Myndin af Anders Fogh

By 11/08/2014 Uncategorized

Birgitta Bergþóru- Jónsdóttir þingmaður Pírata vakti í dag athygli á sérkennilegri mynd af Anders Fogh Rasmusen fv. forsætisráðherra Dana og núverandi framkvæmdastjóra Nató. Myndin, sem fylgir þessari frétt er óneitanlega sérkennileg og sýnir stjórnmálamanninn glaðhlakkalegan, að því er virðist með orrustuþotu í eyðimerkurfjalllendi í bakgrunninum.

Sú spurning vaknaði vissulega hvort myndin endurspeglaði sjálfsmat Rasmusens, enda hafa allmargir orðið til að deila myndinni á samfélagsmiðlum.

Listakonan á bak við verkið heitir hins vegar Simone Aaberg Kærn. Á heimasíðu hennar má sjá ýmis verk þar sem listakonan tekst á við grundvallarspurningar um stríð og frið. Undir yfirskriftinni Art in War lýsir hún reynslu sinni af átakasvæðum í Lýbíu og Afganistan.

En hver er þá boðskapur listaverksins með Anders Fogh og herþotunni? Tjah, það er ekki ennþá ljóst. Eins og listakonan útskýrir er verkið enn í sköpun og hún stefnir að því að skrifa bók um ferlið, hugmyndafræðina á bak við verkið og viðbrögðin við því.