Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025 stendur með sjálfsákvörðunarrétti Grænlendinga og hafnar því að örlög smáþjóða og hjálendna séu skiptimynt í baktjaldamakki stórvelda og nýlenduvelda. Að forseti Bandaríkjanna ýi að því að hægt sé að kaupa lönd eða innlima þau með valdi er óverjandi. Eins er það óásættanlegt að danskir stjórnmálamenn tali um Grænland sem órjúfanlegan hluta ríkisins. Ákvörðunin um sjálfstæði Grænlands eða áframhaldandi tengsl við Danmörku liggur eingöngu hjá Grænlendingum sjálfum.
Orðræða bandarískra ráðamanna sem láta sér ekki nægja að hafa herstöð á Grænlandi og sjálfdæmi um hernaðaruppbyggingu þar ætti að vera íslenskum stjórnvöldum víti til varnaðar. Það að bjóða erlendu herveldi aðstöðu og fylgispekt er líklegra til þess að ógna fullveldi landsins og gera það að skotmarki en að tryggja varnir þess.