Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna ályktar um heimsókn vopnasala

By 08/11/2007 Uncategorized

Vegna frétta undanfarinna daga um fund æðstu yfirmanna vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE Systems vill borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna koma því á framfæri að hann harmar að Reykjavík sé með þessum hætti gert að vettvangi fundarhalda stjórnenda í þessum ógeðfellda iðnaði. Minnt er á að BAE Systems er stærsti vopnaframleiðandi Evrópu og einn sá stærsti í heimi. Fyrirtækið er þekkt fyrir að selja vopn til ríkja þar sem takmörkuð virðing er borin fyrir lýðræði og mannréttindum og má þar einna helst nefna Sádi-Arabíu og Indónesíu. Fyrirtækið hefur sömuleiðis setið undir ásökunum um stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmálamanna og einræðisherra víða um lönd í tengslum við vopnasölusamninga.

Borgaryfirvöld hafa á síðustu misserum viljað kynna Reykjavík sem miðstöð friðar og má í því sambandi nefna Friðarsúlu Yoko Ono sem sett var upp í Viðey á dögunum. Fundir og kaupstefnur vopnaframleiðenda geta ekki samrýmst því markmiði og sömu sögu má raunar segja um ráðstefnur á borð við þá sem hernaðarbandalagið NATO hélt hér nýverið.

Borgarstjórnarflokkur VG minnir sömuleiðis á andstöðu Vinstri grænna við heræfingar í borgarlandinu og “kurteisisheimsóknir” herskipa í hafnir Reykjavíkur.

Sjá www.vg.is