Skip to main content

Fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður til styrktar Friðarhúsi verður haldinn að kvöldi föstudagsins 16. desember og hefst kl. 19. Húsið verður opnað hálftíma fyrr. Yfirkokkur að þessu sinni verður Guðrún Bóasdóttir, en máltíðin kostar litlar 1.000 krónur. Léttar veitingar á vægu verði.

Friðarpípan – spurningakeppni SHA

By Uncategorized

SpurningakeppniFriðarpípan, reyklaus spurningakeppni, verður haldin laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi. Keppt verður eftir hefðbundnu pöbb-kviss fyrirkomulagi (í tveggja manna liðum) og hefjast leikar kl. 16 og stendur gamanið framundir kvöldmat.

Aðalspurningakeppnin (30 spurningar, almenns eðlis) verður í umsjón Kolbeins Óttarssonar Proppé, en einnig verður boðið upp á tvær styttri keppnir. Steindór Jónsson sér um spurningakeppni með yfirskriftinni “Samsæriskenningar” og spurningatvíeykið Ólíver Stón spyr um “Söngvaskáld og tengd efni”. Verðlaun verða veitt fyrir alla flokka.

Léttar veitingar á vægu verði. Allir velkomnir.

Krásir

By Uncategorized

KokkurFöstudagskvöldið 16. desember verður efnt til fjáröflunarmálsverðar í Friðarhúsi, þar sem friðarsinnar geta kýlt vömbina fyrir aðeins 1000 krónur. Yfirkokkur verður Guðrún Bóasdóttir (Systa) og vita þá matgæðingar að von er á góðu.

Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Meðan á veislunni stendur mun Birgitta Jónsdóttir skáldkona lesa úr nýútkominni bók sinni og Hrund Ólafsdóttir leikskáld ýtir úr vör umræðum um mótmæli, en það er einmitt viðfangsefni leikrits hennar, Frelsi, sem sýnt hefur verið við góðar undirtektir í Þjóðleikhúsinu.

Matseðill föstudagskvöldsins liggur nú fyrir, en hann er á þessa leið:

* Arabískur karrý-kjúklingaréttur
* Rauðrófupottréttur
* Rauðkálssalat að asískum hætti
* Rauðrófur í hvítlaukssósu
* Hrísgrjón

Léttar veitingar á vægu verði.

Allir velkomnir.

Áhrifamikil ræða Nóbelsverðlaunahafans Harold Pinter

By Uncategorized

PinterÞað var friðasinnnum sérstakt ánægjuefni að Nóbelsverðlaunin voru þetta árið veitt breska leikritaskáldinu Harold Pinter. Harold Pinter hefur auðvitað löngu sannað sig sem eitt ágætasta leikritaskáld síðustu aldar, en þar fyrir utan hefur hann verið óþreytandi baráttumaður fyrir friði og réttlæti og hefur tekið virkan þátt í andófinu gegn innrásinni í Írak og hernáminu.

Ræða, sem Pinter flutti í tilefni verðlaunaafhendingarinnar 7. desember, hefur vakið mikla athygli og sýnist sitt hverjum. Í upphafi ræðu sinnar rifjar hann upp gömul ummæli sín um að hlutur þurfi ekki endilega að vera annaðhvort sannur eða ósannur, hann geti bæði verið sannur og ósannur. Hann segist enn telja mikið til í þessu, einkum þegar veruleikinn er kannaður gegnum listina. En sem borgari geti hann ekki fallist á þetta. „Sem borgari verð ég að spyrja: Hvað er satt? Hvað er ósatt?“ Hann víkur síðan að leikritum sínum og frá tali um leikritið Mountain Language, sem hann skrifaði árið 1989 og lætur gerast í ónefndu fangelsi fyrir pólitíska fanga, leiðir hann talið að Abu Grail-fangelsinu í Baghdad, réttlætingunum fyrir innrásinni í Írak og ósannindunum í þeim og loks þróast ræðan yfir í samfellda ákæru gegn heimsvalda- og yfirgangsstefnu Bandaríkjanna og undirlægjuhátt breskra stjórnvalda.

Ræðu Pinters má nálgast á bæði ensku og sænsku á vefsíðu Nóbelsnefndarinnar og einnig á heimasíðu skáldsins sjálfs. Umsagnir um ræðuna hafa birst víða, m.a. í bresku blöðunum Guardian og Observer og íslenska vefritinu Vefþjóðviljinn.