Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.
Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.
Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.
Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.
Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.