Monthly Archives

December 2006

Leikarinn Sean Penn hvetur til að forseti Bandaríkjanna verði ákærður ásamt ráðherrum sínum og ráðgjöfum

By Uncategorized

penn 0 Meðal þeirra tugmilljóna manna sem mótmæltu innrásinni í Írak í mars 2003 var bandaríski leikarinn Sean Penn. 18. desember sl. var honum veitt viðurkenning kennd við leikarann látna, Christopher Reeve. Í ávarpi sem hann flutti við þetta tækifæri gagnrýndi hann bandarísk stjórnvöld harðlega

Í ávarpi sínu vék Penn meðal annars að möguleikanum á ákæru, sem gæfi „kjörnum þingmönnum okkar vald til að láta fara fram rannsókn. Vald til að leggja sannleikann á borðið. Mæður og feður missa börn sína á hræðilegan hátt í þessu stríði á hverjum degi. Hryllilegur dauði. Hryllilegar limlestingar. Var framinn glæpur með því að láta land okkar styðja þá ákvörðun að fara í þetta stríð? … Ef sönnur verða færðar á að framin hafi verið „landráð, mútur eða önnur alvarleg afbrot og afglöp“, gerum þá það sem lagt er fyrir í annarri grein fjórða kafla stjórnarskár Bandaríkjanna og víkjum „forseta, varaforseta og … embættismönnum Bandaríkjanna“ úr embætti. Ef dómsmálaráðuneytinu sýnist svo við hæfi að stinga þeim inn með Jeff Skilling [forstjóra Enron], látum þá svo vera.“

Ávarp Sean Penn má nálgast í heild á þessari slóð:
www.afterdowningstreet.org/node/16505

Friðarganga á Þorláksmessu

By Uncategorized

kertiÍslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og sjöunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.

Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Lækjartorgi.
Þar mun Falasteen Abu Libdeh frá Palestínu halda stutt ávarp. Fundarstóri verður Arnar Jónsson leikari. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng.

Friðargöngur verða einnig á Akureyri og Ísafirði á Þorláksmessukvöld.

Enn fjölgar í hópi kjarnorkuvopnalausra sveitarfélaga

By Uncategorized

Fugl dagsinsSíðla árs 1999 hvöttu SHA íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Undirtektir voru almennt góðar og í árslok 2002 var þorri sveitarfélaga búinn að gera slíkar samþykktir.

Á dögunum barst Samtökum hernaðarandstæðinga staðfesting á að nýtt sveitarfélag hefði bæst í hópinn. Húnavatnshreppur varð til í ár með sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Áshrepps. Tveir fyrstnefndu hrepparnir höfðu samþykkt friðlýsingu en erindinu ýmist verið vísað frá eða ekki fengist afgreitt í hinum hreppunum þremur.

Eftir þessa samþykkt Húnvetninga eru einungis tíu íslensk sveitarfélög sem ekki hafa fallist á þetta sjálfsagða baráttumál og standa vonir til að þeim muni fækka enn á næstu vikum. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru:

Garðabær
Gerðahreppur
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hornafjörður
Reykjanesbær
Sandgerði
Skagabyggð
Skútustaðahreppur
& Vatnsleysustrandarhreppur

Tilkynnt verður jafnóðum um gang þessara mála hér á Friðarvefnum.

Bókmenntakynning MFÍK

By Uncategorized

MFIKHin árvissa bókmenntakynning Menningar- og friðarsamtakanna, MFÍK er ómissandi þáttur í jólaundirbúningi fjölmargra. Hún verður að venju haldin í húsnæði MÍR, Hverfisgötu 105 (á horni Snorrabrautar) laugardaginn 16. desember kl. 14.

Lesið verður úr verkum eftirtalinna höfunda:

* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Það kallast ögurstund úr bókinni Heil brú.
Myndir Guðrúnar Hannesdóttur hanga uppi í salnum.

* Ingunnar Snædal
Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást.

* Fríðu Á Sigurðardóttir
Í húsi Júlíu – Guðrún Sigfúsdóttir les.

* Einars Más Guðmundssonar
Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.

* Guðrúnar Helgadóttur
Öðruvísi saga.

* Kristínar Steinsdóttur
Á eigin vegum.

* Kristínar Ómarsdóttur
Jólaljóð.

*Rósu Þorsteinsdóttur
Einu sinni átti ég gott : upptökur úr Árnastofnun.

* Hildar Finnsdóttur
Að opna dyr : æviminningar Guðrúnar J. Halldórsdóttur.

* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Fjögur ljóð.

* Tónlist: Magga Stína og Kristinn H. Árnason, gítaleikari flytja lög af diskinum Magga Stína syngur Megas.

Aðventustemning. – Kaffisala.
Húsið opnar kl. 13:30 – Allir velkomnir.

Mótmæli gegn endurnýjun kjarnorkuvopna í Bretlandi

By Uncategorized

trident Í gærmorgun, 11. desember, kom hópur fólks að tveimur hliðum flotastöðvarinnar í Faslane í Skotlandi og lagðist þar á götuna til að stöðva umferð. 21 voru handteknir. Síðan aðgerðaætlunin Faslane 365 hófst 1. október sl. hafa 350 manns verið handteknir við mótmælaaðgerðir við flotastöðina.

Í Bretlandi hafa að undanförnu verið tíðar mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum, einkum vegna áætlana um endurnýjun kjarnorkuvopnabirgða Breta. Í flotastöðinni í Faslane í Skotlandi eru kjarnorkuvopn staðsett og 1. október sl. var sett af stað aðgerðaáætlun til eins árs, til 30. september 2007, Faslane 365. Víðar í Evrópu hafa að undanförnu verið mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuvopnaáætlunum NATO, m.a í Belgíu.

Sjá nánar:
www.faslane365.org
www.blockthebuilders.org.uk
www.tridentploughshares.org/index.php3
www.banthebomb.org/index.php
www.globalsecurity.org/wmd/world/uk/clyde.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/HMNB_Clyde
www.vredesactie.be/campaign.php?id=12

Mynd: faslane365.org

NATO-fundurinn í Ríga: aukin hernaðarþátttaka Íslands

By Uncategorized

natodrepur Á nýafstöðnum leiðtogafundi NATO í Ríga voru þrjú mál efst á baugi: stækkun bandalagsins, hin hernaðarlega umbreyting með áherslu á hið svokallaða hraðlið og loks stríðsrekstur bandalagsins í Afganistan, sem á máli bandalagsins kallast friðargæsla.

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 29. nóvember var haft eftir sérfæðingi að Afganistan væri prófsteinn á bandalagið og aðstoðarutanríkisráherra Bandaríkjanna sagði Afganistan vera „málefni númer eitt“ í huga Bandaríkjamanna.

Staða Bandaríkjanna og NATO í Afganistan er afleit. Þeir hafa mjög takmarkaða stjórn á ástandinu og í sumum héruðum landsins ríkir stríðsástand. Bandaríkjastjórn og ráðamenn NATO, þ.e. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagins, og hernaðarlegir yfirmenn, eru mjög óánægðir með frammistöðu margra aðildarríkja sem sent hafa hermenn til Afganistan. Bandaríkjamenn, Bretar, Kanadamenn og Hollendingar hafa borið hitann og þungann af átökunum. Sum önnur ríki hafa sett ýmis skilyrði um hvernig og hvar megi beita herliðum þeirra og hafa alls ekki verið tilbúin til að taka fullan þátt í stríðsátökum. Það er eins og þau hafi reiknað með að eingöngu væri um friðargæslu að ræða en ekki bein stríðsátök eins og raunin er. George Bush minnti á fimmtu grein Atlantshafssamningsins þar sem segir að árás á einn aðila sé árás á alla. Sú grundvallarregla ætti við hvort sem árásin væri gerð á heimalönd eða á NATO-herlið í hernaðarátökum erlendis. Þá hafa aðildarríkin ekki heldur fengist til að senda þann herafla sem talinn er nauðsynlegur, enn vantar um fimmtung upp á að svo sé. Á fundinum var líka lögð áhersla á að aðildarríkin ykju hernðarútgjöld sín, en stefnan er að þau verði að lágmarki 2% af landsframleiðslu.

Ísland hefur þessa neyðarlegu sérstöðu í hernðarbandalaginu að hafa engan her. Þess vegna er það gjarnan undanskilið þegar verið er að skamma NATO-ríkin fyrir vera ekki nógu vígreif í Afganistan. Íslensku ríkisstjórninni er þó mikið í mun að vera með og Geir Haarde lýsti því yfir á fundinum að Íslendingar mundu ekki láta sitt eftir liggja í Afganistan og leggja meira fé til endurreisnar- og þróunarverkefna í Afganistan og styðja við bakið á aðildarríkjunum, sem standa í eldlínunni í sunnanverðu Afganistan þar sem átökin við talíbana eru hörðust. Meðal annars er hugsanlegt að Íslendingar taki að sér einhverja flutninga flugleiðis til Afganistan. Vegna herleysis geta Íslendingar ekki tekið þátt í hinni hernaðarlegu uppbyggingu bandalagins og hinu nýja hraðliði, en „á meðan uppi er krafa í bandalaginu að þjóðirnar auki við almenn útgjöld sín til hernaðarmála höfum við aukið okkar framlög til friðargæslu og hjálparstarfsemi í stríðshrjáðum löndum,“ hefur Morgunblaðið eftir Geir Haarde.

Íslendingar hafa legið undir ámæli fyrir lélega þátttöku í þróunaraðstoð. Nú er hins vegar sjálfsagt mál að leggja fé í svokallaða friðargæslu á vegum NATO, sem að meginhluta felst í verkefnum varðandi hersetu NATO í löndum sem Bandaríkin hafa ráðist inn í, hernumið og skipað leppstjórn.

Nógu slæm var utanríkisstefna Íslands meðan Bandaríkin höfðu hér herstöð. Sá var þó munurinn að þá var Ísland að öðru leyti tiltölulega óvirkur aðili að NATO. Þetta fór raunar að breytast fyrir um tveimur áratugum, m.a. með því að Íslendingar fóru að taka þátt í störfum hermálanefndar NATO. En nú, þegar NATO er að verða æ virkara og árásargjarnara henrðarbandalag, stendur hugur íslenskra ráðamanna til að Ísland verði sem mest með, leggi meira fé í starfsemi þess og taki þátt í hernaði bandalagsins, þó svo að í bili eigi að mýkja eitthvað upp ásjónu „friðargæslunnar“. En við hernað þarf fleira en hermenn sem taka þátt í bardögum, það þarf ýmiskonar þjónustu í kringum þá, og þar ætla íslensk stjórnvöld að veita sitt liðsinni.

Með fundinum í Ríga var staðfest enn frekari þróun NATO til útþenslu og árásarstefnu og jafnframt staðfest frekari þátttaka Íslands í þeirri þróun. Hér er um grafalvarlega þróun að ræða og mikilvægt að fylgjast grannt með henni og andæfa henni.

Einar Ólafsson