Skip to main content

Stöðvum þjóðarmorðið á Gasa

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, fordæmir þau grímulausu þjóðarmorð sem Ísraelsríki fremur nú í Palestínu. Landsfundur ítrekar kröfu sína um vopnahlé á Gasa. Koma verður á varanlegum og réttlátum friði, auk þess sem alþjóðasamfélagið verður að styðja við uppbyggingu samfélagsins á Gasa. Íslendingar voru fyrsta landið í Vestur-Evrópu til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og leggur það okkur aukna ábyrgð á herðar að koma Palestínumönnum til varnar á alþjóðavettvangi og tala máli friðar.

Virðingarleysi Ísraelsstjórnar fyrir alþjóðalögum og mannréttindum er algert. Ljóst er að lokatakmark hennar er að hrekja sem allra flesta Palestínumenn úr landi og má samfélög þeirra af yfirborði jarðar. Við þetta njóta þeir fulltingis Bandaríkjastjórnar með þegjandi samþykki Evrópusambandsins. Þetta grefur undan öllum þeim alþjóðlegum lögum, mannréttindum og gildum sem tryggja lágmarks virðingu fyrir mannslífum. Eins hafa ofsóknir gegn Palestínumönnum og málsvörum þeirra grafið undan tjáningarfrelsi og mannréttindum heima fyrir. Skýr afstaða íslenskra stjórnvalda gegn glæpum Ísraels og frumkvæði á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn þeim væri lítið en nauðsynlegt skref í að vinda ofan þessari helstefnu.

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is