Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 2 hljómaði svo: Hver er afstaða flokksins til þess að Ísland hafi eða hafi ekki eigin her, eða leggi öðrum herjum til hermenn eða vopn? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.
Framsóknarflokkur:
Framsókn styður þá stefnu að Ísland sé herlaust land og leggur áherslu á að viðhalda þeirri stöðu. Flokkurinn vill að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um frið og öryggi án þess að leggja til hermenn eða vopn.
Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki að Ísland eigi að stofna eigin her. Þar af leiðandi er Ísland ekki í aðstöðu til þess að leggja öðrum herjum til hermenn eða vopn.
Píratar:
Sú afstaða hefur undanfarið helst birst í því að þingflokkur Pírata hefur lagt áherslu á að Ísland sé herlaust ríki sem beitir sér fyrir friðsömum lausnum, þannig að þegar hefur t.d. komið að stuðningi við Úkraínu eigi íslensk stjórnvöld að einbeita sér að borgaralegum stuðningi og mannúðaraðstoð. Í því ljósi sat meirihluti þingflokks Pírata hjá þegar kom að atkvæðagreiðslu um þann hluta tillögu um stuðning Íslands við Úkraínu sem snéri að því að borga í sjóði sem kaupa vopn fyrir Úkraínumenn, þó að þingflokkurinn hafi stutt stefnuna að öðru leyti.
Sósíalistaflokkurinn:
Ísland á að vera með öllu herlaus og á aldrei að kaupa vopn. Einnig er stefna Sósíalistaflokksins að engin vopna- og kjarnorkuflutningar megi eiga sér stað í íslenskri landhelgi og lofthelgi.
Lýðræðisflokkurinn:
Að áliti Lýðræðisflokksins hefur það verið hornsteinn utanríkisstefnu lýðveldisins Íslands frá upphafi að Íslandi fari ekki með vopnavaldi gegn öðrum ríkjum. Slíkt ríki, sem ekki hefur eigin her, hefur enga siðferðilega stöðu til að etja öðrum þjóðum út í stríð. Ísland á ekki að fjármagna vopnakaup eða leggja til hermenn. Ákvarðanir um slíkt má ekki nema þjóðin hafi áður veitt samþykki sitt fyrir slíkri stefnubreytingu.
Vinstri græn:
Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, né leggja öðrum til hermenn eða vopn.
Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að efla landamæraeftirlit landsins og styrkja stofnanaumgjörð öryggismála, bæði innan Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Enginn ætlast til þess að Íslendingar vopnist en augljóslega þarf að auka getu og þekkingu til þess að við getum sinnt alþjóðasamstarfi á þessu sviði betur.