Rúm 90% búa í friðlýstum sveitarfélögum

By 13/02/2007 Uncategorized

hornafjordurÞau gleðilegu tíðindi hafa borist að bæjarstjórn Hornafjarðar hefur orðið við hvatningu Samtaka hernaðarandstæðinga og friðlýst sig fyrir umferð og geymslu kjarnorkuvopna. Átak þetta hófst árið 1999, en aðstandendur þess munu ekki linna látum fyrr en hvert einasta sveitarfélag hefur gert slíka samþykkt – og Alþingi Íslendinga fylgt í kjölfarið.

Einungis átta sveitarfélög standa nú eftir. Fimm þeirra eru á Reykjanesskaga en hin þrjú eru Garðabær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru landsmenn 307.261 þann 1. desember síðastliðinn. Samanlagður íbúafjöldi hinna ó-friðlýstu sveitarfélaga var þá 28.825, eða um 9,4% af landsmönnum öllum.

SHA óska Hornfirðingum til hamingju með að hafa lagt sín lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar í heiminum.