Ávarp við lok friðargöngu á Þorláksmessu

By 28/12/2006 Uncategorized

pin world peace lgFalasteen Abu Libdeh flutti ávarp á Lækjartorgi við lok friðargöngunnar á Þorláksmessu. Það birtist hér í heild sinni.

Fyrir nokkrum dögum fékk ég boð um að koma hér í dag og tala um frið. Ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um áður en ég þáði það boð.

Ekki hvarflaði þó að mér að það að tala um frið gæti orðið snúið viðfangsefni. Við vitum jú öll hvað friður er, eða teljum okkur að minnsta kosti vita það og höfum kannski upplifað það sem við skilgreinum sem frið.

Ég velti því sjálf fyrir mér hvernig ég upplifði þetta hugtak og spurði um leið aðra þess sama. Niðurstaðan er einföld, við upplifum öll frið á okkar hátt og jafnvel á fleiri en eina vegu hvert.

Hinn venjulegi íslendingur á ekki við að hann vilji vera laus við sprengjuregn og lífsháska þegar hann segist vilja ró og frið um jólin. Í hans huga er friður meira fólgin í einhverskonar rólegheitum, þægilegri tónlist, mjúkum sófa, smákökum, farsíma sem stilltur er á silent og fréttastofu sem lætur það vera að segja óþægilegar fréttir í einn dag. Það er sá friður og ró sem við óskum sjálfum okkur þessa dagana. Við viljum einfaldlega hafa það sérstaklega náðugt.

En við notum líka hugtakið friður á annan hátt. Við tölum um frið í heiminum og við notum hátíðarnar sérstaklega í þeim tilgangi að sýna að við viljum frið um alla jörð. Við göngum saman hér í dag og sýnum sjálfum okkur og öðrum að við látum okkur hagsmuni annarra varða. Við komum saman til að minna hvort annað á að það eru ekki allir sem búa við sömu aðstæður og við. En um leið og við gerum það þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að það eru ekki allir sem búa við þau forréttindi að hugsa um frið á sama hátt og við.

picasso grossFyrir þeim sem búa við þær aðstæður að geta ekki brauðfætt sig og sína með góðu móti, fyrir þann sem býr við lélegan húsakost og litla sem enga heilbrigðisþjónustu, fyrir þann sem á sér litla sem enga möguleika á að afla sér menntunar, fyrir þann sem sér ekki neina möguleika á að fá atvinnu við hæfi, – er friður í besta falli hjóm eitt í samanburði við veruleikann. Fyrir hann hefur friður allt aðra merkingu.

Þannig markar staða okkar í efnahagslegu og menningarlegu tilliti að einhverju leyti afstöðu okkar til friðarhugtaksins og gildi þess.

Barn í stríðshrjáðu landi óskar sér þess að fá að standa í sporum þess sem hefur efni á að segjast óska sér friðar, þ.e. að vera í þeim sporum að eiga allt og vanhaga ekki um neitt.

Til þess að geta átt von á að það muni ríkja friður á jörð þurfum við að læra að þekkja hvort annað og mismunandi aðstæður. Við sem búum við þau forréttindi að hafa svigrúm til að setja frið í forgang, verðum að taka forystuna og gera hinum kleyft að gera það sama.

Þegar fréttir birtast af mannfalli í mið-austurlöndum, þegar fréttir berast af því að börn og ungmenni hafi verið myrt, þegar fréttir berast um að þúsundir barna deyji á hverjum degi úr hungri, þá er það ekki vegna þess að við séum tilfinningalaus að við fellum ekki tár. Það er vegna þess að við finnum ekki fyrir raunverulegum tengslum við efni fréttarinnar, fólkið sem rætt er um. Við finnum ekki fyrir þeim samhljóm sem er grundvallarforsenda þess að við getum fundið til með hvort öðru.

Við verðum að huga að því sem skapar frið, í stað þess að horfa á frið sem eitthvað sjálfstætt fyrirbrigði sem hægt er að koma á með því að tala um það á hátíðísdögum. Við verðum að læra að þekkja hvort annað og skilja að við erum öll eins, með nákvæmlega sömu væntingar til lífsins, hvort sem við fæðumst í Írak eða Íslandi, Ameríku eða Afríku. Við verðum að einblína á þá það sem tengir okkur, það sem við eigum öll sameiginlegt og finna til raunverulegrar samkenndar.

Við verðum að hætta að einblína á það sem skilur fólk í sundur og reyna að hugsa um það sem sameinar okkur öll. Okkur kann kannski að þykja það lítið samhengi hlutana í dag en á endanum er það einmitt það sem skiptir öllu. Það er það sem tengir okkur og veldur því að við finnum til með hvoru öðru, veldur því að fréttir af hörmulegum atburðum snerta strengi í huga okkar og kallar fram samhug og samkennd.

Íslendingar eins og aðrir verða því að opna huga sinn gagnvart fólki sem hefur ekki sama uppruna, leggja sig fram um að þekkja og skilja. Það er eitthvað sem við getum öll gert og eigum ef til vill að hafa hugfast í þerri umræðu sem nú er í þjóðfélaginu og snýr að nýjum íbúum þessa lands. Notum tækifærið til að læra að þekkja umheiminn í gegnum nýtt fólk og tökum á nýjum tímum sem tækifærum í stað þess að hrópa endalaust að upp sé komið vandamál.

palestine children playingÉg flutti sjálf til Íslands þegar ég var að nálgast fullorðinsárin en áður var ég ein af krökkunum sem þið heyrið um í fréttunum á nánast hverjum degi, ein af þessum Palestínsku börnum sem kasta grjóti að Ísraelskum hermönnum. Í dag á ég átta ára dóttur og nú þegar ég hugsa til baka til þess tíma þegar ég var sjálf átta ára, þá átta ég mig á að ég bý ekki aðeins öðru landi, held ég bý ég við allt annan veruleika. Ég man sjálf eftir því þegar ég var átta ára og stríðið byrjaði að nýju í mínu heimalandi, landinu sem ég kallaði alltaf Palestínu – en aðrir vildu kalla eitthvað annað.

Ég man eftir föstudeginum þegar ég fór í fyrsta sinn með frænda mínum til bænahússins þar sem búið var að skipuleggja mótmæli að aflokinni bænastund. Ég man eftir þeim ótta sem greip um sig í huga mínum þegar Ísraelskir hermenn dreifðu táragasi um svæðið og hófu að skjóta á allt sem hreyfðist með hörðum gúmmíkúlum. Ég man eftir því að hafa falið mig undir stóru tré og grátið – ein og búin að týna stóra frænda mínum. Ég komst heim til mín að lokum og viku síðar var ég staðráðin í því að fara aftur. Ég hafði sigrast á óttanum og fannst ég jafnvel hafa gert töluvert gagn. Ég var ekki lengur litla stelpan sem pissaði úr sig af hræðslu af ótta við hermennina, ég var orðin ein af hópnum, þeim sem börðust fyrir sjálfstæði Palestínumanna.

Ég hafði alist upp við sögur forfeðra minna af þeim hörmungum sem þeir máttu þola í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis, það er minn bakgrunnur, mínar rætur. Með það í huga er ekki óskiljanlegt að átta ára barn finni sér tilgang í því að kasta grjóti að brynvörðum hermönnum.

Í Evrópu hefur ríkt friður í rúma hálfa öld – við eigum að vera þakklát fyrir það en á sama tíma þá megum við ekki gleyma því hvað gjald var greitt fyrir þann frið og hverjir það eru sem greiða.

Falasteen Abu Libdeh