Skip to main content

Öryggi og varnir Íslands

By Uncategorized

rumsfield Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til ályktunar um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands. Flutningsmenn eru fjórir þingmenn Samfylkingarinnar. Samtökum herstöðvaandstæðinga barst beiðni um umsögn um ályktunina og fylgir hún hér að neðan. Tillöguna og umræður um hana má finna á vef Alþingis.

Reykjavík
9.janúar 2006

Umsögn um þingsályktunartillögu um öryggi og varnir Íslands, 40. mál á 132 löggjafarþingi

Samtök herstöðvaandstæðinga fagna því að fram sé komin tillaga um að gera opna og lýðræðislega úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi. Samtökin hafa um árabil bent á nauðsyn þess að þingheimur bregðist við þeirri staðreynd að stríðsátökum í Kóreu sé lokið, en það var yfirlýst forsenda hins svokallaða varnarsamnings frá 1951. Mikilvægt er að Alþingi eigi frumkvæði að því að brugðist sé við nýrri skipan alþjóðamála, fremur en að sú vinna eigi sér stað innan lokaðra stofnana og af hálfu embættismanna sem ekki hafa lýðræðislegt umboð til stefnumótunar í þessum mikilvæga málaflokki.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að tekið sé mið af reynslu nágrannaþjóða og er vel til fundið að nefna Írland í því samhengi, þar sem Írar hafa kosið að starfa utan hernaðarbandalaga án þess að meiri ógn steðji að landinu af þeim sökum en t.d. Íslandi. Hlutleysisstefna Íra hefur gert þeim kleift að móta utanríkisstefnu sem tekur meira mið af almannavilja en afstaða ríkja sem eru innan NATO og eru rígbundin af samþykktum þess. Til að mynda hefur Írland greitt atkvæði með tillögu um útrýmingu kjarnorkuvopna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en Íslendingar hafa verið í þeim fámenna hópi ríkja sem greitt hafa atkvæði gegn slíkri tillögu eða setið hjá.

Engar vísbendingar eru um að sú afstaða sé í samræmi við vilja íslensku þjóðarinnar, hér hefur aðild Íslands að NATO einfaldlega í för með sér að utanríkisstefna Íslands mótast af öðrum hagsmunum en meirihlutavilja fámennrar þjóðar í viðkvæmu vistkerfi á Norður-Atlantshafi. Í því sambandi má vísa til undirtekta sveitarstjórna víða um land við áskorun Samtaka herstöðvaandstæðinga fyrir nokkrum misserum um að þau friðlýstu sig fyrir kjarnorkuvopnum, en meira en 90% landsmanna búa nú í friðlýstum sveitarfélögum.

Enda þótt samþykkt tillögunnar vísi til framfara er ekki þar með sagt að Samtök herstöðvaandstæðinga geti tekið undir allt sem fram kemur í greinargerð þeirri sem tillögunni fylgir. Þar ber ennþá á tregðu við að taka stöðu og hlutverk NATO á nýjum tímum til róttæks endurmats. Ljóst er að loftárásir á Júgóslavíu vorið 1999 hafa vakið upp spurningar um eðli bandalagsins og tilvist þess. Starf NATO sem undirverktaka Bandaríkjahers í Afganistan gerir þetta bandalag sömuleiðis að ótrúverðugum aðila til annarra verka en að framkvæma þá pólitík sem ákveðin er hverju sinni í Washington. Brýnt er að þingheimur geri sér grein fyrir eðli og tilgangi NATO ef ætlunin er að taka utanríkisstefnu Íslands til gagnrýninnar og löngu tímabærrar endurskoðunar.

Miðvikudagsfundur í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÁ miðvikudagskvöldum verða uppákomur í Friðarhúsi í allan vetur. Miðvikudagskvöldið 11. janúar verður almennur félagsfundur þar sem fjallað verður um starfsemina fram á vor, t.d. þátttöku Íslendinga í alþjóðlegum aðgerðum 18.-20. mars eins og lesa má um hér að neðan.

Fundurinn er öllum opinn og hefst kl. 20.

Aðgerðir gegn Íraksstríðinu 18.-20. mars

By Uncategorized

stopthewar Þann 20. mars næstkomandi verða liðin þrjú ár frá því innrásin í Írak hófst. Undanfarin tvö ár hafa verið mótmælaaðgerðir í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar í kringum þann dag, þar á meðal á Íslandi.

Nú er hafin undirbúningur að aðgerðum í Bandaríkjunum og Bretlandi. Samtökin ANSWER (Act Now to Stop War & End Racism) í Bandaríkjunum hafa boðað aðgerðir laugardaginn og sunnudaginn18. mars og 19. mars og síðan mun ungt fólk og námsmenn standa fyrir aðgerðum gegn heimsvaldastefnu og stríði í skólum sínum og næsta nágrenni mánudaginn 20. mars.

Í Bretlandi hafa samtökin Stop the War Coalition boðað mótmælaaðgerðir laugardaginn 18. mars.

Tvær ferðasögur

By Uncategorized

dufaÞriðjudaginn 10. janúar kl. 17 efna Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna til opins félagsfundar í Friðarhúsi. Á dagskrá verða tvær ólíkar ferðasögur, sem styrktar voru af MFÍK.

1.

Ferð Örnu Aspar Magnúsardóttur til Palestínu

Hún ætlar að tala um reynslu sína þegar hún s.l. sumar en við komuna þangað var hún stöðvuð af ísraelskum yfirvöldum, haldið í yfirheyrslum og snúið aftur. Baráttukonan lætur þó ekki deigan síga. Hún er enn á útleið og undirbýr nú ferðalag til að kynna og ræða umhverfisvernd og náttúruverndarsjónarmið ásamt fleira ungu fólki.

2.

Ferð Guðrúnar Hannesdóttur og Maríu S. Gunnarsdóttur til Parísar í des. 2005.

Þær sátu afmælisfund hjá UNESCO í tilefni 60ára afmælis Alþjóðasamtaka lýðræðissinnaðra kvenna og áttu auk þess fundi með fulltrúum m.a. franskra og sænskra kvennasamtaka.

MFÍK