Sú harmafregn hefur borist að lista- og fræðimaðurinn Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, hafi látist í bílslysi þann 3. janúar. Goddur var einn helsti sérfræðingur landsins um sögu myndrænnar miðlunnar og hafði sérstakan áhuga á pólitískri myndlist.
Vegna þeirra rannsókna sinna varð hann tíður gestur á Skjala- og heimildasafni Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, þar sem finna má fjölda veggspjalda, barmmerkja, kápumynda og annars efnis tengt sögu friðarbaráttunnar, en íslenskir friðarsinnar hafa alla tíð haft á að skipa frábæru myndlistarfólki. Var hann einnig iðinn við að vekja athygli nemenda sinna í Listaháskólanum á safnkostinum.
Goddur var meðal kaflahöfunda í bókinni „Gengið til friðar: Saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju 1946-2006“, sem út kom fyrir rúmu ári. Kafli hans nefndist „Myndmál hernaðarandstæðinga og friðarsinna“ og hafði að geyma mikið myndefni úr baráttunni auk fræðilegra útlegginga.
Samtök hernaðarandstæðinga sjá á eftir öflugum fræðimanni og góðum vini. Aðstandendum eru vottaðar innilegar samúðaróskir.