NATO og norræn samvinna

By 02/03/2014 Uncategorized

Þegar Bandaríkjamenn réðust á Afghanistan í október 2001 höfðu þeir lítið lögmæti til þess. Eftir hryðjuverkaárásirnar mánuði fyrr var auðvitað ljóst að bregðast þurfti við og draga hryðjuverkamennina til saka. Þann 13. september, tveimur dögum eftir hryðjuverkin, barst boð frá Talibönunum um að Bin Laden yrði framseldur gegn framvísun sönnungargaga um sekt hans. Því var ekki tekið.

Stofnsáttmáli Sameinuðu þjóðanna mælir fyrir um að aðildarríki skuli leysa í ágreiningi sín á milli með friðsamlegum hætti. Herum má aðeins beita í sjálfsvörn. Undantekningin á þessu getur aðeins orðið ef Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir slíka hernaðaraðgerð.

Afskipti af Afghanistan

Að lýsa yfir stríði með einhliða hætti, með því að hefja sprengjuárásir 7. október var það versta sem Bandaríkjamenn gátu gert. Ekki lá fyrir ályktun öryggisráðs S.Þ. um slíka hernaðaraðgerð. Rúmum tveimur mánuðum eftir upphaf árásarstríðs Bandaríkjanna (20. desember) ályktaði Öryggisráðið loks um hernaðarbrölt í Afghanistan. Þá var samþykkt að stofna alþjóðlegt lið öryggissveita til þess að tryggja friðinn í Kabúl. Þessar sveitir fengu heitið ISAF (International Security Assistance Force).

Tillaga um stofnun slíks öryggisliðs var lögð fram af Jack Straw, þáverandi utanríkisráðherra Bretlands, og byggði á niðurstöðum Bonn-samkomulagsins svonefnda. Á Bonn-ráðstefnunni sem haldin var til undirbúnings mættu 25 áhrifamenn með tengingu við stjórnmál í Afghanistan. Margir þeirra sem sátu ráðstefnuna fengu áhrifastöður í nýrri ríkisstjórn Hamid Karzai. Þeirra á meðal er dr. Mohammad Ishaq Nadiri, afganskur innflytjandi til Bandaríkjanna sem hefur verið prófessor við New York-háskóla frá 1975 og er meðlimur í áhrifamiklum samtökum um bandaríska utanríkisstefnu, Council on Foreign Relations.

Atburðarásin er því eitthvað á þessa leið:

  1. Gerð er hryðjuverkaárás á Bandaríkin 11. september 2001
  2. Bandaríkin hefja árásarstríð gagnvart Afghanistan enda þótt slík aðgerð sé ólögmæt að alþjóðalögum
  3. Vesturveldin hrúga saman afgönsku áhrifafólki í Bonn til þess að plana framhaldið. Fremstur meðal jafninga er Hamid Karzai sem hefur sterk tengsl við Bandaríkin.
  4. Tveimur mánuðum eftir innrásina samþykkir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að tillögu hóps fólks sem þau stefndu saman um að stofna öryggissveitir til þess að tryggja öryggi á svæði sem eitt þeirra réðist með ólögmætum hætti inn á.

Málþingið í Norræna húsinu

Með þetta á bak við eyrað mætti undirritaður á málþing sem haldið var í Norræna húsinu 18. febrúar s.l. Þar tóku til máls:

  • Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, utanríkisráðuneytinu
  • Arto Räty, ráðuneytisstjóri finnska varnarmálaráðuneytisins
  • Veronika Wand-Danielsson, sendiherra Svíþjóðar gagnvart Atlantshafsbandalaginu
  • Morgen Haga Lunde, hershöfðingi yfirmaður herstjórnarmiðstöðvar norska hersins
  • Robert G. Bell, varnarmálaráðgjafi fastafulltrúa Bandaríkjanna hjá NATO

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ var fundarstjóri.

Öll erindin voru einstaklega leiðinleg eins og gefur að skilja. Þessum embættismönnum og hermönnum er stefnt hingað til Íslands svo að herflugvélarnar þeirra geti spanderað rándýru flugvélaeldsneyti og flugmennirnir þeirra æft sig annars staðar en framan við skjáinn. Fólkinu langar líklega mest að kíkja á Geysi og borða hjá veislukokkunum í Bláa lóninu í boði skattborgara. Þess í stað þarf það að gefa þurra skýrslu um stöðlun hergagna milli Norðurlanda.

Robert G. Bell talaði um “Framtíðarþróun Atlantshafsbandalagsins: Sjónarhorn Bandaríkjanna”. Það er raunar merkilegt að enginn fjölmiðill skyldi pikka upp á því. (Höfum við misst metnaðinn? Ætluðu kratarnir ekki með okkur í sjálft Öryggisráðið?) Eins og Björn Bjarna orðar það er Bell “í hópi hæst settu bandarísku embættismanna sem talað hafa á opinberum fundi hér á landi síðan varnarliðið fór.” Gott og vel. Hann talaði um að endurstilla (e. reset) ætti bandalagið eftir “high-tempo” verkefni á fyrsta áratug 21. aldarinnar. Það rímar vel við  yfirlýsingar Rumsfelds um umbreytingu á hernaðarmætti BNA (e. transformation). Herseta í fjarlægum löndum er hefur ekki verið vinsæl frá Víetnamstríðinu.

Stefna BNA gagnvart NATO

Bandaríkin hafa átt í nóg með mannfrekar aðgerðir í Mið-Austurlöndum og vilja leggja áherslu á hernaðarmátt sem stoppar stutt við en veldur miklum skaða. Drónaárásir eru fyrirtaksdæmi um slíka áherslubreytingu. Þegar ég spurði Bell út í það hvort við mættum eiga von á mannfalli saklausra borgara í framtíðarverkefnum NATO svaraði hann því til að mannfall saklausra borgara í seinni heimstyrjöldinni hefði verið töluvert meira! Að gera slíkan samanburð er vitaskuld fráleitt þar sem hernaðaraðgerðinar hafa ekki sama lögmæti heldur eru aðgerðirnar í Afghanistan þvert á móti án lögmætis. Því næst hafði hann eftir möntruna um að tækni væri sífellt að verða fulkomnari.

Áður en ég fór á málþingið reyndi ég að lesa mér aðeins til um stöðu mála í dag. Þá rakst ég á eftirfarandi frétt á vef Guardian: US commander in Afghanistan apologises for Helmand drone strike. Núverandi yfirmaður NATO-heraflans í Afghanistan hringdi í Karzai í nóvember síðastliðinn til þess að biðjast afsökunar á því að drónar hefðu myrt barn með köldu blóði – af því að hann vill helst að Karzai undirriti samning um að bandarískar hersveitir verði áfram eftir að núverandi samningur um veru þeirra rennur út í árslok.

Samkvæmt fréttinni hafði Dunford hershöfðingi samband af því að hann vildi að Karzai undirritaði framlenginu á samningu um hervernd. Ekki af því að það að myrða saklaus börn er stríðsglæpur.

Grafið hérna ofan sýnir mánaðarleg mannfall bandamanna í Afghanistan, talan stóð í 3.423 þann 15. febrúar sl.l Enn hefur enginn bent undirrituðum á gagnsemi stríðsins sem farið var í fyrir rúmum 13 árum síðan.