Monthly Archives

July 2006

Fyrirlestur Michel Chossudovsky í Norræna húsinu þriðjudaginn 11. júlí

By Uncategorized

16e595d57e03a486371fÞann 11. júlí nk. verður hér í Reykjavík kanadíski hagfræðingurinn Michel Chossudovsky. Hann kemur til landsins í einkaheimsókn með fjölskyldunni.

Prof. Chossudovsky hefur skrifað margar bækur á sviði alþjóðamála, þ. m.t. um hnattvæðingu, um Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn, stríðið gegn hryðjuverkum ofl. Hann hefur m. a. unnið sem ráðgjafi fyrir Sameinuðu Þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, skrifað fyrir vefritið ,,Centre for Research on Globalization” (sjá globalresearch.ca), auk þess að ritstýra tímaritinu Global Outlook.

Chossudovsky féllst á að halda erindi og ræða við fréttamenn aðeins einn dag, þann 11. júlí. Erindi hans nefnist ,,The Geostrategical Aspects of the US War on Terrorism” þar sem m. a. verður fjallað um hættuna á stríði gegn Íran. Upphaflega var gert ráð fyrir að erindið yrði haldið á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands, en vegna sumarfría verður það haldið á vegum Gagnauga – vefrits um alþjóðastjórnmál (sjá: gagnauga.is) í Norræna húsinu 11. júlí n.k. kl. 20:30.

Bechtel, heimsins mesta stríðsgróðafyrirtæki

By Uncategorized

6. ágúst 2006 Bandarísk friðarsamtök hvetja til mótmæla við skrifstofur Bechtel 6.-9 . ágúst

Sameinaða friðar- og réttlætishreyfingin,United for Peace and Justice , er stærsta bandalag friðarsamtaka í Bandaríkjunum, stofnuð haustið 2002. Okkur hefur borist eftirfarandi orðsending frá þessum samtökum:

Gegn kjarnorkuvopunum! Gegn stríði!
Stöðvum stríðsgróðann! Styðjum frumbyggja!

Dagana 6. og 9. ágúst, þegar við minnumst kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí, krefjumst við þess að endir verði bundinn á stríðið í Írak, mótmælum hverskyns áformum um árásir á Íran og Norður-Kóreu og krefjumst kjarnorkuafvopnunar um allan heim.

Að þessu sinni hvetjum við til mótmæla við skrifstofur Bechtel, sem er það fyrirtæki sem græðir mest allra fyrirtækja á kjarnorku. Jafnframt verði höfð uppi mótmæli við kjarnorkustöðvar hvarvetna. Sextíuogeinu ári eftir að Bandaríkjastjórn lét drepa tugi þúsunda almennra borgara með því að varpa kjarnorkusprengjum á tvær þéttbyggðar borgir viljum við að afhjúpa hræsnina og tvískinnunginn í kjarnorkustefnu Bandaríkjanna og mótmæla þeim bandarísku fyrirtækjum sem hagnast á kjarnorkuvopnakapphlaupinu og stríðinu í Írak.

Sameinuðu þjóðirnar hafa líka lýst 9. ágúst sem alþjóðlegan dag frumbyggja. Frumbyggjar hafa oft þurft að taka á sig þann umhverfisvanda sem fylgir kjarnorkuframleiðslu. Í Bandaríkjunum hafa amerískir frumbyggjar mátt þola það að landi þeirra hefur veri rænt til að koma upp kjarnorkustöðvum, starfrækja úrannámur og framkvæma tilraunasprengingar. Bandarísk stjórnvöld halda áfram áætlunum um að koma geislavirkum kjarnorkuúrgangi fyrir við rætur Yucca-fjalls í Nevada, við helgistað Shoshone-indjána. Þannig eru tengjsl á milli útbreiðslu kjarnorkuvopna og yfirgangs gagnvart frumbyggjum.

Bandaríkin er eina landið sem hefur notað kjarnorkuvopn. Meðan stríð og hernám halda áfram í Írak og Afganistaa kyndir ríkisstjórn Bush undir kjarnorkuvandamál varðandi Íran og Norður-Kóreu. Og á sama tíma vinnur þessi ríkisstjórn að framleiðslu nýrra kjanorkuvopna og uppbyggingu kjarnorkuvera heima fyrir. Við segjum: Gegn kjarnorkuvopnum! Gegn stríði! Gegn stríðsgróðafyritækjum! Stöndum með sjálfræði frumbyggja um allan heim!

Af hverju Bechtel?

Fyrirtækið Bechtel er það fyrirtæki sem mest græðir á stríðinu í Írak jafnframt því sem það hagnast mjög á hnattvæðingunni. Í andstöðunni við Bechtel geta hinar ýmsu hreyfingar sameinast, friðarhreyfingin, hreyfingin gegn kjarnorku og alþjóðlega réttlætishreyfingin eða hreyfingin gegn hnattvæðingu, eins og hún er líka kölluð. Gegnum tengsl sín við stjórnvöld í heila öld er Behctel dæmigert fyrir stríðsgróða og fyrir tengslin milli kjarnorkuframleiðslu og útbreiðslu kjarnorkuvopna, milli „frjálsra viðskipta“ og arðráns á frumbyggjum og milli fyrirtækja og ríkisstjórna. Frekari upplýsingar varðandi þetta er að finna hér.

Nánari upplýsingar má fá á vefsíðunni www.August6.org.

Varðandi upptalningu þeirra hreyfinga sem geta sameinast í mótmælum gegn Bechtel getum við hér á Íslandi að sjálfsögðu bætt umhverfisverndarhreyfingunni við.

Nánari upplýsingar um Bechtel í íslensku má finna hér. Sjá einnig vefsíðu Bechtel og Fjarðaáls.

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

By Uncategorized

Í dag, 7. júlí, er haldið áfram viðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um brottför hersins. Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga hefur sent frá sér greinargerð vegna þessara viðræðna. Sjá hér.

Þess er líka rétt að geta að í dag eru liðin 65 ár síðan bandarískur her steig á land á Íslandi. 1. október á hann að vera farinn. Við ætlumst til að þá verði hann alfarinn, að herstöðin verði endanlega lögð niður og herstöðvasamningnum verði sagt upp og í framhaldi af því segi Ísland skilið við Atlatnshafsbandalagið.

Var þörf á varnarliði?

By Uncategorized

eftir Árna Björnsson

Birtist í Morgunblaðinu 6. júlí 2006

Ã?rni Björnsson ÞEGAR bandaríski herinn birtist hér öðru sinni fyrir rúmlega hálfri öld kom það fólki nokkuð í opna skjöldu að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur varnarlið. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur setulið eða bara herinn.
Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman að herinn væri hér til varnar. Þess var stranglega gætt að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis í útvarpinu. Bílar hersins voru merktir VL. Líklega skilaði sálfræðistríðið þeim árangri að mikill hluti þjóðarinnar vandist þessu orði.

Athygli vekur því að í nýlegri könnun virðist aðeins fjórðungur þjóðarinnar hlynntur því að halda í þennan herstöðvarsamning og aðeins einn tíundi mjög eindregið. Engan þarf að undra þótt viss kjarni í Sjálfstæðisflokknum vilji halda dauðahaldi í kanann því bandarísk herseta hefur nálgast trúaratriði á þeim bæjum. Að hinu leytinu þarf engan heldur að undra þótt þeir sem vilja troða okkur inn í Evrópusambandið skammi nú kanann eins og hund og vilji nota tækifærið til að útvega okkur evrópskan her í staðinn.

Það sem vekur helst undrun er að sumir þeirra sem að öðru leyti bregðast skynsamlega við og telja að ekki þurfi neinn erlendan her – í staðinn mætti til dæmis efla lögregluna og óska eftir tryggingum frá nágrannalöndum og stórveldum, – sumir þeirra rökstyðja þetta viðhorf með því að nú séu breyttir tímar, kalda stríðinu sé lokið, Sovétríkin úr sögunni, og því sé óhætt að breyta um stefnu. Með þessu er gefið í skyn að fyrir rúmum 50 árum hafi verið einhver þörf á varnarliði.

Við vitum mætavel að svo var ekki. Ekki af því að ráðamenn Sovétríkjanna væru einhver gæðablóð. Öðru nær, þeir voru bölvaðir fantar. Heldur blátt áfram af því að þeir voru samt ekki nein fífl, að minnsta kosti ekki á hernaðarsviðinu. Þeir hljóta allan tímann að hafa vitað að þeir höfðu ekkert að gera hernaðarlega í Vesturveldin eða Bandaríkjamenn þótt þeir hefðu sjálfsagt getað varist af hörku ef á þá yrði ráðist. Auk þess áttu þeir fullt í fangi með að hafa hemil á þeim þjóðum og löndum, sem þeir fengu úthlutað sem áhrifasvæðum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Og þeim tókst það reyndar ekki nema í einn mannsaldur.

Vesturveldin reyndu heldur aldrei að skerast í leikinn á áhrifasvæði Sovétríkjanna þrátt fyrir blóðugt ofbeldi í Berlín 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékklandi 1968. Það var látið nægja að harma þessa atburði og mótmæla í orði. Hinsvegar urðu þessi sömu grimmdarverk kærkomið tækifæri til að ráðast á verkalýðsflokka heima fyrir hvar sem var.

Eina dæmið um hernaðaríhlutun Sovétríkjanna utan þessa áhrifasvæðis var í Afganistan árið 1980, sem varð reyndar einn af þeirra banabitum. En Afganistan var ekki heldur partur af samkomulagi sigurvegaranna í lok heimsstyrjaldarinnar.

Við vitum þetta núna en það má vel vera að margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, hafi á þeim tíma ekki vitað um þennan hernaðarlega vanmátt Sovétríkjanna, enda börðust þeir við að halda honum leyndum. Annarsvegar með allt að því geðveikislegu öryggiskerfi og hinsvegar með hinum árlegu ógnvekjandi hersýningum 1. maí og 7. nóvember. Samt má ótrúlegt þykja ef bandaríska leyniþjónustan hefur ekki vitað nokkurn veginn að þeim gat ekki stafað nein árásarhætta af Rauða hernum. Það var hinsvegar í þágu hagvaxtar í Bandaríkjunum og víðar að viðhalda hinni ímynduðu stríðshættu. Og vissulega urðu aðilar kalda stríðsins vænisjúkir beggja vegna víglínunnar.

Sjálfsagt hefur verið auðvelt að telja óbreyttum íslenskum ráðherrum og alþingismönnum trú um að mikil hætta stafaði af Rússum, rétt eins og þeir gleyptu við því á lokuðum hálftíma fundi í bandaríska sendiráðinu fyrir þremur árum að sannanir væru fyrir því að Saddam Hussein réði yfir kjarnorkuvopnum. En þá töldu þeir Davíð og Halldór líka að það væri brýnt hagsmunamál vegna herstöðvarinnar á Miðnesheiði að kokgleypa allt sem Kaninn hélt fram hverju sinni.

Nokkuð svipuðu máli gegndi einmitt þegar gengið var í NATÓ 1949 og herinn samþykktur inn í landið 1951. Óttinn við Rússa hefði varla einn og sér dugað til að meirihluti þingmanna færi að ljá samþykki sitt svo umdeildum ákvörðunum nokkrum árum eftir stofnun lýðveldis. Það var annar og mun þyngri straumur sem rak á eftir: sjálft Atvinnulífið með stórum staf.

Það er mikið til í því, sem hinn alþekkti en fámáli bandaríski “Deep Throat” á að hafa sagt við rannsóknarblaðamenn Washington Post þegar þeir vildu fá frekari vísbendingar um hvar þeir ættu að leita að sönnunargögnum í Watergate-málinu fyrir aldarþriðjungi. Hann sagði: “Follow the Money”. Gáið að hvar hagsmunirnir liggja.

Íslenskir athafnamenn höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði litli athafnamaðurinn komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum þegar gamli herinn fór þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk sem vildi koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessum mönnum að reikna ekki með að þeir hefðu viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.

Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Því er ekki heldur að leyna að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.

Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki sem á endanum urðu að Íslenskum aðalverktökum og fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn. Þessir iðnaðarmenn höfðu flestir verið rétt sæmilega bjargálna en bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim sjálfum næstum að óvörum. Ýmsir þeirra voru ágætismenn og hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og margt verið til bóta. Því má vissulega segja að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis. En varnarþörfin var engin.

Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

By Uncategorized

1. Segjum upp herstöðvasamningnum! Allt frá því að herstöðvasamningurinn var gerður árið 1951 hefur þjóðin verið klofin í afstöðunni til hans og oft hafa staðið um hann hatrammar deilur. Grundvöllur þessara deilna lá einkum í þjóðernislegri og stéttarlegri afstöðu, afstöðu til hervalds almennt og ekki síst mismunandi afstöðu til alþjóðamála á tímum kalda stríðsins. Rökin með herstöðvasamningnum tengdust kalda stríðinu. Þær varnir, sem hann átti að tryggja, miðuðust fyrst og fremst við ógnina af Sovétríkjunum. Með upplausn Sovétríkjanna 1991 og lokum kalda stríðins má því segja að helstu rökin fyrir herstöðvasamningum séu horfin. Deilurnar um þessi rök heyra fortíðinni til. Nýleg skoðanakönnun sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill að samningum verði sagt upp.

2. Hvar er ógnin? Fulltrúar bandaríska hersins og varnarmálaráðuneytisins telja að ekki sé nein þörf á hervörnum hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki bent á neina þá ógn gagnvart landinu sem kallar á hervarnir. Helst hefur verið talað um hættuna af hryðjuverkum, en augljóst er að sú ógn er sáralítil og hervarnir eru gagnslausar gagnvart henni. Þvert á móti eykur hernaðarlegt samstarf frekar hættuna af hryðjuverkum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert neina úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi og þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands, sem lögð var fram síðastliðið haust og þar áður haustið 2003, hefur ekki enn verið tekin til afgreiðslu. Í umsögn SHA um tillöguna segir að samtökin fagni „því að fram sé komin tillaga um að gera opna og lýðræðislega úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi“ enda sé mikilvægt „að Alþingi eigi frumkvæði að því að brugðist sé við nýrri skipan alþjóðamála“.

3. Árásarstefna Bandaríkjanna. Íslendingum ætti að vera það kærkomið tækifæri nú að losa sig úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin. Saga utanríkisstefnu Bandaríkjanna undanfarna öld verður seint sögð saga friðarviðleitni og nægir þar að benda á Víetnamstríðið og íhlutanir Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, Grikklandi og Rómönsku Ameríku svo fátt eitt sé nefnt. Bandaríkin hafa að undanförnu komið fram sem árásargjarnasta ríki heims. Hvað eftir annað hafa Bandaríkin staðið fyrir ólögmætum innrásum í önnur ríki: Júgóslavíu 1999, Afganistan 2001 og Írak 2003, og nú óttast margir að þau séu að undirbúa árás á Íran. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þar áður utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að ríkisstjórn Íslands hafi fengið rangar upplýsingar þegar stjórnvöld í Bandaríkjunum fengu hana til að styðja innrásina í Írak. Í tengslum við framangreindar innrásir hafa bandarísk stjórnvöld gert sig sek um gróf mannréttindabrot og stríðsglæpi. Þá hafa Bandaríkin snúið við blaðinu varðandi kjarnorkuafvopnun og hafið þróun nýrra kjarnorkuvopna og í raun brotið gegn NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Stefna Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum valdið aukinni spennu í alþjóðamálum og beinlínis ýtt undir hættulega tortryggni og spennu milli Vesturlanda og Miðausturlanda. Það væri því affarasælast að losa sig út úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin þótt góðum samskiptum milli þjóðanna yrði viðhaldið að öðru leyti.

4. Atvinnumál á Suðurnesjum. Það sem nú þarf fyrst og fremst að huga að er annars vegar atvinnumál á Suðurnesjum og hins vegar viðskilnaður Bandaríkjamanna á Miðnesheiði. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fluttu þingsályktunartillögu um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins í mars 2005 og aftur síðastliðið haust, en hún hefur ekki enn fengið afgreiðslu. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt að fyrirvaralítið skuli nærri 600 manna vinnustaður vera lagður niður í tiltölulega litlu byggðarlagi. Þá ákvörðun tóku bandarísk stjórnvöld einhliða. Þótt búast hefði mátt við að til þessa kæmi létu íslensk stjórnvöld undir höfuð leggjast að búa sig undir það. Íslensk og bandarísk stjórnvöld hljóta því að bera sameiginlega ábyrgð á að bregðast við þeim vanda sem þetta skapar. Þá er einnig brýnt að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur, að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

5. Mengun af völdum hersins. Ljóst er að bandaríski herinn hefur skilið eftir sig ýmiskonar mengun bæði á Miðnesheiði og öðrum stöðum þar sem hann hefur verið með einhver umsvif. Að einhverju leyti hefur þetta verið rannsakað og úrbætur gerðar, en mikið er þó óunnið og margt á huldu, bæði um eðli, magn og umfang þessarar mengunar, hver eigi að kosta rannsóknir og hreinsun og hver sé réttarstaða bæði opinberra aðila og einstaklinga. Brýnt er að þessum málum verði komið á hreint með viðunandi hætti í samningum sem varða brottför hersins.

6. Ísland gangi úr NATO. Eðlilegt framhald af lokun herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og uppsögn herstöðvasamingsins er að Ísland segi upp aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin að NATO hefur löngum verið mjög umdeild á sama hátt og herstöðvasamningurinn. Rökin fyrir aðild voru þau sömu, það voru rök kalda stríðsins og þau rök og deilur um þau heyra sögunni til. Reynt hefur verið að réttlæta áframhaldandi tilveru NATO með því að gefa því einhverskonar friðargæsluhlutverk, en sú réttlæting gengur augljóslega ekki upp í ljósi þess að NATO er hernaðarbandalag ákveðinna ríkja og beinist sem slíkt gegn öðrum ríkjum hvort sem það er kennt við vörn eða sókn. Eðli þessarar „friðargæslu“ kemur hvað best í ljós þegar NATO fylgir í kjölfar ólögmætra innrása Bandaríkjanna í Afganistan og Írak og kemur innrásarherjunum í raun til aðstoðar fyrir utan það að vera beinlínis aðili að innrásinni í Júgóslavíu árið 1999. Kjarnorkuvopn eru hluti af vígbúnaði NATO og NATO hefur áskilið sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum. Aðildin að NATO kemur því beinlínis í veg fyrir að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði enda hefur utanríkisráðherra Íslands hafnað tillögum sem komið hafa fram á Alþingi þar að lútandi með vísan til þessa. Nú eru bandarísk kjarnorkuvopn til staðar í sex NATO-ríkjum í Evrópu en aðeins eitt þeirra, Bretland, er viðurkennt kjarnorkuvopnaríki samkvæmt NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, og er þessu svo fyrirkomið fyrir tilstilli NATO. Þetta er klárt brot á fyrstu tveimur greinum NPT-samningsins. Bandaríkjastjórn sagði árið 2002 upp ABM-samningnum um takmörkun eldflaugavarna og var það liður í áætlunum um að hefja á ný uppbyggingu gagnflaugakerfis. Þessi uppbygging er nú hafin og nær inn á vettvang NATO með tengingu herstöðva í Fylingdale á Bretlandi og Thule á Grænlandi. Jafnframt er áætlað að koma gagneldflaugum fyrir í herstöðvum í nýju NATO-ríkjunum Póllandi og hugsanlega Tékklandi. Þessar áætlanir valda Rússum þungum áhyggjum og eru í raun ögrun gagnvart þeim og þannig ógnun við friðsamlega sambúð ríkja í Evrópu. Þessar gagneldflaugar eru sagðar vera til að verjast hugsanlegum árásum frá Miðausturlöndum, einkum Íran. Það er ljóst að stefna Bandaríkjanna undanfarinn hálfan annan áratug hefur valdið vaxandi spennu milli Miðausturlanda og Vesturlanda og útþensla NATO er ekki til þess fallin að draga úr þeirri spennu. Það er því augljóst að aðildin að NATO ógnar frekar öryggi okkar en að hún veiti okkur vörn.

7. Ísland sem miðstöð friðar. Ísland hefur nú einstakt tækifæri til að skapa sér sess sem friðelskandi land án hers, án herstöðva og utan hernaðarbandalaga. Þrátt fyrir herstöðvarnar hér og aðildina að NATO hefur Ísland sérstaka friðarímynd í augum margra vegna þess að Ísland hefur aldrei haft eigin her og ekki tekið beinan þátt í styrjöldum, þótt sannarlega hafi hallað á ógæfuhliðina í þeim efnum að undanförnu. Með því að segja upp herstöðvasamningnum og aðildinni að NATO mætti styrkja þá friðarímynd enn frekar og þá hefðu Íslendingar alla burði til að gegna sérstöku hlutverki í þágu heimsfriðar. Fyrst og fremst væri það verðugt markmið í sjálfu sér, en auk þess mundi það að öllum líkindum gefa Íslandi ýmis tækifæri í efnahagslegu tilliti ef menn leggja eitthvað upp úr því. Öllum hugmyndum um að Íslendingar reyni að koma sér upp eigin her, hvort sem er opinberlega eða í dulargervi, eða semja um hernaðarsamstarf við önnur ríki en Bandaríkin ber að vísa algerlega á bug.

Stríðsglæpamaður snæðir að Bessastöðum

By Uncategorized

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands 26. júní segir svo: „George H. W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur þekkst boð forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar um að koma í heimsókn til Íslands 4.-7. júlí.“ Síðan segir að hann muni „halda til laxveiða í boði Orra Vigfússonar formanns Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), en forsetinn fyrrverandi hefur verið eindreginn stuðningsmaður slíkrar verndar.“

Mörgum er það hulin ráðgáta hvers vegna forseti Íslands tekur upp á því allt í einu núna, meðan Bandaríkjamenn eru á kafi í blóðugum, ólögmætum styrjöldum í Írak og Afganistan og uppvísir að grófum mannréttindabrotum vegna Guantanamo-fangabúðanna og fleiri mála, að bjóða heim í embættisnafni fyrrverandi foseta, sem lagði línurnar að því sem nú er í gangi og er auk þess eins tengdur núverandi forseta og hægt er.

Eins og komið hefur fram hér á Friðavefnum hefur Elías Davíðsson ásamt fleirum lagt fram kæru á hendur George H. W. Bush vegna meintrar hlutdeildar hans í stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu, glæpum gegn friði og glæpum gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum. Þessar ásakanir eru rökstuddar í kærunni (sem er aðgengileg hér), en helstu atriða hennar er getið í fréttatilkynningu hér að neðan.

Kæra Elíasar og félaga hefur nánast ekki verið nefnd í íslenskum fjölmiðlum. Það er reyndar athyglisvert hvernig ráðamenn á Vesturlöndum virðast vera hafnir yfir alþjóðleg lög, það er sama hvernig þeir brjóta lög og mannréttindasáttmála, það er engin leið að færa þá fyrir dómstóla. Því hefur verið gripið til þess ráðs sem heimspekingurinn Bertrand Russell og fleiri gripu til árið 1966 þegar hinn svokallaði Russell-dómstóll var settur á laggirnar til að rannsaka stríðsglæpi Bandaríkjanna í Víetnam-stríðinu. Slíkur dómstóll er auðvitað táknrænn en samt meira en það, þar sem hann rannsakar mál og því liggja eftir hann aðgengilegar upplýsingar og rökstuðningur um sekt. Samskonar dómstól var komið upp eftir innrásina í Írak 2003 undir nafninu Alþjóðadómstóll um Írak (World Tribunal on Iraq -WTI), en aðild að honum á hinn svokallaði BRussell-dómstóll (BRussells Tribunal). Niðurstöður þess dómstóls eru nýlega komnar út í bókinni Crimes of War : Iraq í ritstjórn Roberts Jay Lifton, Richards Falk og Irene Gendzier.

Eftir innrásina í Júgóslavíu 1999 var sett á laggirnar alþjóðleg rannsóknarnefnd að frumkvæði Ramsey Clark, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og gaf hún út skýrslu um niðurstöður sínar. Samskonar rannsóknarnefnd hafði áður verið sett upp eftir Persaflóastríðið, sem hófst árið 1991 í forsetatíð George Bush eldri, þess sem nú gistir Ísland. Þessi nefnd komst að þeirri niðurstöðu að Bush og fleiri ráðamenn í Bandaríkjunum hefðu gerst sekir um stríðsglæpi og má lesa um það í skýrslu sem birt er á íslensku á vefnum Aldeilis.net. Meira efni þessu tengt má einnig finna þar.

Reglan, að menn séu saklausir þar til sekt sannast, er góð regla. Í réttarríki er þá gott að bíða þess að dómstólar hafi kveðið upp sinn úrskurð. Þess er hinsvegar vart að vænta að mál George H. W. Bush verði tekið fyrir af lögmætum dómstóli. Við verðum að láta okkur nægja þá dómstóla sem áhugamenn um mannréttindi og réttlæti hafa sett upp, dómstóla sem hafa á vissan hátt óformlegt lögmæti vegna þess að þeir reyna að vanda rannsókn sína og öðrum dósmstólum er ekki til að dreifa. Niðurstaðan er að George H. W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur gerst sekur um stríðsglæpi. Okkur er því óhætt að segja að það var stríðsglæpamaður sem snæddi að Bessastöðum í gærkvöldi í boði forseta Íslands og þáði af honum veiðstöng og flugu til laxveiða. „A joyful occasion“, gleðilegur viðburður, sagði forseti Íslands. Okkur herstöðvaandstæðingum og friðarsinnum var hins vegar ekki skemmt.

Sjá einnig grein á Ögmundar Jónassonar á ogmundur.is.

Einar Ólafsson

Kæra lögð fram gegn George H.W. Bush

By Uncategorized

Fréttatilkynning

Reykjavík, 3. júlí 2006

Í dag lagði hópur fólks fram kæru við embætti Ríkislögreglustjóra gegn George H.W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem er væntanlegur til landsins á morgun. Kært er vegna meintrar hlutdeildar George H.W. Bush í stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyninu, glæpum gegn friði og glæpum gegn alþjóðlega vernduðum einstaklingum. Hópurinn krefst þess, á grundvelli vitneskju sem hann leggur fram og lagalegs rökstuðnings, að George H.W. Bush „verði kyrrsettur á Íslandi meðan meint hlutdeild hans að þessum alþjóðaglæpum er rannsökuð.“ Bendi niðurstaða rannsóknarinnar til þess að ástæða sé til að lögsækja hann, „er mælst til þess að réttað verði yfir honum fyrir íslenskum dómstólum eða að hann verði framseldur alþjóðlegum dómstól sem hefði umboð til að rétta í hans máli.“

Meðal þeirra brota sem hópurinn sakar Bush um, er hlutdeild hans í árásarstríði gegn Panama árið 1989 og ránið á forseta landsins, Noriega; undirbúningur og framkvæmd Persaflóastríðsins árið 1991; og viðskiptabannið gegn Írak. Yfir ein milljón manns lét lífið vegna ákvarðana þessa manns. Hópurinn telur að íslenskir dómstólar séu bærir til að dæma í máli hans og að íslensk yfirvöld beri skyldu samkvæmt alþjóðasamningum til að handtaka og lögsækja hann, eða framselja hann til annars lands, reynist grunur um hlutdeild hans í tilteknum alþjóðaglæpum á rökum reistur.

Hópurinn leggur áherslu á að kæran er ekki lögð fram vegna smámuna eða vegna stjórnmálalegra skoðana. „George H.W. Bush hefur augsýnilega tekið þátt í verkum sem hafa valdið dauða, heilsumissi, örkumli, fátækt, og þjáningum heilla þjóða. Þessir glæpir eru með þeim mestu sem framdir hafa verið í lok tuttugustu aldar,“ segir hópurinn og ætlast til þess að ákæruvaldið „starfi í samræmi við siðareglur evrópskra ríkissaksóknara …og standi vörð um siðferðislegar og lagalegar skyldur Íslands að alþjóðalögum, samningum og sáttmálum.“

Talsmaður hópsins er Elías Davíðsson.

Kæran er birt í heild sinni á vefsíðunni ALDEILIS.NET