All Posts By

Stefán Pálsson

Mótmælaaðgerðir víða um heim – 100.000 manns í Lundúnum

By Uncategorized

potest London 05.08.06 Í dag, laugadaginn 5. ágúst, eru víða mótmælaaðgerðir gegn ofbeldi Ísrales í Líbanon og Palestínu. Í Lundúnum var í dag mikil mótmælaganga og var safnast saman í Hyde Park á hádegi á staðartíma. Skv. Indymedia voru 100 þúsund manns í göngunni að sögn skipuleggjenda (tvennum sögum fer þó af fjöldanum, 15 þúsund skv. RÚV í dag). Gönguleiðin lá hjá Downing Street 10, heimili forsætisráðherrans, og hvöttu skipuleggjendurnir, samtökin Stop the War Coalition, fólk til að skilja eftir barnaskó á tröppum forsætisráðherrans.

Í Bandaríkjunum eru víða mótmælaaðgerðir í dag (sjá U.S. Troops Out Now) en verið er að undirbúa miklar mótmælaaðgerðir um næstu helgi (sjá International A.N.S.W.E.R) og stærstu friðarsamtök Bandaríkjanna, United for Peace and Justice, hafa í samstarfi við samtökin US Campaign to End the Israeli Occupation lýst næstu viku sem viku aðgerða til að krefjast vopnahlés í Miðausturlöndum

Viðskiptabann á Ísrael

By Uncategorized

boycott Israel Í grein eftir Þorleif Gunnlaugsson, formann Vinstrihreyfingarinnar græns farmboðs í Reykjavik, á heimasíðu Ögmundar Jónassonar 1. ágúst hvatti hann til að stjórmálasambandi við Ísrael yrði slitið og sett á viðskiptabann. Fleiri greinar hafa fylgt í kjölfarið, sjá ogmundur.is.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á yfirlýsingu hafnarverkamanna í Liverpool frá 28. júlí. Þar átelja þeir verkalýðsfélög fyrir að hafa sýnt lítil viðbrögð við árásunum á Líbanon. Minnt er á það að á fjórða áratugnum fóru verkamenn frá Merseyside til Spánar til að berjast gegn fasimanum, 1973 neituðu vélvirkjar í Rolls Royce verksmiðjunum í Glasgow að aðstoða við flutning Rolls Royce flugvélahreyfla, sem átti að selja herforingjastjórninni í Chile, og á níunda áratugnum tóku hafnarverkamenn í Liverpool þátt í viðskiptabanni gagnvart Suður-Afríku eins og verkalýðsfélög víða um heim. Vitnað er í orð Willie Madisha, forseta suðurafríska verkalýðssambandsins COSATU, um að viðskiptabannið á Suður-Afríku hafi auðveldað baráttuna þar og á sama hátt gæti viðskiptabann virkað gagnvart Ísrael.

Á undanförnum árum hafa af og til heyrst raddir um að tími væri kominn til að setja viðskiptabann á Ísrael. Framferði ísraelskra stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum hefur verið kennt við apartheid, en svo var aðskilnaðarstefna hvítra stjónvalda í Suður-Afríku kölluð á sínum tíma. Með viðskiptabanni tókst að brjóta þá stefnu á bak aftur.

Einhverjir kunna að sjá tvískinnung í því, að þeir sem börðust gegn viðskiptabanni á Írak á valdatíma Saddams Hussein skuli nú krefjast viðskiptabanns á Ísrael. Málið er hins vegar það að viðskiptabann nýtist misjafnlega eftir aðstæðum og gengur illa gagnvart einræðisstjórn á borð við stjórn Saddam Husseins þar sem ráðamenn láta sig hag almennings litlu skipta en geta sjálfir lifað í vellystingum praktuglega þrátt fyrir viðskiptabann. Suður-Afríka var hins vegar lýðræðisríki að því er sneri að hvíta minnihlutanum og Ísraelsríki er líka lýðræðisríki, þetta eru ríki og þjóðir sem er umhugað að teljast í klúbbi hinna vestrænu lýðræðisríkja og taka m.a. þátt í menningarlegu samstarfi (svo sem Evróvisjón) og alþjóðlegum íþróttakeppnum. Almenningur og almannasamtök voru líka virk, listamenn og samtök þeirra, íþróttafélög og verkalýðsfélög.

Roger Waters sýndi frumkvæði með því að aflýsa snemma í sumar fyrirhuguðum hljómleikum í Ísrael og frést hefur af fleiri tónlistarmönnum sem hafa gert það. Verkalýðsfélög gætu byrjað á því að senda verkalýðsfélögum í Ísrael skilaboð, sömuleiðis gætu listamenn sent kollegum sínum í Ísrael skilaboð. Í Írak olli viðskiptabannið hungurneyð og dauða ótal óbreyttra borgara, ekki síst barna. Í Suður-Afríku virkaði það fyrst og fremst þannig að hvíta minnihlutanum skildist að með framferði sínu væri hann ekki talinn hæfur í hinn vestræna klúbb og þannig myndi viðskiptabann virka á Ísrael. Viðskiptabanni þarf ekki að haga þannig að það valdi neyð meðal almennings. Styrkur viðskiptabannsins á Suður-Afríku lá í allt öðru.

Í ályktun sinni skora hafnarverkamennirnir í Liverpool á launafólk að:

  1. sniðganga vörur frá Ísrael (sjá „Sniðgöngum ísraelskar vörur“ á palestina.is)
  2. athuga hvort vinnuveitandi eigi einhver viðskipti við Ísrael og taka það þá til umræðu
  3. taka málið upp innan verkalýðsfélgsins og krefjast þess að ástandið í Líbanon og á Gaza sé viðurkennt sem mál er varðar verkalýðshreyfinguna og kallar á viðbrögð hennar
  4. taka þátt í mótmælaaðgerðum og gefa fé í safnanir handa fórnarlömbum árásarstefnu Ísraels
  5. að skerast, ef mögulegt er, beint í leikinn til að stöðva viðskipti við Ísrael

Sjá einnig:
„Time to Impose Sanctions on Israel“ eftir Harry van Bommel, þingmann Sósíalistaflokks Hollands
„ICAHD First Israeli Peace Group to Call for Sanctions“, 27. janúar 2005

Fundur utanríkismálanefndar 2. ágúst

By Uncategorized

Í morgun, 2. ágúst, kom utanríkismálanefnd Alþingis saman að beiðni þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til að ræða ástandið í Líbanon. Á fundinum lagði Steingrímur J. Sigfússon fram tillögu sem birt er hér að neðan. Nefndin treysti sér ekki til að afgreiða þessa tillögu heldur var ákveðið að halda annan fund fljótlega með utanríkisráðherra. Má því segja að árangur fundarins hafi verið lítill, en málið er þó komið á dagskrá nefndarinnar.

Aumingjaskapur meirihluta utanríkismálanefndar er yfirgengilegur. Þessi fundur var haldinn fjórum dögum eftir fjöldamorðin í Kana og rúmum þremur vikum eftir að árásirnar hófust. Morðin og eyðileggingin halda áfram upp á hvern dag. BBC hefur eftir heilbrigðisráðherra Líbanons í dag að um 750 manns hafi fallið í árásum Ísraels á Líbanon, flestir óbreyttir borgarar, þ.á.m. fjölmörg börn. Við þetta bætast þeir 19 sem voru drepnir í nótt og í morgun. Jafnframt hafa Ísraelar haldið uppi árásum á Palestínumenn á Gaza og drepið fjölda fólks. 54 Ísraelar, þar af 19 óbreyttir borgarar, hafa fallið í árásum Hizbollah. Heilu fjölskyldurnar eru drepnar í Líbanon, í morgun var fimm manna fjölskylda drepin meðan utanríkismálanefnd sat á fundi sínum. Fjórðungur þjóðarinnar er á flótta. Niðurstaða fundarins var að annar fundur yrði haldin. Hversu margir verða drepnir fram að þeim fundi?

Tillaga til ályktunar um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs (2. ágúst 2006)

    Utanríkismálanefnd Alþingis vísar til ályktana Alþingis um deilur Ísraels og Palestínumanna frá 18. maí 1989 og 30. apríl 2002.

    Utanríkismálanefnd krefst þess að Ísrael fallist án skilyrða og tafarlaust á vopnahlé og hætti öllum hernaðaraðgerðum í Líbanon og á sjálfstjórnarsvæðum Palestínumanna. Nefndin hvetur ríkisstjórnina til að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir hinu sama.

    Utanríkimálanefnd beinir því til ríkisstjórnarinnar að taka upp baráttu fyrir því að Allsherjarþing SÞ verði kallað saman á grundvelli ályktunar samtakanna nr. 377 til að samþykkja kröfu um tafarlaust vopnahlé og að blóðsúthellingum, glæpum gegn almennum borgurum og hvers kyns mannréttindabrotum verði þegar í stað hætt. Í framhaldinu verði hafist handa um óháða alþjóðlega rannsókn á atburðum undangenginna daga og vikna á svæðinu.

Þingsályktun Alþingis frá 111. löggjafarþingi:

    1988–89. — 1058 ár frá stofnun Alþingis.
    111. löggjafarþing. — 102 . mál.
    Sþ.
    1256. Þingsályktun um deilur Ísraels og Palestínumanna.
    (Afgreidd frá Sþ. 18. maí.)

    Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.

    Alþingi skorar á ísraelsk stjórnvöld að koma í veg fyrir manndráp á varnarlausum borgurum og leggur áherslu á að þau virði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Nauðsynlegt er að báðir aðilar forðist ofbeldisverk.

    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila. Nauðsynlegt er að báðir aðilar sýni raunverulegan samkomulagsvilja og viðurkenni rétt hvor annars í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 sem ásamt ályktunum öryggisráðsins nr. 242 frá 1967 og nr. 338 frá 1973 eru sá grundvöllur er skapað getur varanlegan frið og öryggi í Austurlöndum nær.

    Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og tilverurétt Ísraelsríkis. Einnig ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.

    Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við Frelsissamtök Palestínu, PLO.

Þingsályktun Alþingis frá 127. löggjafarþingi:

    Þingsályktun um deilur Ísraels og Palestínumanna.

    Alþingi lýsir áhyggjum sínum af því ófriðarástandi sem nú ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og fordæmir það ofbeldi sem þar á sér stað. Alþingi leggur áherslu á að öryggi óbreyttra borgara sé tryggt og alþjóðleg mannréttindi virt og telur brýnt að send verði eftirlitsnefnd frá Sameinuðu þjóðunum á svæðið í samræmi við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 1405(2002).

    Alþingi krefst þess að öllum ofbeldisverkum linni, þar á meðal sjálfsmorðsárásum og beitingu hervalds, að Ísrael dragi herlið sitt til baka frá sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna, að deiluaðilar semji um vopnahlé og að hafnar verði friðarviðræður um sjálfstætt ríki Palestínumanna og öryggi Ísraelsríkis innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra í samræmi við nýjustu ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

    Alþingi vísar til ályktunar sinnar frá 18. maí 1989, ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397(2002), 1402(2002) og 1403(2002) um leið og það lýsir yfir að þjóðum heims beri að stuðla að því að Ísrael og Palestínumenn leysi úr ágreiningsefnum sínum á grundvelli alþjóðalaga og samþykkta Sameinuðu þjóðanna.

    Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2002.

Ályktun SÞ nr. 377:
http://www.un.org/Depts/dhl/landmark/pdf/ares377e.pdf

Eftirtaldir þingmenn eiga sæti í utanríkismálanefnd:

    Ágúst Ólafur Ágústsson, Sf, varamaður
    Bjarni Benediktsson, S,
    Dagný Jónsdóttir, F, varamaður
    Drífa Hjartardóttir, S,
    Guðjón A. Kristjánsson, Fl, varamaður
    Guðlaugur Þór Þórðarson, S, varamaður
    Halldór Blöndal, S, form.
    Hjálmar Árnason, F, varamaður
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Sf, varamaður
    Jón Gunnarsson, Sf,
    Jónína Bjartmarz, F,
    Magnús Stefánsson, F, varaform.
    Margrét Frímannsdóttir, Sf, varamaður
    Sigurður Kári Kristjánsson, S, varamaður
    Sigurrós Þorgrímsdóttir, S, varamaður
    Steingrímur J. Sigfússon, Vg,
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sf,
    Össur Skarphéðinsson, Sf,

Bechtel, gróðapungar kjarnorkuvopnanna

By Uncategorized

Stop Bechtel

Bandarískar friðarhreyfingar leggja áherslu á að dagana 6.-9. ágúst verði höfð uppi mótmæli við skrifstofur stórfyrirtækisins Bechtel í tilefni af því að 61 ár verða þá liðin frá því kjarnorkusprengjum var varpað á Hírósíma og Nagasakí (sjá hér) .

Bechtel, sem var stofnað árið 1898, hefur nýlega hafið starfsemi á Íslandi, en fyrirtækið sér um byggingu álversins á Reyðarfirði. Hefur fyrirtækinu verið hrósað fyrir góða umhverfis- og starfsmannastefnu. Hvað hefur það með kjarnorkuvopn að gera?

Raunin er sú að Bechtel er alræmt fyrirtæki og blóðugt upp fyrir axlir. Það er eitt mesta stríðsgróðafyrirtæki heims og hefur tekið þátt í ýmiskonar heldur ógeðfelldu gróðabralli. Því hafa bandarískar friðarhreyfingar helgað þessa daga gagnrýni og baráttu gegn Bechtel. Sett hefur verið upp vefsíðan august6.org þar sem greint er frá undirbúningi þessara aðgerða og ýmsar upplýsingar veittar um Bechtel. Yfirskrift aðgerðanna er: Frá Hírósíma til Yucca-fjalls til Miðausturlanda: Stöðvum Bechtel. Gegn kjarnorkuvopnum! Gegn stríði! Gegn stríðsgróðafyrirtækjum! Styðjum réttindi frumbyggja!

Af hverju Bechtel?
Fyrirtækið Bechtel er auk Halliburton það fyrirtæki sem mest græðir á stríðinu í Írak. Jafnframt hefur fyrirtækið hagnast mjög á hnattvæðingunni. Í andstöðunni við Bechtel geta hinar ýmsu hreyfingar sameinast, friðarhreyfingin, hreyfingin gegn kjarnorku og alþjóðlega réttlætishreyfingin eða hreyfingin gegn hnattvæðingu, eins og hún er líka kölluð. Gegnum tengsl sín við stjórnvöld í heila öld er Bechtel dæmigert fyrir stríðsgróða og fyrir tengslin milli kjarnorkuframleiðslu og útbreiðslu kjarnorkuvopna, milli „frjálsra viðskipta“ og arðráns á frumbyggjum og milli fyrirtækja og ríkisstjórna.

Hér eru nokkur dæmi:

Bechtel byggði jarðefnavinnslustöðvarnar (petrochemical plant) sem gerðu Írak kleyft að framleiða efnavopn gegn Íran. Fjórum mánuðum eftir að Saddam Hussein notaði eiturgas í stríðinu við Íran tók fyrirtækið að sér byggingu eiturvopnaverksmiðju í Írak (sjá hér). Þegar Saddam Hussein gerði að engu vonir Bechtel um leyfi til að leggja olíuleiðslu gegnum Írak fór fyritækið að þrýsta á stríðsundirbúning (með fulltingi manna eins og George Shultz, fyrrum stjórnarformanns Bechtel, utanríkisráherra í stjórn Ronalds Reagans og stofnfélaga í Nefndinni til frelsunar Íraks (Committee for the Liberation of Iraq – nefndin var sett upp síðla árs 2002 að frumkvæði Bruce Jackson, fyrrum varastjórnarformanns Lockhead Martin). Nú er Bechtel ásamt Halliburton (Dick Cheney, varaforseti, var stjórnarformaður þess 1995-2000) að fá gríðarlegar upphæðir fyrir að endurbyggja það sem fyrirtækið aðstoðaði við að eyðileggja. Auk þess hagnast það vel á einkavæðingu vatns í Írak, en Bechtel er umsvifamikið í þeirri grein, eitt af tíu stærstu fyrirtækjum heims sem hafa nýtt sér einkavæðingu vatns, og var meðal annars með starfsemi í Bólivíu eftir einkavæðingu vatns þar, sem olli íbúunum svo miklum búsifjum að þeir gerðu uppreisn árið 2000 og Bechtel hrökklaðist burtu en hafði upp úr krafsinu milli 12 og 40 milljónir dollara í skaðabætur.

Bechtel tók þátt í að þróa kjarnorkusprengjurnar sem var varpað á Hírósíma og Nagasakí. Nú fær Bechtel háar upphæðir fyrir að aðstoða við rekstur Kjarnorkuöryggisstofnunarinnar – National Nuclear Security Administration (NNSA). Þetta er hálfsjálfstæð (semi-autonomous) stofnun innan orkumálaráðuneytisins sem þingið setti upp árið 2000. Á heimasíðu stofnunarinnar er sagt að tilgangur hennar sé að sjá um öryggi kjarnorkuvopna Bandaríkjanna án kjarnorkutilrauna (sem eru bannaðar en stórveldin hafa verið að reyna að fara kringum þetta bann). Meðal annars er NNSA, skv. heimasíðu stofnunarinnar, ætlað að þróa minni og öruggari kjarnorkuvopn í samræmi við hina svokölluðu „Complex 2030“-áætlun. Bechtel kemur að rekstri allmargra stöðva á vegum stofnunarinnar, m.a. í Los Alamos, eins og lesa má á heimasíðu fyrirtækisins. Los Alamos er víðfræg rannsóknarstöð og er fæðingarstaður kjarnorkusprengjunnar, þar voru framleiddar sprengjurnar sem var varpað á Hírósíma og Nagasakí. Starfsemi stöðvarinnar var einkavædd 1. júní síðastliðinn, „hljóðlátur áfangi í ferli einkavæðingar opinberrar þjónustu og starfsemi,“ eins og komist er að orði í vefútgáfu blaðsins the Monitor, og var reksturinn falinn Bechtel í samvinnu við Háskóla Kaliforníu og tvo aðra aðila. Bechtel kemur einnig gegnum dótturfyrirtæki sitt Bechtel Nevada að rekstri hinnar geysistóru Nevada rannsóknarstöðvar (Nevada Test Site sjá einnig hér) . Nevada-stöðin var sett á fót 1951 til þess að gera tilraunir með kjarnorkuvopn, m.a. með tilraunasprengingum, og þar voru flestar tilraunasprengingar Bandaríkjanna framkvæmdar þar til þeim var hætt árið 1992, a.m.k. 925, sennilega fleiri – margar þeirra ofanjarðar til 1962. Nú verið að undirbúa á svæðinu geymslur fyrir geislavirkan úrgang úr kjarnorkuverum og er áætlað að þær verði teknar í notkun árið 2017 og er Bechtel mikilvægur verktaki í því verki. Þær verða í Yucca-fjalli. Þessi áætlun er mjög umdeild og mætir mikilli andúð í Nevada og frumbyggjar á svæðinu standa í baráttu gegn bæði tilraunastöðinni og geymslunni fyrir kjarnorkuúrgang. Bechtel hefur staðið að byggingu fjölmargra kjanorkuvera í Bandaríkjunum og víðar, m.a. fyrsta kjarnorkuversins í Íran.

Bechtel hefur löngum átt greiðan aðgang að ráðamönnum í Bandaríkjunum. Það var ekki til að torvelda framgang fyrirtækisins í kjarnorkuiðnaðinum að félagi Steve Bechtel úr háskóla, John McCone, varð formaður kjarnorkunefndar Eisenhowers forseta. Meðal annarra tengiliða fyrirtækisins við stjórnvöld má nefna þessa:

Caspar Weinberger, varnarmálaráðherra í stjórn Reagans, var háttsettur hjá Bechtel.

George Schultz, utanríkisráðherra Reagans, var stjórnarformaður Bechtel og er enn í stjórn fyrirtækisins.

W. Kenneth Davis, orkumálaráðherra Reagans og formaður kjarnorkunefndarinnar í stjórnartíð Reagans, var yfirmaður við kjarnorkustarfsemi Bechtel.

William Casey, forstjóri CIA í stjórnartíð Reagans og og yfirmaður Export-Import bankans (mikilvæg lánastofnun á vegum ríkisins) í stjórnartíð Ford, er ráðgjafi hjá Bectel.

Chuck Redman, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð og Þýskalandi, er yfirmaður Bechtel í Mið-Austurlöndum, Suðvestur-Asíu, Evrópu og Afríku.

Marga fleiri mætti telja sem hafa verið tengdir Bechtel, sumir störfuðu hjá kjarnorkunefndinni (Atom Energy Commission).

Sjá nánar:

Gagnauga.is

Bechtel í blíðu og stríðu eftir Írisi Ellenberger

Bechtel: Profiting from Destruction. Why the Corporate Invasion of Iraq Must be Stopped, by CorpWatch, Global Exchange, Public Citizen, Collaborative Report
June 5th, 2003

Grein um Bechtel á vefnum Reaching Critical Will

Einar Ólafsson

Ríkisstjórnin og Líbanon: Betur má ef duga skal

By Uncategorized

kana300706 Í eftirfarandi grein, sem birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 2006, gagnrýnir Ögmundur Jónasson þingmaður bréf Valgerðar Sverrisdóttur til utanríkisráðherra Ísraels frá 28. júlí. Þess má geta að þingflokkur Vinstrigrænna hefur farið fram á fund í utanríkismálanefnd og verður hann haldinn á morgun, 2. ágúst.

Ríkisstjórn Íslands hefur sent utanríkisráðherra Ísraels bréf þar sem Ísraelsstjórn er hvött til að „leita leiða“ til að láta af árásum í Líbanon þegar í stað. Í mörgum fjölmiðlum hefur verið vísað í bréfið á þann hátt að það sé mjög harðort og í fréttum Sjónvarps sl. föstudag sagði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra að ef til vill væri nokkuð „langt gengið“ með þessu bréfi. Ekki veit ég í hvaða heimi ríkisstjórn Íslands lifir og þar með talinn utanríkisráðherrann. Ísraelsstjórn hefur stundað stórfelld mannréttindabrot um áratugaskeið, haldið heilli þjóð hernuminni og umlukið hana kynþáttamúrum, brotið gegn ákvæðum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna, margoft ráðist inn í grannríkin, nú síðast í Líbanon með þeim afleiðingum að ein milljón manna er komin á vergang, mörg hundruð manns, flestir óbreyttir borgarar drepnir, sjúkrahús, samgöngumannvirki, vatnsveitur og skólar jafnaðir við jörðu, samdóma álit að með þessu séu framdir stórfelldir stríðsglæpir; allt þetta og ríkisstjórn Íslands vill að Ísraelar “leiti leiða” til að stöðva stríðsglæpina og telur að þar með gangi hún hugsanlega of langt!

Í bréfi Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra er uppi sama framsetningin og Bandaríkjastjórn og sú ísraelska leggja mest upp úr: „Réttur“ Ísraels til að verja sig. Þessi „réttur“ er rækilega tíundaður í hinu „harðorða“ bréfi. Hvergi er minnst á „rétt“ Palestínumanna, hvorki til að verja sig né hafa sjálfsforræði yfir eigin málum. Nýkjörin stjórn Palestínu hefur þannig ekki fengið leyfi til að starfa, þingmenn og ráðherrar verið fangelsaðir af ísraelska hernámsliðinu, skatttekjum haldið frá lýðræðislega kjörinni stjórn þannig að hún hefur ekki getað rekið velferðarþjónustu og aðra samfélagsþjónustu. Allt þetta og utanríkisráðherra Íslands á varla nógu sterk orð til að lýsa vináttu Íslands í garð Ísraelsríkis og leyfir sér þar í ofanálag að segja í þessu samhengi að „aldrei (sé) einum að kenna þegar tveir deila“, eins og Valgerður Sverrisdóttir gerði í viðtali við Sjónvarpið þegar bréfið „harðorða“ var til umfjöllunar í fréttum.

Nei, utanríkisráðherrann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að hafa gengið of langt með bréfi sínu til ísraelskra stjórnvalda. Ríkisstjórnin mætti hins vegar ganga lengra og sýna í verki vilja Íslands til að koma þegar í stað á vopnahléi. Í nýlegri samþykkt þingflokks VG er hvatt til þess, að með hliðsjón af ályktun Sameinuðu þjóðanna númer 377, verði óskað eftir því að Allsherjarþing SÞ verði kvatt saman til að setja fram kröfu um tafarlaust vopnahlé. Ályktun 377 á rúmlega hálfrar aldar sögu og er upphaflega runnin undan rifjum Bandaríkjamanna um miðja síðustu öld, til þess að komast fram hjá neitunarvaldi Sovétmanna í Öryggisráði SÞ. Ákvæðinu hefur verið beitt nokkrum sinnum, en frægast varð þegar Bandaríkjastjórn hafði forgöngu um að kalla Allsherjarþingið saman árið 1956 eftir að Bretar og Frakkar höfðu beitt neitunarvaldi í Suez-stríðinu. Þá samþykkti Allsherjarþingið kröfu á hendur innrásarherjum Breta, Frakka og Ísraela um tafarlausan brottflutning innrásarherja þeirra frá Egyptalandi. Þessi samþykkt myndaði svo mikinn þrýsting alþjóðlega og heima fyrir að innrásarherirnir höfðu sig á brott.

Það er á valdi allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að óska eftir því að Allsherjarþingið komi saman á grundvelli ályktunar 377. Ríkisstjórn Íslands á að gera þetta. Þá mun enginn velkjast í vafa um að alvara er á bak við kröfuna um tafarlaust vopnahlé og stöðvun stríðsglæpanna í Líbanon og Palestínu.

Sjá fleiri greinar á ogmundur.is

Mynd: Frá fjöldamorðunum í Kana 30. júlí 2006
http://72.232.207.82/~lebanon/

Stöðvið morðin núna

By Uncategorized

kana300706 Ávarp Ögmundar Jónassonar á mótmælafundi gegn árásum Ísraels á Líbanon fundi við bandaríska sendiráðið í Reykjavík 28. júlí 2006

Hverjir styðja tafarlaust vopnahlé í Miðausturlöndum? Það eru Sameinuðu þjóðirnar, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn, Grikkland, Jórdanía, Rússland, Saudi Arabía, Egyptaland, Kanada, Kýpur og mörg fleiri ríki – nú fyrir stundu bættist Ísland í þennan hóp. Það voru góð tíðindi.

Hverjir eru á móti? Bandaríkin og Bretland.

Ef stríð væri lausnin á vanda Miðausturlanda, ef stríð væri leiðin til friðar, hefðu menn unnið fyrir friði í þessum heimshluta, sem ætti að duga til enda veraldar.

Þeir sem styðja stríð, telja sig tala af skynsemi, vera handhafa hennar. En það er ekki skynsemin sem stjórnar heldur kalt hjarta. Þeir telja sig vera fulltrúa yfirvegunar en eru í raun fulltrúar úrræðaleysis, kæruleysis, sinnuleysis; þeir eru fulltúar hroka og ofbeldis því þeir samþykkja morð með köldu blóði.
Þeir samþykkja meiðingar, eyðingu, skelfingu og misþyrmingar. Af hverju? Jú, það er svo óraunsætt að stöðva ofbeldið. Skammtíma hryllingur, langtíma friður. En ég spyr, hver trúir þessu? Svona hafa allir harðstjórar heimsins talað, allir einræðisherrar, allir valdafíklar. Það er sársaukafullt núna, en síðan kemur framtíðarríkið, segja þeir, en það kemur aldrei.

Það er kominn tími til að segja hlutina eins og þeir eru. Rætur vandans eru EKKI barátta gegn kúgun og ofbeldi. Rætur vandans eru EKKI sjálfsvörn fátæks fólks gegn ofbeldi hervalds og peninga. Rætur vandans eru sjálf kúgunin og ofbeldið, hervaldið og peningavaldið. Rætur vandans er að við í hinu svokallaða alþjóðasamfélagi erum ekki lengur á vaktinni.

Við þurfum að knýja Ísrael til að fara að alþjóðalögum, við þurfum að knýja fram frið í Miðausturlöndum, þannig upprætum við vandann. Þannig rífum við illgresið upp með rótum. Við virðum og elskum gyðinga, en ekki Ísraelsríki eins og það hagar sér. Við virðum og elskum allt fólk en gjöldum varhug við öfgahyggju hvers konar, hvort sem hún á rætur í Ísrael, arabaríkjum eða Bandaríkjunum.

Látum ekki valdahlutföll, herstyrk, peninga eða silkimjúkt tal um lýðræðisást villa okkur sýn. Það er almenningur, þeir sem mæta, þeir sem koma saman, þeir sem láta sig ranglætið varða, varðmenn lýðræðis og mannréttinda, sem nú verða að taka höndum saman. Við skulum muna hið fornkveðna. „Þegar ill öfl ná saman, þá þurfa góð öfl að sameinast, annars falla hinir góðu menn einn af öðrum, í tilgangslausri fórn, í vonlausri baráttu og án samúðar frá nokkrum manni.“ Þannig mæltist stjórnmálaskörungnum og heimspekingnum Edmund Burke, einhverju sinni, en hann sat á breska þinginu á 18. öld, og var í senn talsmaður mannréttinda og íhaldssamra gilda.

Nú liggur mikið við. Það er undarlegt andrúmsloft í heimsmálum. Smámenni eru víða við völd, sem annað hvort styðja, eða sjá ekki við hinum illu öflum og telja að allt sé hægt að leysa með nógu mörgum sprengjum, nógu miklum misþyrmingum, nógu mörgum fótalausum börnum og nógu mikilli bjartsýni. Það er engin dómgreind starfandi í heila þessara manna. Bara hroki, hræðsla og heimska.

Við stöndum fyrir framan bandaríska sendiráðið í Reykjavík. Hér innandyra sitja fulltrúar þess ríkis sem öllu ræður um framvinduna í Mið-austurlöndum. Þar er í stafni George Bush. Hann segir að enn sé ekki kominn tími til að Ísraelar stöðvi árásir á Líbanon. Og hann á stuðning í Blair hinum breska. Við erum komin langan veg frá því Eisenhower, þáverandi forseti Bandaríkjanna, flutti ávarp til bandarísku þjóðarinnar í Súez stríðinu á sjötta áratug síðustu aldar. Í ávarpi sínu fordæmdi Eisenhower ofbeldi. Hann sagði: „Í öllum þeim erfiðleikum sem steðjað hafa að Mið-austrinu hafa allar þjóðir orðið að sæta ranglæti. En ég er þeirrar sannfæringar, að tæki ranglætisins, sem stríð alltaf er, fái aldrei læknað það ranglæti.“

Þetta voru vitiborin orð úr munni Bandaríkjaforseta fyrir fimmtíu árum. Nú er öldin önnur. Árið 1956 voru það Bandaríkjamenn sem höfðu frumkvæði að því að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var kallað saman í Súez deilunni, eftir að Bretar og Frakkar höfðu beitt neitunarvaldi í Öryggisráðinu. Allsherjarþingið samþykkti kröfu um að Bretar, Frakkar og Ísraelar héldu brott með heri sína frá Egyptalandi. Svo mikill varð þrýstingurinn þegar þorri ríkja heims reisti þessa kröfu að innrásinni var hætt og herirnir dregnir til baka.

Nú þarf að reisa kröfu á hendur Ísraelum og bakhjarli þeirra, Bandaríkjunum: Stöðvið stríðsglæpina, stöðvið mannréttindabrotin. Heimurinn krefst þess að vopnin verði tekin af fólki, sem ekkert kann annað en að drepa hvert annað.
Ísland á að krefjast þess að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman þegar í stað svo stöðva megi ofbeldið. Sýnum að okkur er alvara; að við viljum aðgerðir. Enga bið.

Okkar krafa er: Stöðvið morðin núna.


(Mynd: Frá fjöldamorðunum í Kana 30. júlí 2006
http://tyros.leb.net/qana2/index.html)

Blekkingar í þágu lögregluríkis á Íslandi

By Uncategorized

Elías Davíðsson, 30. júlí 2006

Sunnudaginn, 23. júlí 2006, birti Morgunblaðið „Reykjavíkurbréf“ sem þandi sig yfir 2/3 úr blaðaopnu og var ekki undirritað. Huldumanninum sem samdi Bréfið gekk það fyrst og fremst til að dásama baráttu dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, fyrir auknum lögregluvöldum, þ.m.t. stofnsetningu greiningar- og þjóðaröryggisdeilda, til að stemma stigu við meintum alþjóðaglæpum(1) og hryðjuverkum. Í þeirri baráttu greip huldumaðurinn til vafasamra fullyrðinga, enda hefur það sýnt sig að eina leiðin til að koma upp lögregluríki er að beita blekkingum.

Áður en höfundur ofangreinds bréfs ræðst á „furðulegan málflutning“ nokkurra meinlausra þingmanna, hefur hann gætt þess að minna meinlausa andstæðinga sína á sameiginlegt Faðirvor vestrænna stjórnmálamanna, þ.e. á bænina: „Leiddu okkur, Guð faðir í Vestri, í heilagri baráttu gegn hryðjuverkaógn múslima og veit okkur ráð og styrk til að bægja þeirri ógn frá. Amen.“ Þá bæn þurfa nú allir stjórnmálamenn að þylja við vissar athafnir til þess að þeim verði ekki úthýst úr kirkju hins nýja Guðs. Úr launkofa sínum minnir predikari nýju kirkjunnar á og veifar fingri:

„Hryðjuverkaógnin er raunveruleg og nálæg. Öfgamenn hafa ráðist á skotmörk í nágrannalöndum okkar, sem við höfum mest samskipti við. Skemmst er að minnast árásanna á New York, Washington, London og Madrid. Það getur gerzt hvenær sem er að hópur Íslendinga sé staddur á fjölförnum stað í nálægri stórborg, þar sem hryðjuverkamenn ákveða að láta til skarar skríða. Og það er engan veginn hægt að útiloka að þeir beini sjónum að Íslandi, landi sem sagan sýnir að hefur verið auðvelt að ráðast inn í eða ná valdi á þegar þar hefur skort trúverðugar varnir.“

Eins og prestar fyrri alda, sem vöruðu við djöflinum er leyndist í skúmaskotum, byggir huldumaðurinn predikun sína á sandi. Í fyrsta lagi er enginn fótur fyrir því að hryðjuverkaógnin sé raunveruleg og nálæg. Samkvæmt opinberum bandarískum skýrslum eru 1000 sinnum meiri líkur á því að Íslendingur á rölti í New York eða Washington verði stunginn til bana af eiturlyfjaneytanda en að hann láti lífið í hryðjuverkum. Það eru einnig 1000 sinnum meiri líkur á því að Íslendingur sem ferðast í Evrópu láti lífið í umferðarslysi en í hryðjuverkum. Ferðist Íslendingurinn til Indlands eru 1000 sinnum meiri líkur á að hann láti lífið af völdum snákabits en í hryðjuverkum. Þetta eru auðvitað ekki nákvæmar tölur en nærri lagi. Hins vegar er rétt að Íslendingurinn myndi taka lítilsháttar meiri áhættu ef hann endilega vildi ferðast sér til gamans á átakasvæðum í Sri Lanka, Írak, Tsétsníu, Kashmír eða Palestínu um þessar mundir. En jafnvel þar eru talsvert meiri líkur á að hann mundi láta lífið af magakveisu eða hjartaslagi en í hryðjuverkaárás.

Næstu rök huldumannsins er gömul og slitin tugga um hryðjuverkin 11. september 2001 og klóna þeirra í Madrid og London. Ósannindi verða þó ekki að heilögum sannleik þótt þúsund manns í jakkafötum kyrji þau frá morgni til kvölds. Nú, þegar næstum fimm eru ár eru liðin frá fjöldamorðunum 11. september, vitum við ekki enn hverjir frömdu þessa glæpi. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ekki lagt fram neinar sannanir sem myndu standast fyrir dómi fyrir því að aðilar Al Qaeda eða aðilar sem tengjast Talíbönum í Afganistan hafi framið ofangreinda glæpi. Alríkislögreglan, FBI, segist ekki vera í stakk búin til að kæra Osama bin Laden vegna „skorts á haldgóðum sönnunum.“ Samkvæmt fjölda sjónarvotta voru tvíburaturnarnir felldir með sprengiefni sem búið var að setja í byggingar löngu fyrir 11. september 2001. Hverjir fengu aðgang að byggingunum til þess að undirbúa þessar sprengingar? Bandarísk stjórnvöld hafa lagt sig í líma við að torvelda rannsókn þessara fjöldamorða og leyna gögnum sem gætu sannað hlutdeild opinberra aðila í glæpunum. Svipaða sögu er að segja frá atburðunum í Madrid og London og meintum tengslum lögreglunnar við „hryðjuverkamennina“. Getum við treyst stjórnmálamönnum sem byggja stefnu sína á sögusögnum?

Þrátt fyrir þagnarsamsæri fjölmiðla hefur sjálfstæðum fræðimönnum um víða veröld tekist að afhjúpa myrkraverk leyniþjónusta vesturlanda, þ.m.t. náin tengsl þeirra við svonefnda hryðjuverkahópa. Eins og kemur fram í rannsóknum bandarískra, breskra og franskra fræðimanna eru skilin óljós milli starfsemi leyniþjónusta Vesturlanda og Al Qaeda: Enn er ekki ljóst hvort Al Qaeda eru sjálfstæð samtök sem eru í nánum tengslum við leyniþjónustu Vesturlanda eða hvort Al Qaeda er aðeins nafn á samstarfsverkefni CIA, MI5 og ISI (leyniþjónustu Pakistans) sem hefur ráðið múslima í vinnu til að leika hlutverk hryðjuverkamanna. Yfirmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) og CIA hafa löngu verndað háttsetta leiðtoga Al Qaeda og greitt leið þeirra en bandaríski herinn hefur þjálfað meðlimi Al Qaeda til að stunda ofbeldisverk. Bandaríska hernum hefur greinilega verið skipað að leita ekki að Osama bin Laden, manni sem forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, lýsti sem ómerkilegum „jaðarmanni“ aðeins fimm mánuðum eftir árásirnar 11. september. En trúarkenningin lifir enn góðu lifi um þennan múslímska djöful og um heimssamsæri múslima.

Það eitt að dómsmálaráðherra Íslands virðist ekki hafa minnstu glóru um ofangreindar staðreyndir, ætti að kalla fram kröfu um afsögn hans. Íslendingar geta ekki treyst ráðherra sem treystir á samstarf við aðila sem tengjast Al Qaeda eða eru jafnvel vinnuveitendur þessara samtaka.

En snúum okkur aftur að huldumanninum. Auk þess að velta sér upp úr dómsdagshugleiðingum um hættuna sem kynni að stafa að þjóð vorri í skjóli varnarleysis(2), fer hann mikinn um hættuna sem stafar af hálfu alþjóðlegra glæpahópa, eiturlyfjasmyglara og mansala. Það sem vekur sérstaklega athygli í málflutningi huldumannsins er skortur á upplýsingum um umfang þessarar hættu. Auðvitað eru fáir landsmenn hrifnir af slíkum glæpum, en hver er raunverulega hættan? Hann nefnir engar tölur, engin dæmi, til að sanna að séraðgerða sé þörf.

Síðasta hálmstrá huldumannsins – dæmigerð fyrir íslenska stjórnmálamenn sem skortir hæfileika til sjálfstæðs mats – er að hengja sig í ákvarðanir stjórnvalda í nágrannaríkjum. Stofnun greiningardeildar á vegum lögreglunnar á þannig að endurspegla „þróun hjá lögregluembættum nágrannalandanna og auðveldar þar með íslenskum lögregluyfirvöldum samstarf við slíkar deildir annars staðar.“ Orðið „samstarf“ er alltaf svo göfugt og saklaust en það segir ekkert um innihald samstarfsins né um heilindi samstarfsaðilanna. Starfsemi lögreglu í nágrannaríkjum getur varla verið fyrirmynd fyrir Íslendinga eins og eftirfarandi dæmi sanna. Svíþjóð var fyrsta Norðurlandaríkið þar sem lögreglan aðstoðaði leyniþjónustu Bandaríkjanna við mannrán og fangaflug. Dönsk yfirvöld taka þátt í leynilegu hlerunarsamstarfi ECHELON á vegum bresk-bandaríska öxulsins en neita að aðstoða Evrópusambandið í rannsókn sinni á þessu persónunjósnakerfi (3). Norsk yfirvöld hafa ákveðið að styðja, ásamt yfirvöldum í Ástralíu, Hong Kong og Kanada, uppsetningu nýs hnattræns eftirlits með fjarskiptum einstaklinga á vegum FBI (4). Finnsk yfirvöld leyfðu lendingu fangaflugs CIA í Helsinki en sögðust ekki hafa haft hugmynd um það sem þar fór fram (5). Er hugmyndin um „samstarf“ kannski viðleitni til að tengja Ísland við alþjóðlega njósnastarfsemi sem beinist að ótilgreindum einstaklingum og hópum?

Samantekt

Eins og sýnt er að ofan, er leiðin að lögregluríkinu stráð blekkingum. Vilji menn forðast lögregluríki á Íslandi er ekki nóg að benda á hugsanlega misnotkun lögregluvalds með því að setja henni skorður, heldur þarf að afhjúpa blekkingarnar sem valdhafar beita til að réttlæta slíkar áætlanir. Meðan andstæðingar lögregluríkis neita að horfast í augu við þá staðreynd að leyniþjónustur vesturlanda taka þátt í skipulagi hryðjuverka, mun andóf þeirra ekki duga til að verja lýðræðið og mannréttindi.

* * * * * * * * * * * * *

(1) Ekki er meiningin að bregðast við öllum alþjóðaglæpum. Íslensk yfirvöld hafa neitað að setja lög gegn stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu og þjóðarmorði, eins og þeim er þó skylt að gera samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland hefur heitið að framfylgja. Stríðsglæpamenn geta því áfram reiknað með heimboði að Bessastöðum og jafnvel fálkaorðu, ef þeir hafa uppfyllt kvóta sinn í manndrápum og eyðileggingu heilla samfélaga, eins og nýlegt dæmi sannar.
(2) Það eru til dæmi um að hryðjuverkamenn hafi tekið yfir varnarlaus eylönd. Eitt dæmi er yfirtaka breskra hryðjuverkamanna á eyjunni Diego Garcia á Indlandshafi árin 1967-1973. Allir íbúar voru fluttir á brott með valdi svo breska heimsveldið gæti stofnað þar herstöð. Bækistöðin var síðan notuð til árása á Írak og virðist einnig notuð sem pyntingastöð (heimild: http://www.sepiamutiny.com/sepia/archives/001958.html – sjá einnig https://fridur.is/nobases/diego). Annað dæmi er árásin á eyríkið Grenada í Karíbahafinu árið 1983. Hryðjuverkin voru fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum (heimild: http://www.democracynow.org/article.pl?sid=04/06/10/1425246). Eyríkið gat ekki varist bandarískum hryðjuverkamönnum.
(3) http://www.mail-archive.com/cypherpunks@algebra.com/msg05219.html,
http://seclists.org/lists/politech/1999/Dec/0046.html,
http://www.enterstageright.com/archive/articles/0200echelon.htm
(4) http://www.privacy.org/pi/activities/tapping/statewatch_tap_297.html
(5) http://colombia.indymedia.org/news/2006/02/38221.php

Hve margir voru á fundinum við bandaríska sendiráðið?

By Uncategorized

libanon-fundur280706 Í dálkinum „Frá degi til dags“ í Fréttablaðinu 30. júlí veltir blaðamaður fyrir sér fjölda fundarmanna á mótmælafundi vegna árásanna á Líbanon sem var haldinn við sendirráð Bandaríkjanna 28. júlí. Hann undrast að lögreglan hefur slegið á töluna fimm til sexhundruð manns þar sem samkvæmt myndum í frétt NFS hafi í mesta lagi verið eitt til tvöhundruð manns. Um er að ræða myndband sem sjá má á visir.is (það er ekki myndin sem hér fylgir). Myndin er tekin aðeins ofan frá úr nokkurri fjarlægð og afar erfitt að meta fjöldann eftir henni þar sem fundarmenn skyggja hver á annan. Frá slíkum vinkli þjappast hópurinn frekar saman og sýnist minni en hann raunverulega er. Til að áætla fjöldann út frá mynd þarf hún vera tekinn miklu beinna ofan frá. Ekki var gerð nein tilraun af hálfu fundarboðenda til að telja fundarmenn, en það vill svo til að fyrir fáum dögum var undirritaður í um hundrað manna hópi úti við og gat auðveldlega séð að þarna voru að minnsta kosti fjórum sinnum fleiri og því slógum við á töluna „um fjögurhundruð“ sem lágmarkstölu. Má þó vel vera að rétt tala sé fimm til sex hundruð.

Einar Ólafsson

Hvað er ályktun 377?

By Uncategorized

Bent hefur verið á þann möguleika að kalla saman Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna vegna stríðsins í Líbanon þar eð Öryggisráðið er gagnslaust vegna afstöðu Bandaríkjanna. Þá er vísað til ályktunar 377. Það voru Bandaríkin sem stóðu fyrir því að Allsherjarþingið samþykkti þessa ályktun haustið 1950. Þá um sumarið hófst Kóreustríðið. Rússar beittu þá neitunarvaldi í Öryggisráðinu til að vernda Norður-Kóreu. Samkvæmt þessari ályktun skal Allsherjarþingið fjalla um málið tafarlaust ef um er að ræða árás, ófrið eða hættu á ófriði og Öryggisráðið er ófært um að sinna því ábyrgðarhlutverki sínu að tryggja frið og öryggi. Ályktuninn var næst beitt árið 1956 vegna Súez-deilunnar og hefur verið beitt nokkrum sinnum síðan (sjá nánar hér).

Ályktun 377 – hér sem pdf-skjal.

Sjá einnig hér

Hér er kort sem sýnir hvar Ísrael hefur gert árásir á Líbanon 12.-22. júlí.

Rússar hætta við flotaæfingar við Ísland

By Uncategorized

rússnesk herskip Ekki verður annað séð af neðangreindri frétt Fréttablaðsins í dag en ályktanir og aðgerðir SHA hafi eitthvað að segja, en samtökin sendu frá sér ályktun 27. júní vegna fyrirhugaðra flotaæfinga Rússa sem nú hafa verið slegnar af.

    Rússneski herinn mun ekki halda neinar flotaæfingar nærri Íslandi nú eða síðar á þessu ári, að sögn Victors I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi.

    Við komumst að því í gegnum fjölmiðla nýverið að íslensk félagasamtök, þar með talin Samtök herstöðvaandstæðinga, hefðu áhyggjur af því að herflotaæfingar yrðu haldnar við Ísland, svo við sendum inn fyrirspurn og fengum opinbert neikvætt svar í morgun frá yfirmanni rússneska sjóhersins, sagði Tatarintsev í samtali við Fréttablaðið.

    Hann sagði að þó engin bein fyrirspurn hefði borist rússneska sendiráðinu varðandi málið hefði hann tekið spurninguna til sín.
    Þetta voru óbeinar spurningar, en spurningar samt sem áður og því ákváðum við að leita upplýsinga um málið, enda er það réttur hvers einstaklings að spyrja spurninga sem þessara og starf okkar að svara þeim, sérstaklega þegar kemur að málefnum hersins, sagði Tatarintsev.

    Samtök herstöðvaandstæðinga gagnrýndu í júní meintar fyrirhugaðar æfingar rússneskra herskipa í grennd við Ísland og óttuðust félagar samtakanna að með í för yrðu kjarnorkuknúin farartæki og skip sem gætu verið búin kjarnavopnum.

    Fréttablaðið 29. júlí 2006