Frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

By 17/11/2008 Uncategorized

Í dag, 17. nóvember, var í níunda sinn lagt fram á Alþingi frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum. Síðast var frumvarpið lagt fram í lok febrúar í fyrra en kom ekki til umræðu. Þá voru flutningsmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Svo er einnig nú og er frumvarpið reyndar lagt fram óbreytt frá því í fyrra. Flutningsmenn eru Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Kristinn H. Gunnarsson, og Katrín Jakobsdóttir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Á því hálfa ári sem er frá framlagningu frumvarpsins hefur það helst borið til tíðinda að fleiri kalla nú á friðlýsingu Norðurpólsins fyrir kjarnorkuvopnum. Til marks um það eru yfirlýsingar hinna kanadísku Pugwash-samtaka friðarsinnaðra vísindamanna og hvatning japanska friðarfrömuðarins Daisaku Ikeda, en bæði Pugwash og Ikeda eru handhafar friðarverðlauna Nóbels. Verði af friðlýsingunni eykur það enn á mikilvægi þess að Ísland geri slíkt hið saman, enda færðust flutningaleiðir kjarnorkuvopna þá í einhverjum tilvikum nær landinu en ella.“

Sjá frumvarpið hér: www.althingi.is/altext/136/s/0163.html

Á landsráðstefnu SHA, sem haldin var síðastliðinn laugardag, 15. nóvember, var samþykkt ályktun þar sem lýst var stuðningi við þetta frumvarp og þingmenn hvattir til að samþykkja það. Það ætti ekki að þurfa að eyða löngum tíma í svo sjálfsagt og margflutt mál, þannig að við hljótum að vona að þingið taki það til afgreiðslu sem fyrst. Sjá nánar Ályktun um kjarnorkuvopnafriðlýsingu landsins.

Sjá nánar um hugmyndina um kjarnorkuvopnalaust norðurskaut:

„Let’s keep the Arctic free of nukes,“ International Herald Tribune, 21. mars 2008
Dr. Adele Buckley, „Establishing a nuclear weapon free zone in the Arctic,“ Thinkers Lodge, Pugwash, NS, Canada, July 11, 2008 (pdf-skjal)
„Canadian Pugwash Call for an Arctic Nuclear-Weapon Free Zone,“
24 August 2007 (pdf-skjal)

Sjá einnig „NPT-samningurinn og kjarnorkuafvopnun“