Skip to main content

Rannsóknarstöð í jarðvísindum reist á rústum herstöðvar

By Uncategorized

Eftirfarandi hugmynd var birt á vefsíðu Ögmundar Jónassonar, ogmundur.is, 8. september síðastliðinn:

    Hugmynd um Keflavíkurflugvöll; Í gær sótti ég málþing um eldfjallagarð á Reykjanesi og kom þar upp hugmynd um að nýta byggingarnar á herstöð Keflavíkur til þess að byggja upp háskólasamfélag sem ætlað væri að laða að fólk erlendis frá í rannsóknir og nám í jarðfræðunum öllum, bæði BA, Master og Doktorsnám. Þar væru nemar og vísindafólk í næsta nágrenni við plötuskil og eldfjallagarðinn sem gengur inn á land þarna við Atlantshafið. Hvernig væri að kanna hvort slík hugmynd væri framkvæmanleg og vænleg áður en VG kemst í meirihluta og ríkisstjórn á næsta ári?
    Andrea

Fleiri hugmyndir hafa komið um menntasetur á Suðurnesjum þegar herinn er farinn. Hér á Friðarvefnum hefur verið verið varpað fram hugmynd um að friðarrannsóknarstofnun verði sett þar upp á vegum Háskóla Íslands og Ólafur Þór Gunnarsson læknir hefur viðrað hugmynd um „Björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna“.

Snautleg brottför

By Uncategorized

Yankee go home Á vefritinu Múrnum 11. september fjallaði Ármann Jakobsson um snautlega brottför bandaríska hersins og tilgangsleysi hans alla tíð: „Orustuþoturnar eru löngu farnar. Ekkert hefur enn gerst. Ekkert mun gerast. Íslendingar þörfnuðust bandaríska hersins aldrei og hann gerði hér lítið sem ekkert gagn, nema kannski að flýta fyrir íslensku sjónvarpi. Annars er vera hans hér ein sorgarsaga. En þökk sé þeim sem tóku að sér aumasta hlutverkið í þessari sögu blasir hinn snautlegi endir hennar við öllum sem sjá vilja.“ Sjá hér.

Mynd: www.lewrockwell.com

11. september: ein öld liðin frá því að hreyfing Gandhis varð til

By Uncategorized

Í dag eru fjölmiðlar uppteknir af atburðunum í Bandaríkjunum fyrir 5 árum, sem vonlegt er. Inn á milli frétta og greina um þá má einhvers staðar lesa litla frétt um árlegar mótmælaaðgerðir í Chile, en þar minnast menn þess að 11. september 1973 framdi herinn valdarán undir forystu Augusto Pinochets og með aðstoð bandarísku leyniþjónustunnnar, CIA. Á næstu árum voru a.m.k. 3000 manns drepnir eða hurfu, tugir þúsunda voru fangelsaðir og máttu fjölmargir þeirra þola pyntingar, 30 þúsund flúðu land. Herforingjastjórnin tók síðan þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um ríkisstyrkt hryðjuverk undir forystu Bandaríkjanna, Kondór-áætluninni svokölluðu.

Þessir tveir atburðir tengja mánaðardaginn 11. september við ofbeldi og skelfingu. En dagurinn á sér einnig bjartari sögu. Fyrir einni öld, 11. september 1906, gerðist það í Jóhannesarborg í Suður-Afríku að Indverjinn Mahatma Gandhi boðaði til fundar gegn nýjum kynþáttalögum sem beindust gegn Indverjum, Tyrkjum og Aröbum. Á fundinum reis upp gamall múslími, Sheth Habib að nafni, og lýsti því yfir í guðs nafni að hann mundi aldrei hlýða þessum lögum. Gandhi hafði þá um margra ára skeið andæft óréttlætinu með aðferðum friðsamlegrar óhlýðni. Á þessum fundi varð til hin friðsamlega indverska andófshreyfing, sem kennd var við Satyagraha.

Viðbrögð Bandaríkjastjórnar við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum (hver sem nú að þeim stóð) var að hefja Heimsstríð gegn hryðjuverkum (Global War on Terrorism, skammstafað GWOT), stríð sem hefur valdið dauða tugþúsunda manna, skert mannréttidi og magnað upp hryðjuverkahættuna. Sú hreyfing sem varð til fyrir tilhlutan Mahatma Gandhis og Sheth Habibs í Jóhannesarborg 11. september 1906 hefur hins vegar haft áhrif á fjölmarga baráttumenn sem hafa haft mikil áhrif til góðs án ofbeldis og bjargað lífi eða aukið lífsgæði ótal manna, þótt sumir, svo sem Martin Luther King, hafi sjálfir orðið ofbeldinu að bráð.

Nú, í þessum orðum skrifuðum, í hádeginu 11. september, berast fréttir af því að ýmsir ætli að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna fyrir 5 árum með einnar mínútu þögn. Gott og vel, en væri ekki ástæða til að minnast allra þeirra sem hafa orðið fórnarlömb ofbeldis, hvort sem það var í New York fyrir fimm árum, í Líbanon nú í sumar, í Írak og Darfur á hverjum degi, eða hvar sem er annars staðar, því að öll mannslíf eru jafn dýrmæt. Það getur hver og einn þagað út af fyrir sig og hugleitt á meðan hvernig megi útrýma ofbeldinu og óréttlætinu, til dæmis með því að fylgja fordæmi Gandhis, Habibs og Kings frekar en Bush og Blairs.

Einar Ólafsson

Sjá einnig:
Chilean coup of 1973 – Wikipedia
Kondóráætlunin – Múrinn
Remembering the Nonviolent September 11 – Transnational.org

Kók framleitt að nýju í Afganistan

By Uncategorized

Eftirfarandi frétt birtist í Fréttablaðinu og á visir.is í dag, 11. september:

Fréttablaðið, 11. September 2006 01:00

Forseti Afganistans fagnar nýjum áfanga:

Kók framleitt að nýju í Afganistan

Hamid Karzaí, forseti Afganistans, tók þátt í hátíðlegri athöfn þegar ný verksmiðja Coca Cola-fyrirtækisins var opnuð í höfuðborginni Kabúl í gær. Meira en tíu ár eru síðan gamla verksmiðjan eyðilagðist í borgarastyrjöldinni, sem geisaði í landinu á árunum 1992 til 1996 og varð meira en fimmtíu þúsund manns að bana í höfuðborginni.

Karzai bar lof á Habibullah Guizar, sem hafði frumkvæði að því að verksmiðjan yrði reist. Guizar fjárfesti í verksmiðjunni fyrir 25 milljónir dala, eða sem svarar nærri 1,8 milljörðum króna.

Verksmiðjan getur framleitt árlega 350 milljón flöskur með gosdrykknum vinsæla og geta 350 manns haft þar af fasta atvinnu.

„Þetta er enn eitt skrefið áfram í áttina að auknum hagvexti, sjálfbærum efnahag og betri lífskjörum í Afganistan,” sagði Karzaí í opnunarræðu sem hann hélt í gær.

Þessa dagana geisa í suðurhluta landsins hörðustu bardagarnir sem þar hafa átt sér stað síðan talibanastjórnin féll fyrir nærri fimm árum. Núna um helgina segjast hersveitir Nató og heimamanna hafa fellt 94 talibana í loftárásum og árásum á jörðu niðri.

NATO: hernámslið í Afganistan

By Uncategorized

Stop NATO Fáir virðast sakna bandaríska hersins nú þegar hann er næstum farinn nema fáeinir staðnaðir kaldastríðsmenn úr framlínu stjórnarflokkanna. Þær raddir heyrast allvíða að við eigum að vera fegin að vera laus úr félagsskapnum við Bandaríkin, enda sé hann ekki félegur nú þegar Bush og hans nótar ráða þar ríkjum. Hins vegar segja margir að við þurfum einhverjar varnir samt, en aðildin að NATO tryggi þær.

En mörgum sést yfir að NATO er að vissu leyti tæki í þjónustu Bandaríkjanna. Kannski ekki að öllu leyti, Bandaríkin ráða ekki öllu, en ansi miklu og það er almennt viðurkennt að Bandaríkin séu forysturíki NATO, eða eins og Vigfús Geirdal komst að orði í grein sem birtist í Morgunblaðinu og svo hér á Frðarvefnum í júlí: „NATO er ekki sjálfstæð stofnun sem getur sett Bandaríkjunum stólinn fyrir dyrnar sem eins konar yfirþjóðlegt vald. Bandaríkin ráða þar þvert á móti nokkurn veginn því sem þau vilja. NATO er bandalag Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra. Bandaríkin leggja til bæði hernaðarmáttinn og fjármagnið að langmestu leyti. Jafnvel það fé til styrktar hernaðarframkvæmdum einstakra aðildarríkja (t.d. Bandaríkjahers hér á landi) sem sagt er koma úr svokölluðum mannvirkjasjóði NATO er að stærstum hluta bandarískt fjármagn.“ Og það er ekki aðeins svo að yfirhershöfðingjar helstu herstjórna bandalagsins séu bandarískir heldur eru bandarískir herforingjar settir yfir foringja hinna aðildarríkjanna á öllum lægri stjórnunarstigum.

Bandaríkjamenn notuðu NATO til að gera innrás í Júgóslavíu vorið 1999 og með því varð NATO virkt árásarbandalag. Af ýmsum ástæðum treystu Bandaríkjamenn ekki á NATO við innrásirnar í Afganistan 2001 og Írak 2003, en hins vegar gripu þeir til NATO í kjölfar innrásarinnar í Afganistan. NATO tók þá að sér einhvers konar friðargæsluhlutverk í umboði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þessa dagana er að koma mjög greinilega í ljós hvaða hlutverki NATO gegnir í raun og veru í Afganistan. Hvaða álit sem menn hafa á Talibana-stjórninni sálugu í Afganistan, þá er það staðreynd að henni var vikið úr sessi með innrás Bandaríkjanna sem settu aðra stjórn í staðinn, stjórn sem aldrei hefur náð að ráða landinu, hún ræður nánast bara Kabúl og næsta nágrenni. Sú stjórn nýtur bersýnilega ekki mikils stuðnings í landinu. Hlutverk NATO núna er ekki að gæta friðar í landinu heldur að halda áfram því sem Bandaríkjunum tókst aldrei að klára með innrásinni 2001. Þannig er NATO ekkert annað en blóðugt verkfæri Bandaríkjanna og hvort sem mönnum líka betur eða verr eru íslensku „friðargæsluliðarnir“ hluti af þessu hernámsliði.

Ef við reynum að skilja samhengi hlutanna, þá er það augljóst að úrsögn úr NATO er eina rökrétta framhaldið af brotthvarfi hersins.

Mynd: stopnato.org.uk