Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:
Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.