Monthly Archives

April 2007

Aðalfundi Friðarhúss lokið

By Uncategorized

427175377EUHtYW phAðalfundur Friðarhúss SHA ehf. var haldinn í dag, laugardag. 210 einstaklingar eiga nú hlut í Friðarhúsi, en heildarhlutafé er 5.840.000 kr. Er það dálaglegt ef haft er í huga að félagið var stofnað þrítugasta mars fyrir þremur árum, en hlutafjársöfnun hófst ekki af krafti fyrr en fyrir tveimur árum.

Góður andi var á fundinum og fékk stjórn félagsins lof fyrir eljusemi sína. Litlar breytingar urðu á stjórninni, en Freyr Rögnvaldsson vék úr stjórn fyrir Vésteini Valgarðssyni. Nýju stjórnina skipa því: Árni Hjartarson, Elvar Ástráðsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sigríður Gunnarsdóttir, Sigurður Flosason, Sverrir Jakobsson, Þórður Sveinsson (fulltrúi miðnefndar SHA) og Vésteinn Valgarðsson.

Friðarhús um helgina: aðalfundur og fyrirlestur

By Uncategorized

Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. verður haldinn laugardaginn 21. apríl n.k. kl. 14 í Friðarhúsi. Á dagskránni verða hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum félagsins:

* Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
* Efnahagsreikningur og rekstrarreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
* Rekstraráætlun lögð fram til umræðu og samþykktar.
* Stjórn félagsins kjörin ásamt endurskoðendum eða skoðunarmönnum.

Vegna laga um einkahlutafélög er afar mikilvægt að sem flestir mæti á fundinn. Þeir sem ekki eiga heimangengt eru hvattir til að veita umboð fyrir atkvæðum sínum. Það má t.d. gera með því að senda tölvupóst á netfangið sha@fridur.is

Sömuleiðis er rétt að vekja athygli á því að enn er hægt að bætast við hluthafahópinn fyrir aðalfund. Sjá nánar.

Fyrirlestur um alþjóðamál. Þýski hagfræðingurinn og rithöfundurinn F. William Engdahl, sem er á Íslandi á vegum bókabúðarinnar Slagsíðunnar, heldur fyrirlestur í Friðarhúsinu föstudaginn 20. apríl klukkan 19:00.

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í Friðarhúsinu er 1500 krónur, en innifalið í verðinu er grænmetismatur kokkaður af yfirmatreiðslumanni Kaffi Hljómalindar, Einar Rafni.

Maturinn hefst klukkan 19:00 og fyrirlestur Engdahls hefst stuttu seinna.

Sjá nánar.

Öld ófriðar: Bretland, Bandaríkin og hin nýja heimskipan

By Uncategorized

Century of War03 Fyrirlestur um alþjóðamál í ReykjavíkurAkademíunni og Friðarhúsinu

Þýski hagfræðingurinn og rithöfundurinn F. William Engdahl, sem er á Íslandi á vegum bókabúðarinnar Slagsíðunnar, heldur fyrirlestur í ReykjavíkurAkademíunni, JL-húsinu á Hringbraut 121, 4. hæð, fimmtudaginn 19. apríl n.k. kl. 20:00 og aftur í Friðarhúsinu 20. apríl klukkan 19:00.

Í fyrirlestrinum mun Engdahl fjalla um víðtæk áhrif olíuiðnaðarins og bankamanna á sögu 19. og 20 aldarinnar og taka fyrir eftirfarandi atburði:

– kjarnorkudeilu Írans og Bandaríkjanna
– fyrri og seinni heimstyrjöldina
– olíukreppurnar 1973 og 79
– valdaránið í Íran
– Víetnamstríðið
– valdatöku nasista í Þýskalandi
– kreppuna 1929
– Íraksstríðið

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í ReykjavíkurAkademíunni er 800 krónur.

Aðgangseyrir að fyrirlestrinum í Friðarhúsnu er 1500 krónur, en innifalið í verðinu er grænmetismatur kokkaður af yfirmatreiðslumanni Kaffi Hljómalindar, Einar Rafni.

Maturinn hefst klukkan 19:00 og fyrirlestur Engdahls hefst stuttu seinna.

Fyrirlesturinn er byggður er á metsölubókinni A Century of War: Anglo-American Politics and the New World Order (Pluto Press, 2004). Í bókinni rekur Engdahl víðtæk umsvif og áhrif alþjóðlegra olíufyrirtækja og þekktra fjármálamanna á sögu 19. og 20. aldar. A Century of War hefur nú þegar verið þýdd á þýsku, frönsku, rússnesku, slóvensku, kóresku og arabísku.

Engdahl hefur rannsakað og skrifað um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, landbúnað, GATT, WTO, orkumál, pólitík og efnahagsmál í meira en 30 ár. Skrif hans um þessi efni hafa mikið verið til umræðu og hafa greinar eftir hann birst í fjölda blaða og tímarita og á vel þekktum alþjóðlegum vefsíðum, t.a.m. Asia Times Online, Financial Sense, www.321gold.com, www.asiainc.com, www.globalresearch.ca, Nihon Keizai Shibun í Japan, Foresight Magazine, European Banker og Business Banker International.

Eftir að hafa lokið prófi í stjórnmálafræði frá Princeton og samanburðarhagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi vann Engdahl sem hagfræðingur og rannsóknarblaðamaður í New York og Evrópu. Hann skrifaði um stefnu Bandaríkjanna í orkumálum, GATT umræðurnar í Uruguay, matvælastefnu Evrópusambandsins, einokun í alþjóðlegri kornverslun, stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skuldir þriðja heimsins, áhættusjóði (hedge funds), efnahagskreppuna í Asíu o.fl., svo nokkur dæmi séu tekin.

Engdahl er reglulega fenginn til þess ræða um pólitík og efnahagsmál á ráðstefnum um heim allan. Auk skrifta rekur hann sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki í áhættustjórnun. Meðal viðskiptavina hans eru þekktir evrópskir bankar en einnig minni fjárfestar.

Safn af greinum eftir Engdahl er að finna á heimasíðu hans: www.engdahl.oilgeopolitics.net.

Nánari upplýsingar veitir Stefán Þorgrímsson í síma 847 5883.

Björgum ekki hernaðarhyggjunni

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Soffíu Sigurðardóttur birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 12. apríl.

landsbjorgJón Gunnarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, skrifar grein í Fréttablaðið 11. apríl undir fyrirsögninni: Björgunarsveitir sem varalið lögreglu. Í greininni. Jón undirritar sem framkvæmdastjóri Landsbjargar og mælir með þátttöku björgunarsveitarfólks og samtaka þeirra í þessum hugmyndum. Hann vísar í þörf á viðbrögðum við hernaðarvá og kvartar undan neikvæðum undir­tektum stjórnar­andstöðunnar og tortryggni í garð þessara varaliðshugmynda.

Tortryggni í garð orða Björns Bjarnasonar dómálaráðherra um varasveitir lögreglu, eru eðlilegar í ljósi þess að Björn hefur sýnt það um langt árabil að vera illa haldinn af hernaðarhyggju. Hann hefur lengi sýnt því áhuga að koma upp íslenskum her, aukið samstarf Landhelgisgæslunnar við hernaðarumsvif og lagt aukna áherslu á að lögregla sinni meintri hryðjuverkahættu og “öryggi ríkisins”. Björgunarsveitir eru nú þegar hluti af almannavarnakerfi landsins og búið er að setja lög og reglur um stöðu þeirra við leit og björgun á sjó og landi. Leit og björgun, ásamt slysavarnamálum, eru tilgangur og verkefni liðsmanna Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem eru alfarið ólaunaðir sjálfboðaliðar. Mikilvægt er að draga þetta hugsjónastarf ekki inn í pólitíska þráhyggju dómsmálaráðherra. Það er svo annað mál að bæta má menntun björgunarsveitamanna í verndunar- og gæslustörfum.

Hugmyndir um varalið lögreglu eru enn ómótaðar, a.m.k. opinberlega, en m.a. hefur komið fram að liðsmennirnir verði á einhverjum launum og að SL eða einingar þess fái greiðslu fyrir þátttöku í þessu. Ef teyma á varaliðsasnann klyfjaðan fjárpyngjum inn um dyr Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þá skelli ég hurðum.

Höfundur er félagi í Slysavarnafélaginu Landsbjörg og er ekki í framboði.

Á fjölunum

By Uncategorized

thjodleikhusFriðarvefurinn hefur verið beðinn um að vekja athygli á áhugaverðri leiksýningu í Þjóðleikhúsinu sem átt gæti erindi við friðarsinna. Um er að ræða sýninguna Hálsfesti Helenu, en í kynningu frá leikhúsinu segir:

Hálsfesti Helenu er einstaklega áhrifamikið verk, innblásið af dvöl höfundar í Líbanon árið 2000.

Aðalpersóna verksins er Helena, búsett í norðlægu landi, sem er á heimleið af ráðstefnu í borg í Austurlöndum nær, þar sem uppbygging er hafin eftir langvarandi stríðshörmungar. Hún týnir hálsfesti og fær leigubílstjóra til að aðstoða sig við að leita að henni. Í leitinni öðlast hún nýjan og persónulegan skilning á því hvað það er að glata og missa, á samskiptum ólíkra menningarheima, hins arabíska og vestræna og verður ljóst að “við getum ekki lifað svona lengur.”

Carole Fréchette er meðal þekktustu leikskálda samtímans í Kanada. Leikrit hennar hafa verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál og sýnd víðsvegar um heiminn og hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hálsfesti Helenu hefur verið sýnt víða um heim. Það var frumflutt í Sýrlandi vorið 2002,en hefur einnig verið sýnt í Kanada, í Frakklandi, Líbanon, Belgíu, Sviss, Senegal, Bandaríkjunum og Portúgal.

Edda Arnljótsdóttir leikur Helenu, en Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Arnar Jónsson fara með önnur hlutverk. Leikstjóri er María Sigurðardóttir, leikmynd og búninga gerir Helga I. Stefánsdóttir, lýsingu annast Lárus Björnsson og Ester Ásgeirsdóttir hannar hljóðmynd. Þýðinguna gerði Hrafnhildur Hagalín.

Bókabúð Slagsíðunnar

By Uncategorized

bushinbabylon Friðarvefurinn vill vekja athygli lesenda sinna á bókabúð Slagsíðunnar, sem var opnuð nýlega.

Í Bókabúð Slagsíðunnar eru bækur sem ekki er alltaf hægt að ganga að vísum í öðrum bókabúðum. Þar er meðal annars ágætt úrval bóka sem fjalla um alþjóðamál, stjórnmál og þjóðfélagsmál almennt á gagnrýninn hátt.

Bókabúð Slagsíðunnar er á Laugavegi 21, á móti Máli og menningu, í kjallaranum undir Kaffi Hljómalind þar sem Snarrót var áður til húsa. Búðin er opin alla daga nema sunnudaga kl. 15 – 18.