Baldvin Halldórsson kvaddur

By 16/07/2007 July 23rd, 2007 Uncategorized

Baldvin Halld  rsson Baldvin Halldórsson er látinn. Við minnumst Baldvins sem eins merkasta leikara og leikstjóra hér á landi á síðustu öld. En einnig minnumst við hans sem einarðs herstöðvaandstæðings sem lét aldrei deigan síga, ómyrkur í máli þegar talið barst að herstöðvamálinu eða fólskuverkum hernaðar- og heimsvaldasinna. Hann kunni að kveða sterkt að en þó þannig að mark yrði á tekið. Hann var upplýstur maður og unni landinu og íslenskri menningu og íslenskum bókmenntum, en hann var líka alþýðumaður og maður réttlætis án landamæra.

Iðulega mætti Baldvin Halldórsson á samkomur herstöðvandstæðinga og mótmælafundi gegn herstöðvum og hernaðarlegu ofbeldi. Alltaf var hann boðinn og búinn, hvort sem var til að vera kynnir á samkomum eða lesa upp – og enginn las upp af meiri alvöru, meiri þrótti eða hugsjón en Baldvin Halldórsson. Og gegnum þessa alvöru skein gamansemi og hlýja.

Herstöðvaandstæðingar minnast Baldvins Halldórssonar með virðingu og þakklæti. Samtök hernaðarandstæðinga senda fjölskyldu hans og öðrum vinum og vandamönnum samúðarkveðjur.