Í gærmorgun, 11. desember, kom hópur fólks að tveimur hliðum flotastöðvarinnar í Faslane í Skotlandi og lagðist þar á götuna til að stöðva umferð. 21 voru handteknir. Síðan aðgerðaætlunin Faslane 365 hófst 1. október sl. hafa 350 manns verið handteknir við mótmælaaðgerðir við flotastöðina.
Í Bretlandi hafa að undanförnu verið tíðar mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum, einkum vegna áætlana um endurnýjun kjarnorkuvopnabirgða Breta. Í flotastöðinni í Faslane í Skotlandi eru kjarnorkuvopn staðsett og 1. október sl. var sett af stað aðgerðaáætlun til eins árs, til 30. september 2007, Faslane 365. Víðar í Evrópu hafa að undanförnu verið mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuvopnaáætlunum NATO, m.a í Belgíu.
Sjá nánar:
www.faslane365.org
www.blockthebuilders.org.uk
www.tridentploughshares.org/index.php3
www.banthebomb.org/index.php
www.globalsecurity.org/wmd/world/uk/clyde.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/HMNB_Clyde
www.vredesactie.be/campaign.php?id=12
Mynd: faslane365.org
Á nýafstöðnum leiðtogafundi NATO í Ríga voru þrjú mál efst á baugi: stækkun bandalagsins, hin hernaðarlega umbreyting með áherslu á hið svokallaða hraðlið og loks stríðsrekstur bandalagsins í Afganistan, sem á máli bandalagsins kallast friðargæsla.
Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 29. nóvember var haft eftir sérfæðingi að Afganistan væri prófsteinn á bandalagið og aðstoðarutanríkisráherra Bandaríkjanna sagði Afganistan vera „málefni númer eitt“ í huga Bandaríkjamanna.
Staða Bandaríkjanna og NATO í Afganistan er afleit. Þeir hafa mjög takmarkaða stjórn á ástandinu og í sumum héruðum landsins ríkir stríðsástand. Bandaríkjastjórn og ráðamenn NATO, þ.e. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagins, og hernaðarlegir yfirmenn, eru mjög óánægðir með frammistöðu margra aðildarríkja sem sent hafa hermenn til Afganistan. Bandaríkjamenn, Bretar, Kanadamenn og Hollendingar hafa borið hitann og þungann af átökunum. Sum önnur ríki hafa sett ýmis skilyrði um hvernig og hvar megi beita herliðum þeirra og hafa alls ekki verið tilbúin til að taka fullan þátt í stríðsátökum. Það er eins og þau hafi reiknað með að eingöngu væri um friðargæslu að ræða en ekki bein stríðsátök eins og raunin er. George Bush minnti á fimmtu grein Atlantshafssamningsins þar sem segir að árás á einn aðila sé árás á alla. Sú grundvallarregla ætti við hvort sem árásin væri gerð á heimalönd eða á NATO-herlið í hernaðarátökum erlendis. Þá hafa aðildarríkin ekki heldur fengist til að senda þann herafla sem talinn er nauðsynlegur, enn vantar um fimmtung upp á að svo sé. Á fundinum var líka lögð áhersla á að aðildarríkin ykju hernðarútgjöld sín, en stefnan er að þau verði að lágmarki 2% af landsframleiðslu.
Ísland hefur þessa neyðarlegu sérstöðu í hernðarbandalaginu að hafa engan her. Þess vegna er það gjarnan undanskilið þegar verið er að skamma NATO-ríkin fyrir vera ekki nógu vígreif í Afganistan. Íslensku ríkisstjórninni er þó mikið í mun að vera með og Geir Haarde lýsti því yfir á fundinum að Íslendingar mundu ekki láta sitt eftir liggja í Afganistan og leggja meira fé til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan og styðja við bakið á aðildarríkjunum, sem standa í eldlínunni í sunnanverðu Afganistan þar sem átökin við talíbana eru hörðust. Meðal annars er hugsanlegt að Íslendingar taki að sér einhverja flutninga flugleiðis til Afganistan. Vegna herleysis geta Íslendingar ekki tekið þátt í hinni hernaðarlegu uppbyggingu bandalagins og hinu nýja hraðliði, en „á meðan uppi er krafa í bandalaginu að þjóðirnar auki við almenn útgjöld sín til hernaðarmála höfum við aukið okkar framlög til friðargæslu og hjálparstarfsemi í stríðshrjáðum löndum,“ hefur Morgunblaðið eftir Geir Haarde.
Íslendingar hafa legið undir ámæli fyrir lélega þátttöku í þróunaraðstoð. Nú er hins vegar sjálfsagt mál að leggja fé í svokallaða friðargæslu á vegum NATO, sem að meginhluta felst í verkefnum varðandi hersetu NATO í löndum sem Bandaríkin hafa ráðist inn í, hernumið og skipað leppstjórn.
Nógu slæm var utanríkisstefna Íslands meðan Bandaríkin höfðu hér herstöð. Sá var þó munurinn að þá var Ísland að öðru leyti tiltölulega óvirkur aðili að NATO. Þetta fór raunar að breytast fyrir um tveimur áratugum, m.a. með því að Íslendingar fóru að taka þátt í störfum hermálanefndar NATO. En nú, þegar NATO er að verða æ virkara og árásargjarnara henrðarbandalag, stendur hugur íslenskra ráðamanna til að Ísland verði sem mest með, leggi meira fé í starfsemi þess og taki þátt í hernaði bandalagsins, þó svo að í bili eigi að mýkja eitthvað upp ásjónu „friðargæslunnar“. En við hernað þarf fleira en hermenn sem taka þátt í bardögum, það þarf ýmiskonar þjónustu í kringum þá, og þar ætla íslensk stjórnvöld að veita sitt liðsinni.
Með fundinum í Ríga var staðfest enn frekari þróun NATO til útþenslu og árásarstefnu og jafnframt staðfest frekari þátttaka Íslands í þeirri þróun. Hér er um grafalvarlega þróun að ræða og mikilvægt að fylgjast grannt með henni og andæfa henni.
Einar Ólafsson
Einkahlutafélagið Friðarhús SHA var stofnað 30. mars 2004 með kaup á húsnæði fyrir starfsemi SHA í huga. Söfnun hlutafjár fór rólega af stað, en tók mikinn kipp eftir að rétta húsnæðið fannst.
Hluthafar í Friðarhúsi eru nú rétt rúmlega 190 talsins, sem þýðir að félagið er líklega langfjölmennasta einhahlutafélag landsins. Stefnt er að því að koma tölunni yfir 200 fyrir árslok. Hver verður svo lánsöm/samur að verða hluthafi nr. 200?
Þeir sem vilja gerast hluthafar geta lagt beint inn á reikning nr 0130-26-2530 í eigu Friðarhúss, kt-6004042530. Innleggsnótan gildir sem kvittun. Hver hlutur er tíuþúsund krónur.
Frekari upplýsingar veita Elvar Ástráðsson , s. 561-5549 og Stefán Pálsson, s. 551-2592 eða sha@fridur.is.
Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga (International Network For The Aboliton Of Foreign Military Bases – No Bases Network) hefur nú komið sér upp nýrri vefsíðu og nýjum vefföngum, www.no-bases.net eða www.abolishbases.org. Nú er í fullum gangi undirbúningur að alþjóðlegri ráðstefnu herstöðvaandstæðinga sem haldin verður í Quito í Ekvador 5.-9. mars nk. Þetta verður raunar stofnfundur Alþjóðasamtakanna, en þau hafa verið að þróast frá vorinu 2003 eftir innrásina í Írak. Sjá nánar hér.
Nánar verður sagt frá undirbúningi ráðstefnunnar í Quito hér á Friðarvefnum innan skamms, en einnig má fá upplýsingar um hana á no-bases-vefsíðunni.
Eins og kynnt hefur verið hér á Friðarvefnum fóru SHA fram á lögbann við för forsætis- og utanríkisráðherra á fund Atlantshafsbandalagsins undir lok síðasta mánaðar og/eða að komið væri í veg fyrir að ráðherrarnir hlutist að nokkru leyti til um hernaðaraðgerðir á fundinum sjálfum eða fyrir annan atbeina á vettvangi bandalagsins meðan á fundinum stæði.
Skemmst er frá því að segja að beiðninni var hafnað. Formanni SHA var tilkynnt um niðurstöðuna símleiðis en skriflegur rökstuðningur barst bréflega skömmu síðar. Niðurstaða sýslumannsembættisins olli vonbrigðum og það sama má segja um rökstuðning fullnustudeildar embættisins sem er í skötulíki.
Á tæpri blaðsíðu endursegir deildarstjóri beiðni SHA í stuttu máli og nokkur þeirra lagaákvæða sem erindinu lágu til grundvallar. Rökstuðningurinn er hins vegar afgreiddur í einni málsgrein:
Gerðarbeiðandi byggir á því í máli þessu að sú fyrirætlun gerðarþola að sækja fund Atlantshafsbandalagsins í Riga í Lettlandi, 28.-29. nóvember nk. brjóti gegn lögvörðum rétti hans. Eins og að framan getur verður lögbannsúrræðinu ekki beitt nema gerðarbeiðanda takist að sanna eða gera sennilegt að athöfn sú sem krafist er lögbanns við sé ólögmæt og að ljóst sé að hún brjóti gegn lögvörðum hagsmunumhans. Fyrirætlan um að sækja titekin fund verður ein og sér ekki talin ólögmæt athöfn. Telur sýslumaður að gerðarbeiðanda hefi ekki tekist að sýna fram á eða gera sennilegt að svo sé auk þess sem hann verður ekki talinn hafa sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína af því að koma í veg fyrir að gerðarþolar sæki umræddan fund.
Óhætt er að segja að úrskurður þessi sé hroðvirknislegur, enda er engin tilraun gerð til að svara ítarlegum rökstuðningi SHA þess efnis að erlend fordæmi séu fyrir því að frjáls félagasamtök á sviði mannréttinda-, umhverfis- eða friðarmála geti átti rýmri aðkomu en ella að dómsmálum til að standa vörð um baráttumál sín.
Þá virðist sýslumaður leiða hjá sér seinni hluta kröfu SHA, þar sem varakrafa samtakanna var reifuð þess efnis að í það minnsta væri komið í veg fyrir að ráðherrarnir hlutist að nokkru leyti til um hernaðaraðgerðir á fundinum sjálfum eða fyrir annan atbeina á vettvangi bandalagsins meðan á fundinum stæði. Svar embættisins tekur augljóslega ekki á þessum seinni hluta lögbannsbeiðninnar og eru það ámælisverð vinnubrögð.
Miðnefnd SHA mun á næstu dögum koma saman til fundar og ákveða næstu skref í málinu.
Stefán Pálsson
Aðalfundur Norðurlandsdeildar SHA var haldinn fimmtudaginn 30. nóvember. Rætt var um landsráðstefnu SHA og niðurstöðu hennar, einkum nafnabreytingu, og nálæg verkefni deildarinnar.
Óánægja kom fram með nafnið Samtök hernaðarandstæðinga sem mönnum þykir bera í sér pasifíska afstöðu. Leiðari síðasta Dagfara er skrifaður undir sömu merkjum. Mælist þetta illa fyrir þegar framganga heimsvaldastefnunnar nú um stundir er eins og raun ber vitni sem gefur ástæðu til að skerpa frekar pólitískan (ekki flokkspólitískan) prófíl baráttunnar gegn yfirgangs- og hernaðaröflum okkar daga. Þrír meðlimir deildarinnar sögðu sig úr SHA vegna þessa. Má segja að nærri hafi legið að starf á vegum SHA legðist af fyrir norðan, þótt allir telji málefnin brýn. Það varð þó ekki niðurstaða fundarins heldur fóru fram tilnefningar í stjórn.
Í stjórn Norðurlandsdeildar SHA sitja nú þessir:
Þórarinn Hjartarson formaður, Spítalavegi 17 Akureyri,
thjartar@internet.is
Hallur Gunnarsson, Ásvegi 21 Akureyri,
hallur@thekking.is
Jósep B. Helgason, Hafnarstræti 35, Akureyri
Næsta verkefni samtakanna er að undirbúa Þorláksgönguna Blysför gegn stríði sem gengin hefur verið reglulega á Akureyri síðan jólin 2002.
ÞH