Það er löngu komið nóg!

By 14/12/2016 Uncategorized

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Á liðnum dögum hafa borist fregnir af hörmulegu mannfalli í styrjöldum í Miðausturlöndum, einkum frá sýrlensku borginni Aleppo. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í fimm ár og virðist fjarri því að ljúka. Engan veginn er lítið gert úr ábyrgð ýmissa heimamanna þótt bent sé á að stríð þetta hefði aldrei getað orðið svo langvinnt og grimmilegt án mikillar utanaðkomandi aðstoðar.

Fjöldi erlendra ríkisstjórna hefur hellt olíu á eld átakanna með beinni þátttöku, vopnasendingum og fjárstuðningi. Má þar nefna Tyrkland, Rússland, Íran, Bandaríkin, olíuveldi við Persaflóa og Nató-ríki.

Sá nöturlegi veruleiki má nú öllum vera ljóst að enginn stríðsaðili í sýrlensku borgarastyrjöldinni hefur afl til að vinna sigur í hernaði, en eru á sama tíma of sterkir til að tapa. Afleiðingin gæti orðið þrátefli til langrar framtíðar með áframhaldandi hörmungum fyrir íbúanna og niðurbroti samfélagsins.

Stríðinu verður að ljúka! Lykillinn að þeirri lausn er hjá stórveldunum sem í raun halda lífi í stríðinu. Þau verða að semja tafarlaust um vopnahlé og stöðva samstundis allar frekari vopnasendingar á svæðið. Neyðaraðstoð verður að berast stríðshrjáðum íbúum og uppbyggingarstarf að hefjast. Það er löngu komið nóg!