Góðu blysberar fyrir friði, ágæta fundarfólk
Það eru 43 ár liðin síðan fyrst var gengið fyrir friði á Þorláksmessu. Þá var skuggi kjarnorkuógnar yfir Evrópu og heimi öllum. Sú ógn hefur síst minnkað með árunum.
Kjarnorkuvopnum hefur einungis verið beitt af Bandaríkjaher. Það var í stríðslok þegar kjarnorkusprengjum var varpað á íbúa borganna Hiroshima og Nagasaki í Japan með hræðilegum afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Nýverið varpaði ísraelskur hershöfðingi fram þeirri hugmynd að varpa kjarnorkusprengju á Gaza.
Allt frá stríðslokum hefur heimurinn þurft að horfa upp á ekki færri en hundrað stríð, og í langflestum tilvikum hefur bandalagsríki Íslands, Bandaríkin, verið að verki, beint eða óbeint. Ljót verk og hryllileg hafa verið unnin, sem fyrst og fremst hafa bitnað á óbreyttum borgurum. Oft hefur því skugga borið á, en sjaldan sem nú.
Í ellefu vikur hefur nú staðið yfir það, sem Ísraelsstjórn kallar „stríð gegn Hamas“ en er fyrst og fremst stríð gegn börnum, gegn mæðrum, stríð gegn Palestínu. Ef stríð skyldi kalla, þegar aðeins er um einn her að ræða, 500 þúsund manna her – þetta er næstum einsog þegar mest var í Víetnamstríðinu – og gegn honum standa einhverjir tugir þúsunda liðsmanna, andspyrnuhreyfinganna Al Qassam, Al Quds og fleiri minni hópa. Þeir fyrrnefndu er hluti eins tæknivæddasta hers heims, þeir síðarnefndu ráða yfir handvopnum og heimasmíðuðum eldflaugum. Netanyahu segir langt eftir af þessari útrýmingarherferð, þetta taki tíma. Markmiðið er löngu orðið ljóst, það er að eyða palestínskri byggð á Gaza. Stefna Ísraels er að hrekja Palestínumenn úr landi, en drepa þá ella.
Við þessari grimmd, þessari illsku, sem við verðum að horfast í augu við, er fátt annað til ráða en biðja bænirnar sínar, að biðja Guð að hjálpa sér, einsog formaður Eflingar orðaði það fyrir rúmum tveimur mánuðum, á fyrsta útiifundinum vegna árásanna á Gaza. En samstaða skiptir líka máli og nú hafa verið haldnar meira en 20 samstöðuaðgerðir af ýmsu tagi með þátttöku þúsunda; samstöðugöngur, útifundir, stór innifundur og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.
Börn og mæður eru langstærsti hluti þeirra sem deyja í sprengjuárásum á Gaza, eða 70% þeirra sem láta lífið. Fjöldi barna sem hafa verið myrt af Ísraelsher nálgast nú 10 þúsund. Mun fleiri lifa af, særð og örkumla fyrir lífstíð og sennilega verður þeim erfiðast að glíma við sálrænar afleiðingar, áfallaraskanir sem seint linnir. Að sjálfsögðu hafa þessi börn ekkert með Hamas, Islamic Jihad eða aðra flokka að gera. Þau hafa ekkert til sakar unnið, annað en að vera fædd í Palestínu.
Tæpar tvær milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi. Ekki er um neitt húsaskjól að ræða heldur í besta falli tjöld, oftast heimatilbúin. Þau veita lítið skjól fyrir vaxandi kulda og rigningum sem nú ganga yfir og flestir hafa ekkert skjól. Hætt er við að fleiri eigi eftir að deyja úr kulda, vosbúð og sjúkdómum en af völdum sprengja og byssukúlna.
Öll heilsugæsla og flest sjúkrahús eru óstarfhæf. Meira en helmingur heimila í landinu hafa verið jöfnuð við jörðu. Engu er hlíft, ekki sjúkrahúsum, ekki skólum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, ekki moskum eða kirkjum og ekki bakaríum, aldingörðum, ávaxtatrjám né neinu sem fólk hefur til lífsviðurværis. Enginn er óhultur og enginn staður öruggur. Þetta er gjöreyðingarherferð sem er ætlað að leysa Palestínu vandamálið í eitt skipti fyrir öll. Það var byrjað á Gaza en herferðin er farin að taka til Vesturbakkans í æ ríkari mæli.
Heimurinn hrópar nú á vopnahlé, en ekki nógu hátt. Ekkert vopnahlé, segir Netanyahu, við höldum stríðinu áfram í nokkra mánuði enn. Haldið skal áfram að murka lífið úr Palestínumönnum, varnarlausu fólki.
Er hægt að halda uppi eðlilegu stjórnmálasambandi við ríkisstjórn sem hagar sér þannig og sem telur sig hafna yfir öll lög, hvort sem er alþjóðalög eða ályktanir Sameinuðu þjóðanna? Getum við að minnsta kosti ekki tilkynnt sendiherra Ísraels, sem staðsettur er í Osló, að hann sé óvelkominn til Íslands?
Bandaríkjastjórn hefur beitt neitunarvaldi í Öryggisráði SÞ í þágu Ísraels til að fella tillögu um vopnahlé, sem er eina leiðin til að stöðva blóðbaðið.
Geta okkar stjórnvöld látið einsog ekkert sé, þegar horft er upp á tortímingu þjóðar, stríðsglæpi fyrir allra augum, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð?
Við höfum gengið þessa blysför fyrir friði í 43 ár. Margt stríð og marga ógnina hefur borið á góma. En við höfum aldrei staðið í þeim sporum sem við stöndum nú.
Þessi hrylllingur sem horft er upp á á Gazaströndinni er meiri en í öðrum stríðum og eru þau ófá og nógu hræðileg og ævinlega óbreyttir borgarar sem verða mest fyrir barðinu á þeim.
En á Gaza eru aðstæður fólks svo margfallt verri en nokkurs staðar annars staðar. Aðalframkvæmdastjóri SÞ og talsmenn Barnahjálparinnar UNICEF tala skýru máli um að annað eins hafi aldrei sést.
2.3 milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í herkví í 17 ár á smá landsvæði, Gaza-ströndinni, einu sem telst 360 ferkílómetrar. Nú hafa íbúarnir verið reknir eins og fé til slátrunar suðar á bóginn, stað úr stað, en ekkert dregið úr loftárásum. Sprengjuárásir hafa verið látlausar og stöðugt hert á, nema í stuttu hléi sem varði í nokkra daga.
Nú er flóttafólkinu gert að koma sér fyrir á Al Mawasi, sandbletti við ströndina hjá Rafah, svæði sem er 6 ferkílómetrar að stærð. Ekkert vatn nema sjórinn, engin hreinlætis- eða salernisaðstaða, ekkert eldsneyti né rafmagn, engin matvæli né lyf, engin heilsugæsla, engin aðstaða til eins né neins. Hér er meira en milljón manna, matarlaus og klæðafá, í vaxandi kulda og rigningu, ætlað að koma sér fyrir og bíða dauða síns.
Þennan hrylling verður að binda endi á. Vopnahlé er lífsnauðsyn og það strax. Bjarga verður þeim mannslífum sem hægt er með öllum ráðum.
Ef Netanyahu og Ísraelsher halda sinni gjöreyðingarherferð áfram, þá er Ísrael að grafa sér æ dýpri gröf. Báðir aðilar þurfa frið, réttlátan frið.
Það liggur fyrir að öll stjórnmálaöfl í Palestínu, þar á meðal Hamas-samtökin, vilja semja um frið við Ísrael, undir formerkjum alþjóðalaga og ályktana Sameinu þjóðanna, þar með landamæranna frá 1967, en þau ein hafa alþjóðlegt gildi.
Þessi lausn er í samræmi við stefnu Alþingis. Og við hljótum að krefjast þess af ríkisstjórn okkar og stjórnvöldum að þau leggi sig betur fram í að knýja Ísraelsstjórn að samningaborði.
Það verður líka krefjast þess af Bandaríkjastjórn að hún láti af skiilyrðislausum stuðningi sínum við gjöreyðingarherferð Ísraelshers.
Við viljum frið í Palestínu og frjálsa Palestínu.
Samstaðan er mikils virði. Hvert og eitt ykkar sem takið þátt hér í dag skiptir máli.
Milljónir króna hafa safnast í neyðaraðstoð, 17 ára stúlka sem misst hafði fjölskyldu sína í loftárásum á Gaza, sjálf misst ganglim og vildi sameinast bræðrum sínum á Íslandi, fékk nánast umsvifalaust ríkisborgararétt; allt þetta endurspeglar eindreginn hug íslensku þjóðarinnar og samstöðu hennar með palestínsku þjóðinni.
Jólin eru að ganga í garð með boðskap friðar, kærleika og vonar. Lítum til palestínsku þjóðarinnar sem mátt hefur búa við hernám og kúgun í 75 ár. Hún hefur mætt örlögum sínum með endalausri seiglu, hugrekki, friðarvilja og varðveitt mennskuna. Höfum hana að fyrirmynd. Syngjum Heims um ból, fullum rómi í trú á frelsi og frið.
Gleðileg jól.
-Sveinn Rúnar Hauksson