild við Háskóla Íslands, alþjóðlega friðarrannsóknarmiðstöð, sem gæti verið staðsett á Suðurnesjum, og það yrði sóst eftir að halda á Íslandi friðarráðstefnur og aðrar ráðstefnur sem varða alþjóðamál. Höfðafundur þeirra Reagans og Gorbatsjovs yrði ekki lengur einsdæmi hér. Og ef við værum beðin um að styðja innrás í eitthvert land mundum við segja: Nei takk, við hvorki kunnum né viljum slíkt, en við getum boðið upp á aðstoð við friðsamlega lausn.

Þetta yrði auðvitað miklu glæsilegra ef það yrði sett í samhengi við umhverfismál, en það krefðist þess vitaskuld að við færum að hægja á okkur í virkjana- og álversframkvæmdum. En það er efni í aðra grein.

Einar Ólafsson

Undirbúningur fyrir 18. mars, alþjóðlegan mótmæladag gegn stríðinu í Írak

By Uncategorized

third anniversary web banner Opinn fundur í Friðarhúsinu miðvikudag 1. mars kl. 20

Á miðvikudagskvöldið kl. 20 verður opinn fundur í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, þar sem rætt verður um skipulagningu aðgerða á alþjóðlegum mótmæladegi gegn stríðinu í Írak. Allir velkomnir. Margar hendur vinna létt verk.

Við minnum líka á undirskriftasöfnuna Stop War on Iran. Margt bendir til að Bandaríkjastjórn hyggist ráðast á Íran innan fárra ára og stundi nú pólitískan hráskinnaleik til að undirbúa þá herför. Sjálfsagt er að hvetja íslenska friðarsinna til að taka þátt í alþjóðlegri undirskriftasöfnun á netinu, þar sem stríðsundirbúningurinn er fordæmdur. Nánari upplýsingar um undirskriftasöfnunina er að finna hér. Hægt er að skrifa undir hér:
http://stopwaroniran.org/petition.shtml.