Haustverður Friðarhúss – 30.okt.

By 26/10/2015 Uncategorized

Sjálfbærni – nýtni – friður

Haustið er tími uppskerunnar og tími breytinga. Föstudagskvöldið 30. október njótum við ávaxta sumarsins með eftirminnilegum hætti og hugum að sjálfbærni og nýtni með frið í huga. Bræðurnir, Friðrik og Gísli Hrafn Atlasynir sjá um matseldina með ilmríkri aðstoð Systu og Elvars í Friðarhúsi að ógleymdri móður þeirra bræðra, henni Unni. Margt af því góðgæti sem borið verðurá borð var ræktað í sumar af ást og alúð af pabba bræðranna, honum Atla.

• Slátur hins alþjóðlega friðarsinna. Blóðmör og lifrarpylsa á gamla góða mátann með kryddi í tilveruna.

• Sviðasulta eða hægelduð svið í eigin hlaupi að hætti Elvars í Friðarhúsi.

• Kryddlegin hjörtu að hætti Systu í Friðarhúsi.

• Draumur grænmetisáhugamannsins og friðarsinnans: Nýupptekið og hægeldað rótargrænmeti, kryddað af kúnst og friði.

• “Appelsína norðursins” (gulrófan) maukuð í ljúffenga stöppu.

• Nýupptekin jarðepli úr bakgörðum friðarsinna (fjarri Sámi frænda)

• Rabbarbaraeftirréttur lífsins að hætti Unnar ásamt ljúfmöluðu kaffi.

Að borðhaldi loknu mun rithöfundurinn Bjarni Bernharður lesa upp úr magnaðri nýútkominni bók sinni & Fjólurnar flytja nokkur lög en þær skipa Hafþór Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson, Margrét Arnardóttir, Sigurjón Daðason og Ævar Örn Sigurðsson.

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000.