Skip to main content

Minningarorð við Anda­pollinn á Reyðarfirði 6. ágúst

Börn fleyta við Andapollinn, Reyðarfirði. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Í dag 6. ágúst, 80 árum eftir kjarnorkuárásina á Hiroshima og Nagasaki, komum við hér saman við Andapollinn á Reyðarfirði til að fleyta kertum. Kertin sem við setjum á yfirborð vatnsins eru ekki aðeins tákn um þau miklu sár sem urðu eftir árásina, heldur einnig tákn um það sem við ætlum að varðveita – vonina, friðinn og samstöðu sem heimurinn þarf að halda fast í.
Ég hef verið þeirrar gæfu að njótandi að fá að ferðast til Japan og heimsótti m.a. Hiroshima. Þar skoðaði ég friðarsafnið sem sýnir hvaða afleiðingar sprengingin hafði á borgina. Ég man að á safninu ríkti grafar þögn og ég var djúpt snortin vegna þeirra þjáninga og hörmunga sem Japanir þurftu að ganga í gegnum í kjölfar sprengingarinnar. Þetta var sérstök upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Fórnarlömbin urðu mörg þar sem margir létust samstundis en aðrir glímdu við afleiðingar alla sína ævi. Eitt þessara fórnarlamba var Sadako Sasaki, en saga hennar er þekkt vegna baráttu ungrar stúlku sem var fórnarlamb kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima. Hún sýndi hugrekki sem gerði hana að hetju í Japan.
Sadako Sasaki fæddist 7. janúar 1943 í Hiroshima, rétt tveimur árum áður en Bandaríkin slepptu kjarnorkusprengju á borgina þann 6. ágúst 1945. Þegar sprengjan féll, var hún aðeins 2 ára gömul og var stödd tveimur kílómetrum frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk. Flestir nágrannar hennar létust en hún var heppin að lifa af, en eins og margir aðrir var hún ekki laus við langtímaáhrif geislavirkni.
Fram að 7. bekk var Sadako bara venjuleg, lífleg og hamingjusöm stúlka. Hún var í hlaupaliði skólans, var góð í íþróttum og tók virkan þátt í kapphlaupum. Svo var það dag einn þegar hún tók þátt í hlaupi fyrir skólann sinn að svimaköstin byrjuðu, hún upplifði mikla þreytu og endurtekin svimaköst í kjölfarið. Foreldrar hennar fóru með hana á sjúkrahús og niðurstaðan lá fyrir, hún greindist með hvítblæði sem á þeim tíma var kallað sprengjusjúkdómurinn. Þá varð hún að takast á við erfiðasta kapphlaup lífs síns, sem var kapphlaup við tímann.
Á meðan hún var inniliggjandi á sjúkrahúsinu, kom Chizuko vinkona hennar til hennar og minnti hana á japönsku þjóðsöguna um trönuna, heilagan fugl í Japan og þá staðreynd að ef einstaklingur gerði 1000 pappírströnur, þá myndi hann fá ósk sína uppfyllta. Á þeim tíma var Sadako fullviss um að henni myndi batna ef hún næði að búa til 1000 trönur.
Þannig byrjaði Sadako að brjóta saman pappírströnur, eða þar til hún lést aðeins 12 ára gömul. Hún hafði þá brotið saman 644 pappírströnur. Þrátt fyrir að hún hafi ekki náð að ljúka 1000 trönum, þá varð hún tákn fyrir baráttu gegn kjarnorkuvopnum, fyrir réttindum barna og fyrir friði.
Árið 1958, þremur árum eftir andlát hennar, var minnisvarði reistur í Hiroshima til að heiðra minningu hennar og ber minningarreiturinn nafn hennar. Á þessum stað er skúlptúr af henni haldandi á pappírströnu og þar er líka minningarskilti sem segir frá sögu hennar. Þegar börn heimsækja minnisvarðann, leggja þau pappírströnur á minningarreitinn, sem tákn um frið í heiminum.
Saga Sadako hefur haft mikil áhrif á heiminn og hefur verið notuð til að undirstrika hættuna af kjarnorkuvopnum og mikilvægi þess að berjast fyrir friði. Hún er einnig tákn fyrir allar þær fórnir sem barn hefur þurft að þola vegna stríðs og ofbeldis.
En hvað með börnin í dag? Þegar við minnumst Sadako, þá eigum við einnig að horfa á þau börn sem búa við raunverulegar hörmungar í nútímanum, núna árið 2025. Börn sem verða fyrir stríðsátökum, áföllum og ofbeldi á stöðum eins og Gaza, eða öðrum svæðum þar sem árásir og hamfarir eru daglegt brauð svo sem í Sómalíu og í Úkraínu. Börn sem þjást ekki bara á líkamlegan hátt, heldur einnig á andlegan og tilfinningalegan hátt, eins og Sadako, sem vissi hvað það var að berjast fyrir lífi sínu, en líka fyrir draumum um betri heim.
Börn sem búa við þessa hörmungar eins og í Gaza hafa ekki þann möguleika að búa til pappírströnur, eða vonast eftir friði. Þau líða stöðugt fyrir átök sem þau geta ekki stjórnað. Þau eru réttdræp af grimmu fólki þar sem ráðamenn Ísraels hafa gert Gaza að grafreit fyrir börn og þau þeirra sem lifa af eru fórnarlömb hungursneyðar sem er að raungerast þessa dagana. Börn deyja ekki aðeins – því mörg eru með hungur í maganum og gleymast á meðan þau lifa. Börnin eru með sár á líkama og sál og ótta í augunum. Það er óskiljanlegt hvað mannskepnan getur verið grimm.
Í minningu Sadako og allra þeirra sem hafa þjáðst, eru við minnt á ábyrgð okkar – að verja börn og tryggja að þau fái að lifa í friði. Sadako bjó til pappírströnur í þeirri von um að þær myndu fljúga í átt til friðar. Kertin sem við fleytum hér á vatninu á eftir eru líka pappírsfuglar, fljúgandi á vatninu. Þegar kertin fljóta fram hjá okkur á Andapollinum, verður hvert kerti tákn um eitt og eitt barn – ekki aðeins í Hiroshima, heldur í öllum heimshornum þar sem börn dreyma um betri heim. Kertin sem fljóta á Andapollinum eru friðartákn og börnin í Gaza sem búa við ótta, hungur og sprengjuregn eiga líka rétt á kertaljósi. Rétt á friði. Rétt á framtíð.
Ljósið sem við sendum frá okkur í kvöld fer ekki alla leið til Gaza. En kannski nær það hjörtum þeirra sem heyra. Kannski verður það kveikja um von.
Við biðjum ekki um óraunhæfa hluti, aðeins að börn fái að vera börn. Að þau fái að leika, læra, hlæja og lifa. Með hverju ljósi sem fleytir fram sendum við ósk um frið.
Friður byrjar með einu kertaljósi. Látum það lifa áfram í okkur.

-Hildur Magnúsdóttir