Landsfundur SHA

By 12/03/2016 Uncategorized

fyrirfridi40arLandsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga fór fram í dag. Fundurinn var afar líflegur og samþykkti fundurinn m.a. þrjár ályktanir; Um uppsögn Varnarsamningsins, um kjarnorkuafvopnum og um skipbrot íhlutunarstefnu. Ályktanirnar má sjá hér að neðan með því að velja halda áfram að lesa. Fundurinn samþykkti jafnfram að koma á fót lyftusjóði með það að markmiði að tryggja hjólastólaaðgengi fyrir félaga.

Auður Lilja Erlingsdóttir var endurkjörin formaður samtakanna en miðnefnd næsta starfsárið skipa annars: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson, Unnur Tryggvadóttir Flóvenz, Guðbjartur Jón Einarsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Elín Sigurðurðardóttir og Bjarni Þóroddsson voru kjörin varamenn, en ekki er hefð fyrir að gera greinarmun á aðal- og varamönnum í starfi miðnefndar.

Að loknum aðalfundarstörfum fjallaði Þorbjörn Kristjánsson heimspekingur um siðfræði drónahernaðar.

Ályktun um uppsögn Varnarsamningsins

Við brottför Bandaríkjahers frá Íslandi árið 2006 var herstöðvarsamningnum frá 1951 ekki sagt upp. Ljóst var frá upphafi að bandarísk hernaðaryfirvöld hafa alla tíð haft fullan hug á að halda hér úti viðbúnaði sem auka mætti með skömmum fyrirvara og meðal íslenskra ráðamanna hafi ýmsir verið sama sinnis.

Nýlegar fregnir af áhuga Bandaríkjahers á aukinni aðstöðu, meðal annars með umfangsmiklum breytingum á flugskýlum á Keflavíkurflugvelli, eru til marks um þennan áhuga. Sama máli gegnir um auknar herflugsæfingar sem ganga undir dulnefninu loftrýmisgæsla.

SHA minna á þá kröfu sína að svokölluðum Varnarsamningum verði þegar sagt upp, enda eru þeir í raun einhver stærsta ógnin við öryggi þjóðarinnar. Jafnframt verði heræfingarnar Norðurvíkingur aflagðar og látið af komum þotusveita til Keflavíkur.

 

Ályktun um kjarnorkuafvopnun

Samtök hernaðarandstæðinga telja vítavert að íslensk stjórnvöld skuli ekki skipa sér í sveit með þeim þjóðum sem vinna að kjarnorkuafvopnun á alþjóðavettvangi. Þess í stað greiða Íslendingar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ítrekað atkvæði með kjarnorkuveldum Nató eða leyfa sér í mesta lagi að sitja hjá. Slík afstaða er óafsakanleg og ekki í nokkru samræmi við viðhorf þorra landsmanna. Ísland á og verður að vera málsvari afvopnunar í alþjóðlegu samstarfi.

Blikur eru á lofti á sviði kjarnorkuvígbúnaðar. Bandaríkin og Rússland leggja um þessar mundir háar fjárhæðir í endurnýjun kjarnorkuvopnabúra sinna og það sama gera Bretar og Kínverjar. Áform Nató um gagneldflaugakerfi munu óhjákvæmilega auka enn hættuna á vígbúnaðarkapphlaupi og valda því meðal annars að kjarnavopn eru í vaxandi mæli flutt í kafbáta með tilheyrandi slysahættu. Norður-Kórea vinnur hörðum höndum að eflingu kjarnorkuhers síns og margt bendir til að Sádi-Arabía sé nærri því að eignast slík vopn.

 

Ályktun um skipbrot íhlutunarstefnu

Evrópa stendur frammi fyrir mesta flóttamannastraumi frá lokum síðari heimsstyrjaldar, þótt raunar sé fjöldi þeirra Sýrlendinga sem leitað hafa til Evrópu mun minni en þeirra sem hafast við í yfirfullum grannríkjum Sýrlands.

Þessi flóttamannabylgja er afleiðing af stefnu og gjörðum Evrópuríkjanna sjálfra. Drjúgur hluti fólksins flýr Afganistan, þar sem Nató-ríki hafa staðið í stríði í nærri fimmtán ár. Árið 2011 hóf hernaðarbandalagið árásir á Líbýu sem hafa leitt til viðvarandi óaldar. Í Sýrlandi réru ýmis stórveldi og bandalög tengd þeim undir borgarastyrjöldinni og bera þunga ábyrgð á dauða hundruða þúsunda.

Augljóst má vera að Nató-ríkið Tyrkland gegnir lykilhlutverki í stuðningi við vígasveitir í Sýrlandi og Írak. Má færa gild rök fyrir því að ISIS-samtökin illræmdu eigi gengi sitt ekki hvað síst að þakka tyrkneskum stuðningi. Þessa framgöngu hafa önnur Nató-ríki verðlaunað með því að lýsa yfir fullum stuðningi við hernað Tyrkja gegn Kúrdum. Til að bíta höfuðið af skömminni tekur Nató nú að sér það hlutverk að gæta siglingaleiða á Miðjarðarhafi til að hindra för örvæntingarfulls fólks á flótta undan ástandi sem Nató-ríkin áttu sjálf stóran þátt í að skapa. Jafnframt taka samtökin undir þá kröfu að stjórnvöld í Evrópu tryggi fólki á flótta örugga leið til og innan Evrópu. Hið sama ætti einnig að eiga við um stjórnvöld utan Evrópu. Siðferðislegt gjaldþrot bandalagsins er algjört. SHA minna á kröfu sína um Ísland úr Nató.

 

Stofnun lyftusjóðs

Á starsfárinu 2015-2016 kannaði miðnefnd möguleika á að bæta aðgengi að Friðarhúsi og kostnaði því tengdan en miðnefnd telur að ekki verði hægt að víkjast undan því mikið lengur að tryggja hjólastólaaðgengi fyrir félaga svo við fáum öll notið þess góða starfs sem fram fer í Friðarhúsi.

Kostnaður við lyftu með uppsetningu er um 1,6 mkr. Lyfturekstri fylgir sú þörf að gera þjónustusamning um úttektir og viðhald svo að vinnueftirlitið samþykki þær í sínum úttektir Kostnaður við úttektir og þjónustusamninga er um 100 þrk á ári. Til viðbótar lyftunni þyrfti að skoða uppfærslu á salerni, kostnaður við þá uppfærslu er talinn á bilinu 200-400 þ.kr. Ætla má því að upphafskostnaður sé um 2 m.kr. og árlegur rekstrarkostnaður um 100 þ.kr. Inni í því er ekki viðhaldskostnaður.

Það er því ljóst að ekki er hægt að ráðast í verkefnið sökum kostnaðar nema með samhentu átaki félaga. Lagt er til að taka fyrsta skrefið í fjársöfnun fyrir þetta verkefni með því að setja á stofn sérstakan lyftusjóð. Starfsemi sjóðsins verður á ábyrgð miðnefndar og í samráði við eiganda hússins.