Monthly Archives

August 2006

https://fridur.is/libanon/

By Uncategorized

libanon Við höfum tekið saman lista yfir efni tengt átökunum í Líbanon sem hefur birst á Friðarvefum. Hægt er að nálgast það undir efnisliðnum Líbanon hér til hliðar. Þar eru einnig tilvísanir á ýmislegar upplýsingar um málið, myndir, undirskriftasafnanir og vefsíður, þ.á.m. vefsíður frá Líbanon. Ábendingar eru vel þegnar (ritstjorn@fridur.is / einarol@centrum.is).

*****

Það hefur vakið nokkra athygli að breski þingmaðurinn, George Galloway, hefur lýst yfir stuðningi við Líbanon og komið Hisballah til varnar. Hann ver afstöðu sína í sjónvapsviðtali hér.

*****

Norski rithöfundurinn Jostein Gaarder hefur valdið miklum titringi í Noregi og jafnvel víðar með afdráttarlausum yfirlýsingum sínum í grein í strærsta blaði Noregs, Aftenposten. Greinina ásamt viðbrögðum við henni má nálgast hér.

Mynd: http://fromisrael2lebanon.info/pa/displayimage.php?album=7&pos=1

Minnumst kjarnorkuárásanna á Hirósíma og Nagasakí

By Uncategorized

Ræða Ragnars Stefánssonar við kertafleytingu á Akureyri, 9. ágúst, 2006

7709Kertafleyting2 Þessi grimmdarlega árás endurspeglaði fyrirlitningu bandarískra ráðamanna á mannlegu lífi. Við gætum líka bætt við fyrirlitningu á lífi fólks af öðrum kynstofni eða bara á venjulegum manneskjum sem ekkert eiga nema vonina um að lifa.

En árásinni var ætlað að sýna hernaðaryfirburði Bandaríkjanna. Það var allt í lagi að drepa fólk í Hírósíma og Nagasakí ef það skyldi duga til að til að sýna fram á þessa yfirburði.

Um allan heim hefur fólks minnst þessara ægiatburða og við minnumst þeirra með kertafleytingum í dag til að heiðra minningu þess fólks sem þarna var limlest og drepið. En við gerum það um leið til að minna valdamenn heimsins á að svona má aldrei gerast aftur. En er þetta nóg?

Nei.

Kjarnorkuvígbúnaðurinn heldur áfram undir forystu Bandaríkjanna. Þessi vígbúnaður er liður í að tryggja hernaðaryfirburði þeirra í heiminum. Hann hefur um leið þann tilgang að efla og tryggja yfirráð þeirra yfir olíuauðlindum heimsins. Kjarnorkuvígbúnaðurinn þjónar líka vopnaframleiðendum og þeim ríkjum sem eru undirgefin Bandaríkjunum.

Bandaríkin og hernaðarbandalög þeirra, eins og t.d. NATO, vinna að því leynt og ljóst að tryggja hernaðarlega yfirburði sína í heiminum, með uppbyggingu gagnflaugakerfa, t.d. núna síðast í Póllandi og Tékkóslóvakíu, með dreifingu kjarnorkuvopna, í sinni eigu, inn í svokölluð kjarnorkuvopnalaus lönd, til notkunar ef þörf krefur eins og það er kallað.

Hin yfirlýsta ástæða allrar þessarar uppbyggingar er hætta frá Mið-Austurlöndum.

Hin raunverulega ástæða uppbyggingarinnar er að Bandaríkin vilja styrkja stöðu sína í Mið-Austurlöndum. Í þeirri viðleitni Bandaríkjanna skipar Ísraelsríki mikilvægan sess.

Þegar Ísraelsher hóf gegndarlausar loftárásir á Suður-Líbanon hafði það ekkert með það að gera að Hisobollaliðar höfðu tekið tvo ísraelska hermenn til fanga. Árásin hafði verið undirbúin lengi. Með aðstoð öflugs upplýsingakerfis, reyndu Ísraelsmenn að nýta sér handtöku hermannanna tveggja til að afsaka árásir sína.

Margir sérfræðingar um Mið-Austurlönd segja að Líbanon sé ekkert lokatakmark. Aðalmarkmiðið er að draga Íran og Sýrland inn í átökin, til að hafa afsökun til að gera massívar árásir á þessi lönd líka, beygja þau undir sinn verndarvæng, undir sinn vígbúnaðarhjálm. Í hvert sinn sem upplýsingakerfi árásaraðilans hamrar á því að vopn Hispollah komi frá Íran er það sennilega undirbúningur árása á Íran.

Verður kjarnorkuvopnum beitt aftur gegn manneskjum?

Bandaríkin eru eina ríki heims sem hefur beitt kjarnorkuvopnum gegn fólki. Í Víetnamstríðinu, þegar Bandaríkin sáu fram á að þau gætu ekki sigrað með hefðbundnum vopnum, voru sterk öfl þar sem prédikuðu að nota skyldi kjarnorkuvopn til að draga tennurnar úr Víetnömum. Líklega má þakka það öflugri andstöðu almennings í Bandaríkjunum og um allan heim að þetta var ekki gert.

Þetta herskáa ríki, Bandaríkin, er nú eina kjarnorkuveldið sem hefur kjarnorkuvopn í öðrum löndum. Hin yfirlýsta ætlun er að beita 480 kjarnorkusprengjum, sem eru staðsettar í Evrópu, gegn skotmörkum í Rússlandi eða Mið-Austurlöndum. Þetta er í samræmi við kjarnorkuáætlanir NATO.

Á svokölluðum stríðstímum yrðu allt að 180 af þessum 480 sprengjum afhentar svokölluðum kjarnorkuvopnalausum löndum eins og Ítalíu, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Tyrklandi til notkunar fyrir flugheri þessara landa, og þessir herir eru allir að æfa sig í að beita slíkum vopum ef þörf krefur. Og hver skyldi meta það hvort þörfin sé fyrir hendi, nema Bandaríkin sjálf. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta en þessi dæmi sýna að undirbúningur þess að beita kjarnorkuvopnum gegn fólki að nýju er í fullum gangi.

En þessi dæmi sýna líka það kverkatak sem Bandaríkin hafa á þessum löndum og öðrum löndum sem fylgja þeim að málum.

Maður spyr sig hvort lydduskapur og afskiptaleysi voldugra Evrópuríkja vegna innrásarinnar í Líbanon og innrásarinnar í Palestínu á síðustu mánuðum skapist af þessu kverkataki Bandaríkjanna. Eða kannski finnst mönnum bara að það sé öruggara að vera við hliðina á ógnvaldinum en að hafa hann á móti sér.

Í þessari friðaraðgerð okkar, þessari friðarkröfu okkar, skulum við minnast fórnarlamba loftárásanna og innrásarinnar í Líbanon og ógnarárásanna í Palestínu undanfarið, ekki síður en fórnarlambanna í Hírósíma og Nagasakí.

Í einu af mörgum stríðum gegn palestísnku þjóðinni orti Akureyrarskáldið Kristján frá Djúpalæk kvæðið Slysaskot í Palestínu. Stúlka í Svarfaðardal, Ösp Kristjánsdóttir, ryfjaði þetta kvæði upp á blogsíðu sinni í dag, í tilefni dagsins, og með þessum orðum: Þetta ljóð virðist alltaf eiga við… djöfull búum við í viðbjóðslega sjúkum heimi:

    Lítil stúlka. Lítil stúlka.
    Lítil svarteygð, dökkhærð stúlka
    liggur skotin.
    Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
    Höfuðkúpan brotin.

    Ég er Breti, dagsins djarfi
    Dáti, suður í Palestínu,
    en er kvöldar klökkur, einn,
    kútur lítill, mömmusveinn.

    Mín synd var stór. Ó, systir mín.
    Svarið get ég, feilskot var það.
    Eins og hnífur hjartað skar það,
    hjartað mitt, ó, systir mín
    fyrirgefðu, fyrirgefðu,
    anginn litli, anginn minn.

    Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Kertafleyting Akureyri 090806 Um leið og við hugleiðum þessi ógnarverk og minnumst þeirra sem verða fyrir þeim, skulum við hugleiða hvað er til ráða til að stöðva þessa framrás þeirra sem berjast fyrir heimsyfirráðum, framrás þeirra sem valda þessari ógn.

Það var ekki síst hörð barátta andstæðinga Bandaríkjanna í Bandaríkjunum sjálfum sem stöðvaði Víetnamstríðið, barátta andstæðinga Bandaríkjanna í bandalagslöndum þeirra, eins og t.d. á Íslandi, sem stöðvaði Víetnamstríðið. Bandarísk stjónvöld óttuðust eigin kjósendur, og þau óttuðust að áframhaldandi stríð mundi einangra þau alþjóðlega.

Þetta þarf að gerast nú ekki síður en þá, og slík barátta þarf að fara af stað fyrr en síðar. Hún er þegar farin af stað víða um heim. Þetta er barátta grasrótarinnar, sem þrýstir stjórnvöldum á undan sér til andstöðu við stríðið.

Þessi barátta þarf að tengjast upplýsingu um eðli heimsmálanna um þessar mundir. Upplýsingu sem nær í gegnum það áróðursflóð sem stríðsherrar heimsins beina að fólki til að reyna að rugla það í ríminu.

Við hér á Íslandi getum haft mikla þýðingu fyrir heiminn í baráttunni gegn stríði. Við eigum að hefja á loft, með endurnýjuðum krafti, kröfuna um herinn burt og úrsögn úr NATO. Menn segja kannski að herinn sé að fara hvort sem er. En hernaðarsamstarf Íslands og Bandaríkanna er enn við lýði meðan við erum í NATO og meðan við segjum svokölluðum varnarsamningi ekki upp. Bandaríkin vilja losa héðan hermenn og flugvélar af því það er meiri þörf fyrir hvort tveggja annars staðar.

Við þurfum að hefja á loft kröfuna um uppsögn herverndarsamningsins við Bandaríkin og úrsögn úr NATO af því við viljum ekki berjast með þeim í liði sem fara með sprengjum og morðum um Líbanon og Palestínu. Við viljum ekki vera í þeirra liði sem framkvæma slíkan verknað. Við viljum sýna Bandaríkjunum og Ísrael fram á að þeir muni einangrast sem nátttröll stríðsins í augum allra manna ef þeir halda svona áfram

Íslendingar eiga mikinn og sterkan arf í kröfunni um brottför hersins og úrsögn úr NATO, af því við erum friðelskandi fólk. Líklega hefur oft meiri hluti þjóðarinnar stutt slíkar kröfur. Og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur á undanförnum árum lýst andstöðu sinni við einstakar árásir Bandaríkjanna og NATO.

Sterk krafa frá Íslandi, jafnvel frá íslenskum stjórnvöldum, um að við segjum okkur úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin mun heyrast um allan heim og vekja fleiri til slíkrar baráttu og styrkja og efla baráttu friðarsinna um allan heim.

Svo við notum orðið myrkraverkaher úr kvæði Böðvars Guðmundssonar skulum við hefja á loft kröfuna:

Myrkraverkaherinn
burt úr Palestínu,
burt úr Líbanon,
burt úr Írak.
Aldrei aftur Hirósíma!
Ísland úr NATO, herinn burt!

Myndir: Jón Baldvin Hannesson

Lítið samráð við verkalýðshreyfinguna vegna brottfarar hersins – framtíð 360 starfsmanna enn óráðin

By Uncategorized

Skv. frétt í Ríkisútvarpinu í dag hefur formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis gagnrýnt stjórnvöld fyrir lítið samráð við verkalýðshreyfinginuna. Í Víkurfréttum kemur fram að 360 starfmenn herliðsins hafa enn ekki fengið annað starf.

RÚV, 10. ágúst 2006:

    Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, gagnrýnir að lítið samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna og starfsmenn varnarliðsins um stöðu mála vegna brottfarar Bandaríkjahers. Viktor Borgar Kjartansson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaga í Reykjanesbæ, segir komin tíma til að blása lífi í samráðsnefnd stjórnvalda og bæjarfélaga á Suðurnesjum.

    Fátt fréttist efnislega af gangi viðræðna stjórnvalda við Bandaríkjamenn um viðskilnað Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Ekkert er vitað hvað verður um mannvirki; hvort einhver viðbúnaður verður þar áfram o.s.frv. Um 500 Íslendingar eru að störfum fyrir varnarliðið. Helga Jóhanna Oddsdóttir, forstöðumaður ráðgjafastofu starfsmanna á varnarsvæði, segir að um 360 þeirra hafi ekki enn fundið sér vinnu. Seinasti starfsdagurinn á vellinum er 30. september; eftir rétt rúman einn og hálfan mánuð.

    Kristján Gunnarsson og Viktor Borgar Kjartansson hafa áhyggjur af þessu og hvetja fólk til að bretta upp ermar og finna sér vinnu. Kristján gagnrýnir líka að fólk fái ekkert að vita um gang mála í viðræðum við Bandaríkjamenn.

Víkurfréttir, 10. ágúst 2006:

    Um 360 íslenskir starfsmenn Varnarliðsins eru ekki enn búnir að finna annað starf en uppsagnarfrestur þeirra flestra er til 30. september, þegar öll starfsemi VL leggst af. Af þessum fjölda búa um 240 á Suðurnesjum og 120 á höfuðborgarsvæðinu.

    Að sögn Kristjáns Gunnarssonar, formanns VSFK, er öll starfsemi á Vellinum í lágmarki og því lítið um verkefni fyrir þá starfsmenn sem enn eru þar við störf. Fólk sé bara að bíða þess sem verða vill í haust og klára sinn uppsagnarfrest.
    Þeir starfsmenn sem starfað hafa við flugvallarreksturinn halda sínum störfum undir merkjum Flugmálastjórnar sem tekur við rekstrinum í haust. Sá starfsmannafjöldi telur vel á annað hundraðið af þeim 500 sem enn eru við störf hjá VL.

Velheppnaðar kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

By Uncategorized

Kertafleytingar fóru fram í gærkvöldi, 9. ágúst, í Reykjavík og á Akureyri í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjanna í Hírósíma og Nagasakí fyrir 61 ári og í minningu annar fórnarlamba styrjalda fyrr og síðar. Á báðum stöðum var hið besta veður og mæting góð. Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur flutti ávarp á Akureyri og einnig flutti Guðmundur Ármann Sigurjónsson myndlistarmaður stutt ávarp. Í Reykjavík var Freyr Eyjólfsson fundarstjóri en Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur flutti ávarp.

Ávarp Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur við kertafleytingu í Reykjavík:

Við erum hér samankomin til þess að minnast fórnarlamba Hiroshima og Nagasaki. Allra þeirra hundruða þúsunda sem misstu lífið, vini og ættingja og grundvöll tilveru sinnar vegna þess að ráðamenn í Washington töldu það snjalla hugmynd að varpa kjarnorkusprengju.

Nú 61 ári síðar eru slíkar hugmyndir því miður ekki á undanhaldi. Stríðsmenning lifir góðu lífi. Hún endurspeglast meðal annars í linnulausum árásum Ísraelshers á Líbanon, í réttlætingum Ísraelsmanna, í dyggum stuðningi og skilningi ráðamanna í Washington og í meðvirkni alþjóðasamfélagsins sem virðir rétt Ísraelsmanna til sjálfvarnar út yfir öll skynsemismörk.

Stríðsmenning felur í sér að leiðin til sigurs sé að ráðast á óvininn með ofsa og helst honum að óvörum. Óvininn þarf að knésetja og samningsumleitanir eru veikleikamerki. Nýjustu fórnarlömb slíkra hugmynda eru þeir 1000 Líbanir sem látið hafa lífið undanfarinn mánuð og við minnust nú einnig hér í dag.

Það er mikill heiður að fá að ávarpa friðarsinna hér í kvöld. Friðarmenning er andstæða stríðsmenningar. Friðarmenning felur í sér að ráðast þurfi að rótum vandans, sem oft er falinn í óréttlæti, fátækt, efnahagslegu misrétti, og félagslegum aðstæðum. Til að hægt sé að semja um varanlegan frið þarf að þekkja aðstæður, aðdraganda og finna lausn sem kemur í veg fyrir kúgun eða yfirráð einnar manneskju yfir annarri.

Friðarsinnar hafa löngum verið kallaðir draumóramenn. Þeir eru sagðir óraunsæir, því þeir séu með hugann við annan heim en þann sem við lifum í. Þeir sem aftur á móti vilja bregðast við ógn með hörku og árásum eru taldir skynsamir raunsæismenn.

Ein sú spurning sem brennur nú á friðarsinnum, er: Af hverju er litið á fjöldamorðin í Líbanon sem fórnarkostnað fyrir öryggi Ísraela? Hver er skynsemin í því?

Ég held að ástæðuna sé m.a. að finna í djúpstæðri hugmyndafræði sem styrktist til muna eftir árás öfgatrúamanna á skotmörk í Bandaríkjunum 11. september 2001. Á þeim tíma urðu arabar og múslímar að hinum, hinir eru það sem VIÐ, Vesturlandabúar, erum ekki. VIÐ erum friðsamt, skynsamt og framsækið fólk. Hinir eru ofbeldisfullir, óskynsamir og afturhaldssamir. VIÐ (Vesturlandabúar) erum friðelskandi á meðan Hinir (arabar og múslimar) eru hryðjuverkamenn. Á þessu byggir Stríðið gegn hryðjuverkum (eða The War on Terror).

Skoðum árásirnar á Líbanon í samhengi við stríðsmenningu annars vegar og friðarmenningu hins vegar. Árásirnar VIRÐAST skynsamlegri í samhengi við Stríðið gegn hryðjuverkum.

Við – en Ísraelar flokkast með okkur – viljum, og höfum fullan rétt til að ráða niðurlögum hryðjuverkasamtakanna Hisballah.

Fyrir fimm árum hröktu Hisballah Ísraela frá Suður Líbanon og þvinguðu þá til að taka þátt í friðarviðræðum, eftir átján ára samfellda hersetu. Margir Ísraelar litu svo á að með því að setjast að viðræðuborði hafi þeir sýnt veikleikamerki sem hafi orðið til þess að auka hróður Hisballah undanfarin ár.

Þegar Hisballah fóru yfir landamærin og rændu tveimur ísraelskum hermönnum sem þeir ætluðu að nota sem skiptimynt í fangaskipti var nóg komið. Nú var ákveðið að sýna engin veikleikamerki!

Refsa skyldi Hisballah fyrir bíræfnina og Líbönum almennt fyrir að vera ekki búnir að afvopna Hisballah. Í leiðinni var tilvalið að senda skýr skilaboð um mátt og viljastyrk Ísraelsríkis til Íran, erkifjendanna í vestri, til Hamas óvinanna heima fyrir og Sýrlendinga, sem aldrei hafa viljað skrifa undir friðarsamninga.

Líbanir hlytu að skilja nauðsyn þess að sprengja upp flugvöllinn, opinberar byggingar, rafmagnsveitur, vatnsveitur, bensínstöðvar, vegi, brýr og íbúðarblokkir. Og mikilvægi þess að varpa sprengjum á gjörvallt Líbanon; svæði Sunni múslíma, Drúza og svæði kristinna sem hafa ekkert með Hisballah að gera. Jú! líkur eru á því að einhverjir Hisballaliðar eða stuðningsmenn leynist á meðal þeirra.

Þegar heiminum ofbýður atgangurinn er gott að bregða fyrir sig kunnuglegum stefjum Stríðsins gegn hryðjuverkum: Hisballah eru „málaliðar öxulveldis hins illa“. „Stund Sannleikans er runnin upp.“ Ísraelar hafa „réttinn til að verjast hryðjuverkaógninni og berjast fyrir öryggi sínu.“ Og málið er afgreitt!

Ef við skoðum sömu atburði út frá friðarmenningu lítur málið öðruvísi út.

Hisballah samtökin voru einmitt stofnuð vegna hernáms Ísraela í Suður Líbanon 1982.

Shía múslímar vildu reka Ísraela á brott. Þeir voru einnig ósáttir við lítil ítök í stjórnkerfi landsins en franska nýlendustjórnin hafði falið kristnum mönnum stjórn landsins fyrr á öldinni. Hisballah samtökin voru semsagt stofnuð af reiðu og niðurlægðu fólki.

Ekki líta allir Líbanir á Hisballah-liða sem hryðjuverkamenn. Margir, sem eru ósammála hugmyndafræði samtakanna og aðferðum, líta samt á þá sem hetjur fyrir að standa uppí hárinu á Ísraelum fyrir 6 árum síðan. En þó eru þeir kannski flestir sem hingað til hafa litið á þá sem stríðsglaða eiginhagsmunaseggi sem eru til stöðugra vandræða.

Nú er þó þannig komið að fáir stjórnmálamenn í Líbanon – hvort sem þeir tilheyra Sunni múslímum, Druzum eða kristnum – fást til að fordæma Hisballah opinberlega. Þeir eru nú álitnir frelsisher sem reynir að verja landið gegn árásum 5. stærsta her heims og þeim tæknivæddasta.

Fólk er nefnilega ekki mikið fyrir að láta ráðast á sig á hvaða forsendum sem það kann að vera. Sérstaklega þegar alþjóðasamfélagið leggur blessun sína yfir það.

Einu skilaboðin sem Líbanir hafa fengið síðustu vikurnar er að öllum sé sama þó þeir deyi. Þeir ógni jú friði í heiminum. Það er búið að reita heila þjóð til reiði. Það er búið að reita flesta araba og múslíma um allan heim til reiði. Og særa réttlætiskennd svo margra, margra fleiri.

Þeir sem aðhyllast stríðsmenningu gleyma nefnilega alltaf að stríð er ekki skák. Þó Ísraelardrepi hvern einasta Hisballah liða í Líbanon, hafa þeir ekki unnið taflið. Það hefur ekki verið ráðist að rótum vandans.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það hinir stríðsglöðu sem eru draumóramennirnir og friðarsinnarnir skynsemis- og raunsæismennirnir.

Breskur almenningur andvígur endurnýjun kjarnorkuvopna

By Uncategorized

NoTrident Kertafleyting í Reykjavík og Akureyri í kvöld, 9. ágúst, kl. 22:30 – sjá hér að neðan

Skv. nýlegri skoðanakönnun eru 59% Breta andvígir endurnýjun kjanorkuvopna í Bretlandi. Áætlun stjórnarinnar er að koma upp nýjum kjarnorkuvopnum í stað Trident-flauga sem munu úreldast á árunum 2025-2030. Samtökin Campaign for Nuclear Disarmament (CND) afhentu ríkisstjórninni þann 4. ágúst áskorun um að láta af þessum áformum. Samtökin halda áfram baráttu gegn þessum áformum og eru aðskipuleggja mótmælaaðgerðir 23. september.

Sjá:
Campaign for Nuclear Disarmament
Indymedia UK

Á Indymedia-vefnum er greint frá aðgerðum víðsvegar um heim 6.-9. ágúst vegna kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Eins og greint hefur verið frá hér á Friðarvefnum beinast mótmæli í Bandaríkjunum gegn stríðsgróðafyrirtækinu Bechtel.

Langt er síðan hefur verið jafmikil ástæða til að fylkja liði gegn kjarnorkuvopnum. Ráðstefnan um NPT-sáttmálann í New York í fyrra skilaði engum árangri, meðan strórveldin reyna að stöðva kjarnorkuáætlanir Írana eru þau sjálf að styrkja sín kjarnorkuvopnabúr og brjóta NPT-sáttmálann, kjarnorkuvopn eru liður í styrjaldaráætlunum Bush-stjórnarinnar, spenna fer vaxandi í Miðausturlöndum þar sem Ísraelar hafa kjarnorkuvopn með samþykki Bandaríkjanna.

Um baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, sjá
https://fridur.is/kjarnorku/

Kertafleyting á Reykjavík og Akureyri 9. ágúst

By Uncategorized

kertafleytingisl

verður haldin
við Tjörnina í Reykjavík og
á Akureyri við tjörnina framan við Minjasafnið í Aðalstræti
miðvikudaginn 9. ágúst kl. 22:30

Kerti verða seld á staðnum og kosta 400 kr

kertafleyting06 en
will be held
in Reykjavik by the lake (Tjörnin) and
in Akureyri at the pool in front of Akureyri Museum in Aðalstræti
on Wednesday August 9th at 22:30

Candles will be available at the gathering for a small fe, ISK 400

Á Akureyri mun Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur flytja ávarp og í Reykjavík Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannnfræðingur, en hún bjó um árabil í Miðausturlöndum.

„Við teljum mikilvægt að tengja þetta við samtímann og því mun Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur vera aðalræðumaður kvöldsins en hún mun meðal annars ræða ástandið í Líbanon. Þess er til dæmis vert að minnast að vitað er að Ísraelsmenn ráða yfir kjarnorkuvopnum,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, talsmaður Samstarfshóps friðarhreyfinga í viðtali við Fréttablaðið 9. ágúst. Fundarstjóri í Reykjavík verður Freyr Eyjólfsson.

Forkastanlegt framferði lögreglu gagnvart mótmælendum og ferðamönnum

By Uncategorized

IMG 0882 Friðarvefurinn tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum á Kárahnjúkasvæðinu, svo sem í ályktun Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem nálgast má á heimasíðu samtakanna.

Rétturinn til mótmælaaðgerða er mikilvægur hluti tjáningarfrelsis og fáir vita það betur en herstöðvaandstæðingar og friðarsinnar hversu dýrmætur sá réttur er. Eðlilegt er að lögreglan bregðist við ef mótmælaaðgerðir ógna friði og öryggi eða valda tjóni, en svo er að sjá að í þessu tilviki, eins og reyndar líka í fyrrasumar, hafi lögreglan farið úr yfir öll mörk. Þannig hefur ritstjóri Friðarvefsins hitt ungt fólk sem ætlaði sér til gamans inn að Kárahnjúkum á laugardaginn en var stöðvað af lögreglumanni sem yfirheyrði þau um hvert þau væru að fara, hvort þau væru á vegum einhvers o.s.frv., og meinaði þeim síðan að fara áfram þennan veg. Þarna var ekki um neitt afmarkað svæði að ræða, engin girðing eða hlið, þetta var bara á veginum, vegi sem ekki var á neinn hátt auðkenndur sem einkavegur eða vegur bannaður umferð. Engin haldbær skýring var gefin. Það er orðið undarlegt lýðræðisríki ef almenningur getur ekki ekið um vegi landsins án þess að gefa lögreglunni upplýsingar um tilgang fararinnar. Slíkt ríki kallast lögregluríki. Og slíku ber að mótmæla.

Mynd: www.savingiceland.org

Náttúruverndarsamtök á Norðurlöndum: Varnarsvæði skulu hreinsuð á kostnað mengunarvalds

By Uncategorized

Landvernd Fundur Landverndar og sex norrænna náttúruverndarsamtaka sem haldin var í Færeyjum dagana 31. júlí – 3. ágúst 2006 sendi ríkisstjórn Íslands eftirfarandi orðsendingu vegna brottfarar bandaríkjahers frá Íslandi:

Þar sem bandaríkjaher er nú á förum frá Íslandi þarf að tryggja hagsmuni Íslendinga er varða umhverfisgæði. Náttúruverndarsamtök á Norðurlöndum beina því til ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að nauðsynlegar rannsóknir fari fram og að menguð svæði verði hreinsuð með fullnægjandi hætti á kostnað mengunarvalds í samræmi við mengunarbótaregluna.

Herinn hefur haft umsvif víðsvegar á Íslandi í hart nær sextíu ár. Víða um heim þar sem herstöðvar hafa verið starfræktar hefur slík starfsemi valdið umtalsverðri mengun í jarðvegi og grunnvatni. Ísland er engin undantekning í þeim efnum þar sem fundist hefur mengun sem rakin hefur verið til starfsemi bandaríkjahers á nokkrum svæðum á landinu.

www.landvernd.is

Undirskriftasafnanir vegna stríðsins í Miðausturlöndum

By Uncategorized

Um allan heim leita menn leiða til að stöðva blóðbaðið í Líbanon og Palestínu. Því miður hafa ýmsir af áhrifamestu mönnum heims takmarkaðan áhuga. Mótmælaaðgerðir eru daglega víða um heim og margir hafa hafið undirskriftasafnanir til að reyna að hafa áhrif á ráðamenn.

Save Lebanon Við höfum áður vakið athygli á þessari undirskriftasöfnun:
http://epetitions.net/julywar/index.php
sjá nánar hér: https://fridur.is/safn/384
Við minnum áfram á hana.

Stop the Bloodshed Við viljum einnig minna á þessa undirskriftasöfnun sem er nýlega hafin:
http://www.ceasefirecampaign.org/

Textinn, sem skrifað er undir, er á þessa leið:

Heimurinn má ekki leyfa að blóðbaðið í Miðausturlöndum haldi áfram. Þúsundir saklausra borgara hafa verið drepnir og limlestir, hátt í ein milljón manns eru heimilislausir og hætta er á enn frekari átökum með hryllilegum afleiðingum. Við skorum á Bush, forseta Bandaríkjanna, Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að styðja ákall Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um tafarlaust vopnahlé og alþjóðlegt lið til að koma á friði.

Takmarkið er að safna milljón undirskriftum. Undirskriftirnar verða afhentar Öryggisráðinu og áskorunin birt í dagblöðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum.

Að þessu átaki stendur hópur fólks í tenglsum við samtökin MoveOn og Res Publica og vefritið openDemocracy.

Ceasefire - Lebanon/Israel Við minnum líka á vefsíðu Amnesty International um stríðið í Líbanon.