Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 5 hljómaði svo: Með hvaða hætti telur flokkurinn að íslensk stjórnvöld geti best stuðlað að friði á átakasvæðum á borð við Úkraínu, Ísrael og Austur-Afríku?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.
Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðli að friði með mannúðarsjónarmiðum og friðsamlegum lausnum. Flokkurinn vill að Ísland styðji við alþjóðlegar aðgerðir sem miða að því að leysa átök með friðsamlegum hætti og að mannréttindi séu virt. Með því að taka þátt í alþjóðlegum samtökum og styðja við diplómatískar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á átakasvæðum.
Píratar:
Píratar hafa sérstaklega ályktað um Úkraínu og Ísrael. Þar fordæmum við innrás Rússlands í Úkraínu og styðjum úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og bann á öllum vopnaviðskiptum við Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael að láta af árásum sínum. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ.
Miðflokkur:
Sem herlaust land hlýtur öll aðstoð Íslands að taka mið af því.
Sósíalistaflokkurinn:
Íslensk stjórnvöld ættu að tala fyrir tafarlausu vopnahléi á hverju svæði fyrir sig og tala gegn stigmögnun átaka. Þjóðarmorð Ísraels og árásarstríð þeirra í Líbanon þarf að fordæma með afdráttarlausum hætti og kalla eftir efnahagsþvingunum og tafarlausri stöðvun vopnasendinga til Ísraels. Ísland á að styðja málsókn Suður – Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum og beita sjálf efnahagsþvingunum gegn Ísrael. Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna á að hafa efnd til slíkra viðskiptaþvinganna en vegna neitunarvalds Bandaríkjanna hefur sú niðurstaða ekki náðst. Það ber að fordæma harðlega.
Í Úkraínu þarf að tala gegn stigmögnun átakanna og tala fyrir því að samið sé um frið. Ísland á ekki að kaupa vopn heldur styðja mannúðarstarf og uppbyggingu í Úkraínu.
Í Austur Afríku þarf að tala fyrir tafarlausu vopnarhléi, gegn stigmögnun átaka og fordæma ríki sem stigmagna átökin.
Lýðræðisflokkurinn:
Með því að tala skýrt og stöðugt frá sjónarhóli friðar og sátta. Bjóða má fram Höfða í Reykjavík sem samningsvettvang.
Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja öllum íbúum jarðar mannsæmandi kjör er ljóst að deila þarf auðlindum heimsins jafnar. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig völdum og gæðum er dreift jafnt milli ríkja sem innan þeirra, s.s. milli stétta, kynja, þjóðernishópa. Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir. Það sama gildir um önnur átakasvæði í heiminum.