Tafarlausa kjarnorkufriðlýsingu

By 29/11/2009 Uncategorized

Landsráðstefna SHA, haldin 27.-28. nóvember 2009 sendi frá sér eftirfarandi ályktun um kjarnorkuafvopnun:

Samtök hernaðarandstæðinga fagna nýlegum fregnum af því að skriður sé kominn á viðræður Bandaríkjamanna og Rússa um umtalsverða fækkun kjarnorkuvopna á næstu árum. Stefna ber að allsherjarútrýmingu kjarnorkuvopna innan fárra ára. Meðan nokkur herveldi þráast við að viðhalda kjarnorkuvopnabúrum sínum, er ekki við öðru að búast en að fleiri ríki reyni að komast í klúbb þeirra.

Íslendingar geta lagt sitt að mörkum til kjarnorkuafvopnunar heimsins með því að samþykkja tafarlaust friðlýsingu landsins fyrir umferð og geymslu kjarnorkuvopna, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. SHA krefjast þess að Alþingi afgreiði málið eins skjótt og kostur er.