Greinargerð Samtaka herstöðvaandstæðinga vegna viðræðna Bandaríkjanna og Íslands um brottför hersins

By 06/07/2006 Uncategorized

1. Segjum upp herstöðvasamningnum! Allt frá því að herstöðvasamningurinn var gerður árið 1951 hefur þjóðin verið klofin í afstöðunni til hans og oft hafa staðið um hann hatrammar deilur. Grundvöllur þessara deilna lá einkum í þjóðernislegri og stéttarlegri afstöðu, afstöðu til hervalds almennt og ekki síst mismunandi afstöðu til alþjóðamála á tímum kalda stríðsins. Rökin með herstöðvasamningnum tengdust kalda stríðinu. Þær varnir, sem hann átti að tryggja, miðuðust fyrst og fremst við ógnina af Sovétríkjunum. Með upplausn Sovétríkjanna 1991 og lokum kalda stríðins má því segja að helstu rökin fyrir herstöðvasamningum séu horfin. Deilurnar um þessi rök heyra fortíðinni til. Nýleg skoðanakönnun sýnir að meirihluti þjóðarinnar vill að samningum verði sagt upp.

2. Hvar er ógnin? Fulltrúar bandaríska hersins og varnarmálaráðuneytisins telja að ekki sé nein þörf á hervörnum hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa ekki bent á neina þá ógn gagnvart landinu sem kallar á hervarnir. Helst hefur verið talað um hættuna af hryðjuverkum, en augljóst er að sú ógn er sáralítil og hervarnir eru gagnslausar gagnvart henni. Þvert á móti eykur hernaðarlegt samstarf frekar hættuna af hryðjuverkum. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert neina úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi og þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands, sem lögð var fram síðastliðið haust og þar áður haustið 2003, hefur ekki enn verið tekin til afgreiðslu. Í umsögn SHA um tillöguna segir að samtökin fagni „því að fram sé komin tillaga um að gera opna og lýðræðislega úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi“ enda sé mikilvægt „að Alþingi eigi frumkvæði að því að brugðist sé við nýrri skipan alþjóðamála“.

3. Árásarstefna Bandaríkjanna. Íslendingum ætti að vera það kærkomið tækifæri nú að losa sig úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin. Saga utanríkisstefnu Bandaríkjanna undanfarna öld verður seint sögð saga friðarviðleitni og nægir þar að benda á Víetnamstríðið og íhlutanir Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, Grikklandi og Rómönsku Ameríku svo fátt eitt sé nefnt. Bandaríkin hafa að undanförnu komið fram sem árásargjarnasta ríki heims. Hvað eftir annað hafa Bandaríkin staðið fyrir ólögmætum innrásum í önnur ríki: Júgóslavíu 1999, Afganistan 2001 og Írak 2003, og nú óttast margir að þau séu að undirbúa árás á Íran. Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þar áður utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að ríkisstjórn Íslands hafi fengið rangar upplýsingar þegar stjórnvöld í Bandaríkjunum fengu hana til að styðja innrásina í Írak. Í tengslum við framangreindar innrásir hafa bandarísk stjórnvöld gert sig sek um gróf mannréttindabrot og stríðsglæpi. Þá hafa Bandaríkin snúið við blaðinu varðandi kjarnorkuafvopnun og hafið þróun nýrra kjarnorkuvopna og í raun brotið gegn NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Stefna Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum valdið aukinni spennu í alþjóðamálum og beinlínis ýtt undir hættulega tortryggni og spennu milli Vesturlanda og Miðausturlanda. Það væri því affarasælast að losa sig út úr hernaðarsamstarfi við Bandaríkin þótt góðum samskiptum milli þjóðanna yrði viðhaldið að öðru leyti.

4. Atvinnumál á Suðurnesjum. Það sem nú þarf fyrst og fremst að huga að er annars vegar atvinnumál á Suðurnesjum og hins vegar viðskilnaður Bandaríkjamanna á Miðnesheiði. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fluttu þingsályktunartillögu um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins í mars 2005 og aftur síðastliðið haust, en hún hefur ekki enn fengið afgreiðslu. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt að fyrirvaralítið skuli nærri 600 manna vinnustaður vera lagður niður í tiltölulega litlu byggðarlagi. Þá ákvörðun tóku bandarísk stjórnvöld einhliða. Þótt búast hefði mátt við að til þessa kæmi létu íslensk stjórnvöld undir höfuð leggjast að búa sig undir það. Íslensk og bandarísk stjórnvöld hljóta því að bera sameiginlega ábyrgð á að bregðast við þeim vanda sem þetta skapar. Þá er einnig brýnt að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur, að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

5. Mengun af völdum hersins. Ljóst er að bandaríski herinn hefur skilið eftir sig ýmiskonar mengun bæði á Miðnesheiði og öðrum stöðum þar sem hann hefur verið með einhver umsvif. Að einhverju leyti hefur þetta verið rannsakað og úrbætur gerðar, en mikið er þó óunnið og margt á huldu, bæði um eðli, magn og umfang þessarar mengunar, hver eigi að kosta rannsóknir og hreinsun og hver sé réttarstaða bæði opinberra aðila og einstaklinga. Brýnt er að þessum málum verði komið á hreint með viðunandi hætti í samningum sem varða brottför hersins.

6. Ísland gangi úr NATO. Eðlilegt framhald af lokun herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og uppsögn herstöðvasamingsins er að Ísland segi upp aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin að NATO hefur löngum verið mjög umdeild á sama hátt og herstöðvasamningurinn. Rökin fyrir aðild voru þau sömu, það voru rök kalda stríðsins og þau rök og deilur um þau heyra sögunni til. Reynt hefur verið að réttlæta áframhaldandi tilveru NATO með því að gefa því einhverskonar friðargæsluhlutverk, en sú réttlæting gengur augljóslega ekki upp í ljósi þess að NATO er hernaðarbandalag ákveðinna ríkja og beinist sem slíkt gegn öðrum ríkjum hvort sem það er kennt við vörn eða sókn. Eðli þessarar „friðargæslu“ kemur hvað best í ljós þegar NATO fylgir í kjölfar ólögmætra innrása Bandaríkjanna í Afganistan og Írak og kemur innrásarherjunum í raun til aðstoðar fyrir utan það að vera beinlínis aðili að innrásinni í Júgóslavíu árið 1999. Kjarnorkuvopn eru hluti af vígbúnaði NATO og NATO hefur áskilið sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum. Aðildin að NATO kemur því beinlínis í veg fyrir að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði enda hefur utanríkisráðherra Íslands hafnað tillögum sem komið hafa fram á Alþingi þar að lútandi með vísan til þessa. Nú eru bandarísk kjarnorkuvopn til staðar í sex NATO-ríkjum í Evrópu en aðeins eitt þeirra, Bretland, er viðurkennt kjarnorkuvopnaríki samkvæmt NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, og er þessu svo fyrirkomið fyrir tilstilli NATO. Þetta er klárt brot á fyrstu tveimur greinum NPT-samningsins. Bandaríkjastjórn sagði árið 2002 upp ABM-samningnum um takmörkun eldflaugavarna og var það liður í áætlunum um að hefja á ný uppbyggingu gagnflaugakerfis. Þessi uppbygging er nú hafin og nær inn á vettvang NATO með tengingu herstöðva í Fylingdale á Bretlandi og Thule á Grænlandi. Jafnframt er áætlað að koma gagneldflaugum fyrir í herstöðvum í nýju NATO-ríkjunum Póllandi og hugsanlega Tékklandi. Þessar áætlanir valda Rússum þungum áhyggjum og eru í raun ögrun gagnvart þeim og þannig ógnun við friðsamlega sambúð ríkja í Evrópu. Þessar gagneldflaugar eru sagðar vera til að verjast hugsanlegum árásum frá Miðausturlöndum, einkum Íran. Það er ljóst að stefna Bandaríkjanna undanfarinn hálfan annan áratug hefur valdið vaxandi spennu milli Miðausturlanda og Vesturlanda og útþensla NATO er ekki til þess fallin að draga úr þeirri spennu. Það er því augljóst að aðildin að NATO ógnar frekar öryggi okkar en að hún veiti okkur vörn.

7. Ísland sem miðstöð friðar. Ísland hefur nú einstakt tækifæri til að skapa sér sess sem friðelskandi land án hers, án herstöðva og utan hernaðarbandalaga. Þrátt fyrir herstöðvarnar hér og aðildina að NATO hefur Ísland sérstaka friðarímynd í augum margra vegna þess að Ísland hefur aldrei haft eigin her og ekki tekið beinan þátt í styrjöldum, þótt sannarlega hafi hallað á ógæfuhliðina í þeim efnum að undanförnu. Með því að segja upp herstöðvasamningnum og aðildinni að NATO mætti styrkja þá friðarímynd enn frekar og þá hefðu Íslendingar alla burði til að gegna sérstöku hlutverki í þágu heimsfriðar. Fyrst og fremst væri það verðugt markmið í sjálfu sér, en auk þess mundi það að öllum líkindum gefa Íslandi ýmis tækifæri í efnahagslegu tilliti ef menn leggja eitthvað upp úr því. Öllum hugmyndum um að Íslendingar reyni að koma sér upp eigin her, hvort sem er opinberlega eða í dulargervi, eða semja um hernaðarsamstarf við önnur ríki en Bandaríkin ber að vísa algerlega á bug.