Monthly Archives

June 2005

Kjarnorkuvopnabúr Rússlands

By Uncategorized

Bulletin of the Atomic Scientist er virtasta tímarit á sviði umfjöllunar um kjarnorkuvopnamál. Tímaritið er einkum þekkt fyrir “kjarnorku-klukkuna” í haus blaðsins. Það, hversu margar mínútur klukkuna vantar í miðnætti, byggir á mati útgefenda á því hversu líklegt sé að komi til kjarnorkuátaka á næstu árum. Ritstjórn tímaritsins hefur breytt klukkunni allnokkrum sinnum á síðustu árum og áratugum. Hana vantar nú sjö mínútur í tólf – sem gefur til kynna meiri hættu en oft á dögum kalda stríðsins.

Í nýlegu hefti tímaritsins birtist umfjöllun um kjarnorkuvopnaeign Rússlandsstjórnar. Fyllsta átæða er til að vekja athygli á greininni og hinum vantaða vef blaðsins.

Ályktun frá miðnefnd SHA

By Uncategorized

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fordæmir misbeitingu lögreglu og dómstóla á gæsluvarðhaldi yfir Bretanum Paul Gill vegna mótmælaaðgerða hans og tveggja Íslendinga 14. júní sl. Hvaða skoðun sem menn annars hafa á þessum aðgerðum þá stofnuðu þær engum manni í hættu og geta ekki talist alvarlegt afbrot.

Gæsluvarðhald yfir eina útlendingnum í hópnum hefur verið réttlætt með því að hætta sé á að hann flýi land. Hér er augljóslega um tylliástæðu að ræða því að það krefst mikillar útsjónarsemi að komast vegabréfslaus úr landi. Forsendur þessa gæsluvarðhaldsúrskurðar hljóta að vera pólitískar. Hér á að sýna að ekki verður tekið á þeim með vettlingatökum sem dirfast að mótmæla ríkjandi stefnu. Miðnefnd SHA mótmælir þessari misbeitingu yfirvalda á heimild sinni til að fangelsa menn.

Miðnefnd SHA

Athyglisverð yfirlýsing Þorsteins Pálssonar

By Uncategorized

Ráðstefna stjórnarskrárnefndar með fulltrúum frjálsra félagasamtaka var haldin að Hótel Loftleiðum í gær, laugardag. Samtök herstöðvaandstæðinga voru í hópi þeirra félaga sem létu þar til sín taka, eins og fram hefur komið. Fulltrúi SHA í pallborðsumræðum var Einar Ólafsson, ritari samtakanna.

Nokkra athygli vakti í umræðunum að Þorsteinn Pálsson, einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í endurskoðunarnefndinni, vék sérstaklega að tillögum SHA þess efnis að bundið yrði í stjórnarskrá að Ísland mætti ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur.

Að mati Þorsteins væri slíkt ákvæði of “heftandi” fyrir stjórnvöld. Það er afar merkileg yfirlýsing frá fyrrum forsætisráðherra Íslands að mikilvægt sé að stjórnvöld geti gerst aðilar að stríði og að óæskilegt sé að setja skorður við slíku í undirstöðulögum þjóðarinnar.

Nú kann það vel að vera skoðun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefndinni að Íslendingar eigi að blanda sér í hernaðarátök í heiminum með beinni hætti en verið hefur í framtíðinni. Ef sú er raunin, hljóta Sjálfstæðismenn hins vegar að beita sér fyrir því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um það hvernig standa skuli að slíkum stríðsyfirlýsingum – enda mun vandfundin sú stjórnarskrá í veröldinni sem ekki felur í sér ákvæði um hvernig fara skuli með það vald.

Hætt er þó við að þessi afstaða Þorsteins Pálssonar njóti lítils stuðnings landsmanna.

Stefán Pálsson

Stjórnarskrárnefnd fundar

By Uncategorized

Um helgina efnir stjórnarskárnefnd til málþings, þar sem fulltrúar ýmissa félagasamtaka sem gert hafa athugasemdir í tengslum við endurskoðun stjórnarskárinnar fá færi á að kynna sjónarmið sín. Samtök herstöðvaandstæðinga hafa tekið mál þetta föstum tökum og lagt fram tillögur að málefnum sem brýnt er að hafa í endurskoðaðri stjórnarskrá.

Helstu atriðin eru þessi:

i) Að bundið verði í stjórnarskrá að óheimilt sé að stofna íslenskan her eða leiða herskyldu í lög.

ii) Að íslenskum stjórnvöldum verði meinað að fara með hernaði á hendur öðrum þjóðum eða styðja aðra til slíkra verka með beinum eða óbeinum hætti.

iii) Að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnorku-, efna- og sýklavopna.

Ætla má að um þessar hógværu tillögur megi ná breiðri og almennri samstöðu meðal íslensku þjóðarinnar.

Kjarnorkuvopnalaus Evrópa?

By Uncategorized

Endurskoðunarráðstefnu NPT-samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna sem hófst í New York 2. maí lauk þann 27. Andstæðingar kjarnorkuvopna voru ekki sérlega bjartsýnir með þessa ráðstefnu enda hefur horft heldur illa með kjarnorkuafvopnun síðan síðasta ráðstefna var haldin fyrir fimm árum og má helst kenna bandarískum stjórnvöldum um eins og rakið var í grein hér á síðunni 20. maí.

Því miður reyndist ekki ástæða til bjartsýni. Skammarleg tímasóun, sagði Rebecca Johnson frá The Acronym Institute sem fylgdist með ráðstefnunni og hefur flutt af henni fréttir á vefsíðunni Acronym. Fyrri ráðstefnum (þ.á.m. tveim síðustu 1995 og 2000) hefur stundum lokið með lokaskjali sem hefur gefið fyrirheit um að aðildarríki samningsins muni vinna enn frekar að markmiðum hans, sem eru annars vegar að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna og hins vegar að útrýma kjarnorkuvopnum með öllu. Lokayfirlýsing þessarar ráðstefnu var hins vegar innantómt formsatriði.

Margir telja Bandaríkin bera höfuðábyrgð á árangusrleysi ráðstefnunnar. Þau hafi engan vilja sýnt til að stuðla að árangri enda er það yfirlýst stefna bandarískra stjórnvalda að efla kjarnorkuvopnabúnað sinn.

En þótt ráðstefnan sjálf hafi ekki borið mikinn árangur er ýmislegt jákvætt í gangi. 21. apríl samþykkti öldungadeild belgíska þingsins ályktun um kjarnorkuafvopnun og krafðist þess að öll bandarísk kjarnorkuvopn í Belgíu verði flutt brott, en Belgía er eitt af sex NATO-ríkjum í Evrópu þar sem eru bandarísk kjarnorkuvopn. Í byrjun maí, við upphaf NPT-ráðstefnunnar, sagði Joschka Fischer utanríkisráðherra Þýskalands að hugsanlegt væri að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu frumkvæði að því að öll kjarnorkuvopn yrðu flutt frá Þýskalandi og skömmu seinna tilkynnti Peter Struck varnarmálaráðherra að hann hygðist taka málið upp innan NATO. Varnarmálaráðherra Frakklands, Michele Alliot-Marie, hefur tekið undir með hinum þýska starfsbróður sínum og einn af leiðtogum belgískra sósíaldemókrata, Dirk van der Maelen, hefur lýst því yfir að ríkisstjórn Belgíu ætti að hafa frumkvæði að því innan NATO að öll kjarnorkuvopn verði fjarlægð frá Evrópu enda væri það í stefnuskrá Flæmska sósíalistaflokkins að Evrópa yði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Ályktunartillaga um brottflutning kjarnorkuvopna hefur nú verið lögð fyrir belgíska þingið.

Einar Ólafsson