Kertafleytingar 9. ágúst

By 02/08/2024 August 6th, 2024 Viðburður
Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir kertafleytingu til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Komið verður saman við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar kl. 22:30. Tómas Jóhannesson eðlisfræðingur flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Elín Oddný Sigurðardóttir verður fundarstjóri. Flotkerti verða seld á staðnum og kosta 1.000 krónur.
Árið 1945 vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí. Borgirnar urðu rústir einar og gríðarlegur fjöldi fólks fórst eða örkumlaðist. Upp frá því hefur ógnin um beitingu kjarnorkuvopna vomað yfir mannkyni. Sjaldan hefur hættan á kjarnorkustríði verið meiri en einmitt um þessar mundir.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba
kjarnorkuárásanna og minnt á kröfu sína um veröld án kjarnorkuvopna með því að fleyta kertum, ýmist á Hírósíma- eða Nagasakí-daginn. Í ár verður seinni dagsetningin fyrir valinu, föstudaginn 9. ágúst verður kertum fleytt á fjórum stöðum á landinu.
Á Ísafirði verður kertum fleytt við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:30 þar sem Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp. Akureyringar og Seyðfirðningar hefja leik hálftíma fyrr. Á Seyðisfirði verður safnast saman við tjörnina fyrir framan grunnskólann en Akureyringar fleyta við Leirutjörn, þar sem Ragnar Sverrisson flytur ávarp.
Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á