Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.
Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.
Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.
Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.
Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.