Um orðið varnarlið

By 24/04/2006 April 25th, 2006 Uncategorized

Erindi Árna Björnssonar á herkveðjuhátíð í RÁNNI Keflavík 22. apríl 2006

arniÞað kom fólki nokkuð í opna skjöldu, þegar bandaríski herinn kom hingað í annað sinn fyrir rúmlega hálfri öld, að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur „varnarlið“. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur „setulið“ eða bara herinn.

Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman, að hér væri um varnarlið að ræða. Þess var stranglega gætt, að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis ekki í útvarpinu. Bílar hersins voru einnig merktir VL.

Ég veit ekki til, að á því hafi verið gerð nein könnun, en ég hygg samt að sálfræðihernaðurinn hafi skilað þeim árangri, að meginhluti þjóðarinnar hafi vanist þessu orði og kveinki sér ekkert við að nota það.

Þetta viðhorf hefur líka birst glöggt með öðrum hætti á síðari árum og sérstaklega á seinustu vikum, eftir að stjórn Bandaríkjanna ákvað að draga herliðið burtu að mestu. Engan þarf að undra þótt meirihluti ríkistjórnarinnar vilji halda dauðahaldi í Kanann og þær tekjur, sem nokkur góð fyrirtæki gætu enn haft af honum. Engan þarf heldur að undra þótt þeir sem vilja koma okkur inn í Evrópusambandið, skammi nú Kanann einsog hund og vilji nota tækifærið til að útvega okkur evrópskan her í staðinn.

Það sem vekur undrun, er að sumir þeirra, sem að öðru leyti bregðast skynsamlega við og telja, að ekki þurfi neinn erlendan her, í staðinn mætti til dæmis efla lögregluna og óska eftir tryggingaryfirlýsingum frá nágrannalöndum og stórveldum, – sumir þeirra rökstyðja þetta viðhorf með því, að nú séu breyttir tímar, kalda stríðinu sé lokið, Sovétríkin úr sögunni, og því væri rétt að breyta um stefnu. – Með þessu er gefið í skyn, að það hafi fyrir rúmum 50 árum verið einhver þörf á varnarliði.

Við vitum mætavel, að svo var ekki. Ekki af því að ráðamenn Sovétríkjanna væru einhver gæðablóð. Öðru nær, þeir voru bölvaðir fantar. Heldur blátt áfram af því, að þeir voru samt ekki nein fífl, að minnsta kosti ekki á hernaðarsviðinu. Þeir hljóta að hafa vitað allan tímann, að þeir höfðu ekkert að gera hernaðarlega í Vesturveldin eða Bandaríkjamenn, þótt þeir hefðu kannski getað varist af hörku, ef á þá yrði ráðist. Þeir áttu líka fullt í fangi með að hafa hemil á þeim þjóðum og löndum, sem þeir fengu úthlutað sem áhrifasvæðum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Og þeim tókst það reyndar ekki nema í einn mannsaldur.

budapest2 optVesturveldin reyndu heldur aldrei að skerast í leikinn á áhrifasvæði Sovétríkjanna, þrátt fyrir blóðugt ofbeldi í Berlín 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékklandi 1968. Það var látið nægja að harma þessa atburði og mótmæla í orði. Hinsvegar urðu þessi grimmdarverk kærkomið tækifæri til að ráðast á verkalýðsflokka heima fyrir, hvar sem var.

Eina dæmið um hernaðaríhlutun Sovétríkjanna utan þessa áhrifasvæðis var í Afganistan árið 1980, sem varð reyndar einn af þeirra banabitum. En Afganistan var ekki heldur partur af samkomulagi sigurvegaranna í lok heimsstyrjaldarinnar.

Við vitum þetta núna, en það má vel vera, að margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, hafi á þeim tíma ekki vitað um þennan hernaðarlega vanmátt Sovétríkjanna, enda gerðu þeir allt sem þeir gátu til að halda honum leyndum. Annarsvegar með allt að því geðveikislegu öryggiskerfi, og hinsvegar með hinum árlegu ógnvekjandi hersýningum 1. maí og 7. nóvember. Samt má ótrúlegt þykja, ef bandaríska leyniþjónustan hefur ekki vitað nokkurnveginn, að þeim gat ekki stafað nein árásarhætta af Rauða hernum.

En það hefur sjálfsagt verið auðvelt að telja óbreyttum íslenskum ráðherrum og alþingismönnum trú um, að hætta stafaði af Rússum, rétt einsog þeir gleyptu við því á lokuðum hálftíma fundi í bandaríska sendiráðinu fyrir þrem árum, að sannanir væru fyrir því að Saddam Hussein réði yfir kjarnorkuvopnum. En þá töldu þeir Davíð og Halldór líka, að það væri brýnt hagsmunamál vegna herstöðvarinnar hér á Miðnesheiði að kokgleypa allt sem Kaninn hélt fram hverju sinni.

Og nokkuð svipuðu máli gegndi einmitt, þegar gengið var í NATÓ 1949 og herinn samþykktur inn í landið 1951. Óttinn við Rússa hefði varla einn og sér dugað til að meiri hluti þingmanna færi að ljá samþykki sitt við svo umdeildum ákvörðunum. Það var annar og mun þyngri straumur, sem rak á eftir: sjálft Atvinnulífið með stórum staf.

Það er mikið til í því, sem hinn alþekkti en fámáli bandaríski „Deep Throat“ á að hafa sagt við rannsóknarblaðamenn Washington Post, þegar þeir vildu fá frekari vísbendingar um, hvar þeir ættu að leita að sönnunargögnum í Watergate–málinu fyrir aldarþriðjungi. Hann sagði: „Follow the Money“ – Gáið að, hvar hagsmunirnir liggja.

Íslenskir athafnamenn, eða gróðapungar, ef við viljum vera dónaleg, þeir höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði „litli athafnamaðurinn“ komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum, þegar gamli herinn fór, þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu, sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó, hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk, fólkið sem vill koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessu fólki að reikna ekki með, að það hefði viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.

Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór burt, þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Ekkert er voðalegra en atvinnuleysi, segja þeir sem reynt hafa. Flestir vilja hafa atvinnu, hvaðan sem hún kemur.

hriflaÉg man eftir frænda mínum í vegavinnunni, sem var bóndi á veturna og vörubílstjóri á sumrin. Hann var ekki í vafa um að við ættum að fara að ráðum Jónasar frá Hriflu og láta Kanann fá land undir herstöðvar og reyna að græða á því. Þeir voru þó fáir, sem voru svona hreinskilnir. Flestum fannst þægilegra að vísa í hugsanlega árásarhættu. Því er ekki heldur að leyna, að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn, þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.

Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist, fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki, sem hét Sameinaðir verktakar og tóku brátt að sér margvíslegar framkvæmdir fyrir herinn. Auk þess kom að kökunni Reginn, sem var fyrirtæki á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga, og þar með hafði Framsókn hlotið sinn skerf. Loks kom sjálft ríkið í spilið, og úr öllu þessu urðu til Íslenskir aðalverktakar sem fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn.

Íslensku iðnaðarmennir í Sameinuðum verktökum höfðu fram til þessa flestir verið rétt sæmilega bjargálna, áttu kannski eigin íbúð og lítinn bíl, en ekki mikið fram yfir það. Þetta voru yfirleitt ágætis menn og höfðu alltaf verið bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim eiginlega sjálfum að óvörum. Þeir hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og ekki endilega til óþurftar. Og því má vissulega segja, að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis.

Við höfum hinsvegar oft fengið að heyra það, að barátta okkar herstöðvaandstæðinga hafi verið til einskis, úr því að herinn fór aldrei, fyrr en þá kannski núna, og þá ekki fyrir okkar tilverknað. Þetta er mikill misskilningur. Í fyrsta lagi hefði Kaninn aldrei látið reka sig. Ef það ólíklega hefði gerst, að stjórnvöld hefðu sagt herstöðvasamningnum upp, þá hefði án efa verið sviðsett einhver uppreisn hryðjuverkamanna eða hver veit hvað, og herinn hefði gripið inn í. Alþjóðasamfélagið hefði yppt öxlum.

Í öðru lagi er óhætt að segja, að einmitt hin þrauseiga barátta herstöðvaandstæðinga í ýmsum samtökum hafi orðið þess valdandi, að herinn varð smám saman nánast áhrifalaus í íslensku menningarlífi. Sagnfræðingar hafa nýverið sýnt framá, að einu skiptin sem bandarísk yfirvöld tóku nokkurt mark á máttlitlu andófi íslenskra stjórnvalda gegn ágengni þeirra – eða til að kría út meiri peninga –, var ef þeim tókst að koma þeirri flugu í höfuð viðsemjendanna, að framferði þeirra gæti ella orðið „vatn á myllu kommúnista“.

Það bar nokkuð mikið á Kanaútvarpinu fyrstu árin eftir að hann kom og síðan Kanasjónvarpinu um og uppúr 1960. En eftir að þeirri stöð var lokað hafa bein áhrif hersins verið hverfandi. Sá ameríkanismi, sem mikið er talað um og vissulega getur verið nokkuð yfirþyrmandi, hann er kominn eftir öðrum leiðum, og hann er raunar sá sami um allan heim. Maður finnur hann hvar sem komið er, hvort sem þar hefur verið bandarísk herseta eða ekki, jafnvel austur í Kína.

En snúum okkur aftur að orðinu „varnarlið“ og þeim breyttu tímum sem menn eru að tala um. Vissulega eru breyttir tímar, en öllum ætti samt að vera ljóst, að orðið varnarlið var ævinlega algert rangnefni, ef átt var við varnir Íslands. Spurningin er frekar, hvort stjórnendur Bandaríkjanna héldu virkilega að þeir væru að verja sjálfa sig með öllu því herstöðvakerfi, sem þeir komu sér upp um allan heiminn. Sérstaklega ef leyniþjónustu þeirra var kunnugt um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna til árásar. Hver var þá ástæðan?

dollarsÞetta er alltof langt og flókið mál til að brjóta til mergjar hér og nú. En við, sem ekki erum herfræðingar, mættum samt hugsa aftur um ráðleggingu „Deep Throat“: Follow the Money. Gáið að því hvar hagsmunirnir liggja. Annars vegar hafði nefnilega það sama gerst í Bandaríkjunum og á Íslandi við stríðslokin, aðeins í þúsundfalt stærri stíl. Framleiðsla þeirra, sem höfðu skaffað hernum vopn og vistir í stríðinu, hún tók að dragast óbærilega saman. Það þurfti nýja stríðshættu til að almenningur féllist á nýja skattheimtu til hernaðaþarfa, svo að þessi risavaxna framleiðsla gæti aftur farið í gang. Og það hefði blátt áfram ekki verið hagkvæmt að ljóstra upp um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna.

Hinsvegar gat víða verið þörf fyrir bandarískar herstöðvar til að gæta raunverulegra eða bara hugsanlegra hagsmuna bandarískra fyrirtækja, sem eðli málsins samkvæmt hljóta hvarvetna að reyna að ná fótfestu. Hinir breyttu tímar felast í því að, að hagsmunir bandarískra fyrirtækja í Mið–Austurlöndum sitja nú um stundir í algjöru fyrirrúmi.

Um samskipti hersins og Íslendinga fyrstu áratugina og málflutning herstöðvasinna finnst mér við hæfi að fara með eitt af háðkvæðum Böðvars Guðmundssonar: Þessvegna er þjóðin mín sæl. Ég ætla ekki að reyna að syngja það, bara lesa það:

    Þegar allt var svo yfirtak snautt
    og íslenska þjóðlífið dautt,
    jafnt lúðan á miði sem leikari á sviði
    og lífsbjörgin eina var skömmtunarmiði,
    þá kom amríski herinn og skreið uppá skerin
    á ská yfir landgrunnið blautt.

    Og þeir báðu okkur bústaðar milt
    og þeir blessuðu stúlku og pilt
    svo þjóðin mín hokin með þyrkingsleg kokin
    hún þreif af í skyndingu húfupottlokin
    og reiddi þeim hvílu. – En rússneskri Grýlu
    var réttlega helvíti bilt.

    Nokkrir kotungar suður með sjó
    höfðu sífellt af baslinu nóg.
    Þeir bjuggu í gjótum með blöðrur á fótum
    og bátarnir láku og týndist úr nótum.
    Og allt var að fara til andskotans bara
    og eldur í hlóðunum dó.

    Þessir kotungar blésu í kaun
    og þeir keifuðu vegalaus hraun,
    höfðu ekkert að fela og engu að stela
    og örbirgðin lagði að hjörtunum þela.
    En kvöld nokkurt brá þeim því Kaninn stóð hjá þeim
    og karlarnir skildu ekki baun.

    Þessir kotungar suður með sjó
    hafa síðan af lífsgæðum nóg.
    Með gleði í taugum og glampa í augum
    þeir grafa og róta í verndarans haugum.
    Og hamingjudaga þeir heim til sín draga
    af haugunum sokk eða skó.

    Þar sem áður var lambagraslaut
    er nú lífvænleg flugvélarbraut.
    Þar sem stígur var tregur er steinsteypuvegur
    og standardinn er ekki óbjörgulegur
    því amrískir hemenn og íslenskir vermenn
    eta nú samskonar graut.

Og loks er viðlagið, sem ekki er víst að allir skilji lengur:

    Þeir hugguðu harma og væl
    með morðinu í Dallas og manndómi Calleys,
    með friðarást Dulles og framboði Wallace,
    með stefnuskrá Nixons og stjörnuspá Dixons
    – og þessvegna er þjóðin mín sæl.