Minnumst kjarnorkuárásanna á Hirósíma og Nagasakí

By 10/08/2006 Uncategorized

Ræða Ragnars Stefánssonar við kertafleytingu á Akureyri, 9. ágúst, 2006

7709Kertafleyting2 Þessi grimmdarlega árás endurspeglaði fyrirlitningu bandarískra ráðamanna á mannlegu lífi. Við gætum líka bætt við fyrirlitningu á lífi fólks af öðrum kynstofni eða bara á venjulegum manneskjum sem ekkert eiga nema vonina um að lifa.

En árásinni var ætlað að sýna hernaðaryfirburði Bandaríkjanna. Það var allt í lagi að drepa fólk í Hírósíma og Nagasakí ef það skyldi duga til að til að sýna fram á þessa yfirburði.

Um allan heim hefur fólks minnst þessara ægiatburða og við minnumst þeirra með kertafleytingum í dag til að heiðra minningu þess fólks sem þarna var limlest og drepið. En við gerum það um leið til að minna valdamenn heimsins á að svona má aldrei gerast aftur. En er þetta nóg?

Nei.

Kjarnorkuvígbúnaðurinn heldur áfram undir forystu Bandaríkjanna. Þessi vígbúnaður er liður í að tryggja hernaðaryfirburði þeirra í heiminum. Hann hefur um leið þann tilgang að efla og tryggja yfirráð þeirra yfir olíuauðlindum heimsins. Kjarnorkuvígbúnaðurinn þjónar líka vopnaframleiðendum og þeim ríkjum sem eru undirgefin Bandaríkjunum.

Bandaríkin og hernaðarbandalög þeirra, eins og t.d. NATO, vinna að því leynt og ljóst að tryggja hernaðarlega yfirburði sína í heiminum, með uppbyggingu gagnflaugakerfa, t.d. núna síðast í Póllandi og Tékkóslóvakíu, með dreifingu kjarnorkuvopna, í sinni eigu, inn í svokölluð kjarnorkuvopnalaus lönd, til notkunar ef þörf krefur eins og það er kallað.

Hin yfirlýsta ástæða allrar þessarar uppbyggingar er hætta frá Mið-Austurlöndum.

Hin raunverulega ástæða uppbyggingarinnar er að Bandaríkin vilja styrkja stöðu sína í Mið-Austurlöndum. Í þeirri viðleitni Bandaríkjanna skipar Ísraelsríki mikilvægan sess.

Þegar Ísraelsher hóf gegndarlausar loftárásir á Suður-Líbanon hafði það ekkert með það að gera að Hisobollaliðar höfðu tekið tvo ísraelska hermenn til fanga. Árásin hafði verið undirbúin lengi. Með aðstoð öflugs upplýsingakerfis, reyndu Ísraelsmenn að nýta sér handtöku hermannanna tveggja til að afsaka árásir sína.

Margir sérfræðingar um Mið-Austurlönd segja að Líbanon sé ekkert lokatakmark. Aðalmarkmiðið er að draga Íran og Sýrland inn í átökin, til að hafa afsökun til að gera massívar árásir á þessi lönd líka, beygja þau undir sinn verndarvæng, undir sinn vígbúnaðarhjálm. Í hvert sinn sem upplýsingakerfi árásaraðilans hamrar á því að vopn Hispollah komi frá Íran er það sennilega undirbúningur árása á Íran.

Verður kjarnorkuvopnum beitt aftur gegn manneskjum?

Bandaríkin eru eina ríki heims sem hefur beitt kjarnorkuvopnum gegn fólki. Í Víetnamstríðinu, þegar Bandaríkin sáu fram á að þau gætu ekki sigrað með hefðbundnum vopnum, voru sterk öfl þar sem prédikuðu að nota skyldi kjarnorkuvopn til að draga tennurnar úr Víetnömum. Líklega má þakka það öflugri andstöðu almennings í Bandaríkjunum og um allan heim að þetta var ekki gert.

Þetta herskáa ríki, Bandaríkin, er nú eina kjarnorkuveldið sem hefur kjarnorkuvopn í öðrum löndum. Hin yfirlýsta ætlun er að beita 480 kjarnorkusprengjum, sem eru staðsettar í Evrópu, gegn skotmörkum í Rússlandi eða Mið-Austurlöndum. Þetta er í samræmi við kjarnorkuáætlanir NATO.

Á svokölluðum stríðstímum yrðu allt að 180 af þessum 480 sprengjum afhentar svokölluðum kjarnorkuvopnalausum löndum eins og Ítalíu, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Tyrklandi til notkunar fyrir flugheri þessara landa, og þessir herir eru allir að æfa sig í að beita slíkum vopum ef þörf krefur. Og hver skyldi meta það hvort þörfin sé fyrir hendi, nema Bandaríkin sjálf. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta en þessi dæmi sýna að undirbúningur þess að beita kjarnorkuvopnum gegn fólki að nýju er í fullum gangi.

En þessi dæmi sýna líka það kverkatak sem Bandaríkin hafa á þessum löndum og öðrum löndum sem fylgja þeim að málum.

Maður spyr sig hvort lydduskapur og afskiptaleysi voldugra Evrópuríkja vegna innrásarinnar í Líbanon og innrásarinnar í Palestínu á síðustu mánuðum skapist af þessu kverkataki Bandaríkjanna. Eða kannski finnst mönnum bara að það sé öruggara að vera við hliðina á ógnvaldinum en að hafa hann á móti sér.

Í þessari friðaraðgerð okkar, þessari friðarkröfu okkar, skulum við minnast fórnarlamba loftárásanna og innrásarinnar í Líbanon og ógnarárásanna í Palestínu undanfarið, ekki síður en fórnarlambanna í Hírósíma og Nagasakí.

Í einu af mörgum stríðum gegn palestísnku þjóðinni orti Akureyrarskáldið Kristján frá Djúpalæk kvæðið Slysaskot í Palestínu. Stúlka í Svarfaðardal, Ösp Kristjánsdóttir, ryfjaði þetta kvæði upp á blogsíðu sinni í dag, í tilefni dagsins, og með þessum orðum: Þetta ljóð virðist alltaf eiga við… djöfull búum við í viðbjóðslega sjúkum heimi:

    Lítil stúlka. Lítil stúlka.
    Lítil svarteygð, dökkhærð stúlka
    liggur skotin.
    Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
    Höfuðkúpan brotin.

    Ég er Breti, dagsins djarfi
    Dáti, suður í Palestínu,
    en er kvöldar klökkur, einn,
    kútur lítill, mömmusveinn.

    Mín synd var stór. Ó, systir mín.
    Svarið get ég, feilskot var það.
    Eins og hnífur hjartað skar það,
    hjartað mitt, ó, systir mín
    fyrirgefðu, fyrirgefðu,
    anginn litli, anginn minn.

    Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.

Kertafleyting Akureyri 090806 Um leið og við hugleiðum þessi ógnarverk og minnumst þeirra sem verða fyrir þeim, skulum við hugleiða hvað er til ráða til að stöðva þessa framrás þeirra sem berjast fyrir heimsyfirráðum, framrás þeirra sem valda þessari ógn.

Það var ekki síst hörð barátta andstæðinga Bandaríkjanna í Bandaríkjunum sjálfum sem stöðvaði Víetnamstríðið, barátta andstæðinga Bandaríkjanna í bandalagslöndum þeirra, eins og t.d. á Íslandi, sem stöðvaði Víetnamstríðið. Bandarísk stjónvöld óttuðust eigin kjósendur, og þau óttuðust að áframhaldandi stríð mundi einangra þau alþjóðlega.

Þetta þarf að gerast nú ekki síður en þá, og slík barátta þarf að fara af stað fyrr en síðar. Hún er þegar farin af stað víða um heim. Þetta er barátta grasrótarinnar, sem þrýstir stjórnvöldum á undan sér til andstöðu við stríðið.

Þessi barátta þarf að tengjast upplýsingu um eðli heimsmálanna um þessar mundir. Upplýsingu sem nær í gegnum það áróðursflóð sem stríðsherrar heimsins beina að fólki til að reyna að rugla það í ríminu.

Við hér á Íslandi getum haft mikla þýðingu fyrir heiminn í baráttunni gegn stríði. Við eigum að hefja á loft, með endurnýjuðum krafti, kröfuna um herinn burt og úrsögn úr NATO. Menn segja kannski að herinn sé að fara hvort sem er. En hernaðarsamstarf Íslands og Bandaríkanna er enn við lýði meðan við erum í NATO og meðan við segjum svokölluðum varnarsamningi ekki upp. Bandaríkin vilja losa héðan hermenn og flugvélar af því það er meiri þörf fyrir hvort tveggja annars staðar.

Við þurfum að hefja á loft kröfuna um uppsögn herverndarsamningsins við Bandaríkin og úrsögn úr NATO af því við viljum ekki berjast með þeim í liði sem fara með sprengjum og morðum um Líbanon og Palestínu. Við viljum ekki vera í þeirra liði sem framkvæma slíkan verknað. Við viljum sýna Bandaríkjunum og Ísrael fram á að þeir muni einangrast sem nátttröll stríðsins í augum allra manna ef þeir halda svona áfram

Íslendingar eiga mikinn og sterkan arf í kröfunni um brottför hersins og úrsögn úr NATO, af því við erum friðelskandi fólk. Líklega hefur oft meiri hluti þjóðarinnar stutt slíkar kröfur. Og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur á undanförnum árum lýst andstöðu sinni við einstakar árásir Bandaríkjanna og NATO.

Sterk krafa frá Íslandi, jafnvel frá íslenskum stjórnvöldum, um að við segjum okkur úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin mun heyrast um allan heim og vekja fleiri til slíkrar baráttu og styrkja og efla baráttu friðarsinna um allan heim.

Svo við notum orðið myrkraverkaher úr kvæði Böðvars Guðmundssonar skulum við hefja á loft kröfuna:

Myrkraverkaherinn
burt úr Palestínu,
burt úr Líbanon,
burt úr Írak.
Aldrei aftur Hirósíma!
Ísland úr NATO, herinn burt!

Myndir: Jón Baldvin Hannesson