Friðarvika SGI í Bæjarbíói

By 09/11/2015 Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga vekja athygli á þessari samkomu á vegum friðarsamtakanna SGI, sem hafa um árabil verið í hópi aðstandenda friðargöngu á Þorláksmessu og kertafleytingar á Reykjavíkurtjörn:

Vikuna 9.-13. nóvember verður haldin friðarvika í Bæjarbíó. Formleg opnun verður þriðjudaginn 10. nóvember kl. 18.00 og eru allir velkomnir.

Í andyri bíósins verður sett upp fræðslusýningu um frið og afvopnun kjarnorkuvopna sem ber nafnið Frá stríðsmenningu til friðarmenningar og í bíósalnum verður sýnd 25 mínútna fræðslumynd um friðar- og mannréttindarmál sem heitir Frá öðru sjónarhorni (Another way of seeing things).

Lögð verður sérstök áhersla á að bjóða nemendum og ungu fólki að koma og kynna sér friðarmál. Þetta er í sjöunda skipti sem við höldum slíka fræðslusýningu um friðar, umhverfis og mannréttindamál en við höfum áður haldið sýningarnar Gandhi, King, Ikeda: Friður fyrir komandi kynslóðir í Gamla bókasafninu og síðar í Ráðhúsi Reykjavíkur, Fræ breytinga og jarðarsáttmálinn í Gamla bókasafninu, Perlunni og síðan í Ráðhúsi Reykjavíkur og síðan var þessi sýning sem við bjóðum upp á núna sett upp í Ráðhúsi Reykjavíkur árið 2013 og þáverandi menntamálaráðherra opnaði sýninguna.

Frá stríðsmenningu til friðarmenningar er fræðslusýning sem fjallar um friðarmál og ógnina sem stafar af kjarnorkuvopnum. Sýningin setur fram afdráttarlausa kröfu um að þessum vopnum verði útrýmt. Bent er á hvaða leiðir hægt er að fara til að það verði að veruleika og hvað einstaklingurinn geti gert til þess að leggja að mörkum til friðar- og mannréttindamála í sínu nánasta umhverfi. Um er að ræða veggspjöld með ljósmyndum og myndtexta.

Sýningin var hönnuð af Soka Gakkai International (SGI), sem eru alþjóðleg mannúðar- og friðarsamtök búddista. Sýningin var fyrst sett upp í New York árið 2007 til að vekja athygli almennings og ekki síst ungmenna á hugmyndinni um friðarmenningu. Síðan hefur sýningin verið sett upp á yfir 200 stöðum í 24 löndum þar á meðal hjá Sameinuðu þjóðunum, í þinghúsinu á Nýja Sjálandi og Ráðhúsi Reykjavíkur.

Frá öðru sjónarhorni (Another way of seeing things) er stutt fræðslumynd um friðar- og mannréttindamál sem bandarískir kvikmyndagerðarmenn gerðu árið 2004 upp úr ritgerð sem japanski rithöfundurinn og friðarfrömuðurinn Daisaku Ikeda (en hann var einmitt tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels nú í ár) skrifaði eftir 11. september. Þar minnist hann gamals vinar síns Arnolds J. Toynbee, sem var virtur breskur sagnfræðingur en árið 1921 fjallaði hann um stríðið á milli Grikklands og Tyrklands fyrir London Guardian. Allur fréttaflutningur fram til þessa hafði verið algerlega einhliða frá sjónarhorni Grikkja sem voru kristnir og fjallað var um múslima sem illa og af miklum fordómum. En Toynbee hafði hugrekki til að gera það sem enginn hafði áður gert. Hann fjallaði um mannsföll hjá Tyrkjunum og hörmungum sem þeir höfðu orðið fyrir. Hann var í kjölfarið rekinn frá Háskólanum í London fyrir að vera vinveittur múslímum.

Í myndinni tengir Daisaku Ikeda þetta atvik við vaxandi fordóma í heiminum í dag, og hversu mikilvægt það er að láta ekki blekkjast af einhliða fréttaflutningum og fordómum. Hann hvetur fólk til að skoða allar hliðar máls, horfa með gagnrýnum augum á fréttaflutning, og láta ekki glepjast af fordómum. Það skiptir ekki máli hverrar trúar við erum, hverrar þjóðar eða neitt annað, öll erum við manneskjur sem þráum frið og öryggi. Óskarsverðlaunahafinn F. Murray Abraham talar inn á myndina en hún vann m.a Chris Award á Columbus International Film Festival árið 2004.